Hoppa yfir valmynd
9. september 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Hækkun grunnframfærslu LÍN

Hækkun grunnframfærslu LÍN er mikilvæg aðgerð til að vinna gegn atvinnuleysi.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 8. september 2009 tillögu félags- og tryggingamálaráðherra og menntamálaráðherra um að hækka grunnframfærslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna um 20%. Telja ráðherrarnir það mikilvæga aðgerð til að vinna gegn atvinnuleysi, þá sérstaklega langtímaatvinnuleysi ungs fólks og koma þannig í veg fyrir það að til verði sérstök „týnd kynslóð“ eins og talað er um í Finnlandi.

Hækkun grunnframfærslu LÍN í 120 þúsund krónur minnkar aðdráttarafl 135 þúsund króna atvinnuleysisbóta til mikilla muna og færri ættu að leita eftir atvinnuleysisbótum og fleiri sækja sér menntun á lánum hjá LÍN. Þannig mun slík aðgerð vinna gegn stöðnun og langtímaatvinnuleysi.

Ráðuneytin tvö hafa, ásamt fulltrúum Lánasjóðs íslenskra námsmanna og Vinnumálastofnunar, unnið að tillögum sem minnka bilið milli atvinnuleysisbóta og grunnframfærslu námsmanna en áhyggjur hafa verið af því að fólk fari ekki í nám eða hætti í námi af fjárhagsástæðum. Einnig hafa nokkur brögð verið að því að fólk stundi fullt lánshæft nám á atvinnuleysisbótum. Nýjar tölur frá Vinnumálastofnun sýna að 345 einstaklingar hafa stundað nám á atvinnuleysisbótum á skjön við reglur stofnunarinnar fyrir utan þá sem gert hafa sérstaka námssamninga.

Þessi aðgerð er liður í heildstæðri stefnumörkun sem nú á sér stað á vegum beggja ráðuneyta til að hvetja atvinnulausa til mennta og draga þannig úr atvinnuleysi og styðja við efnahagslega framþróun byggða á aukinni færni og þekkingu. Lykilatriði í því efni er að bæta menntaúrræði fyrir atvinnulausa og auðvelda atvinnulausum með ýmsum hætti að hefja nám.

Sérstök áhersla er nú lögð á þróun menntaúrræða fyrir þann hóp atvinnulausra sem einungis hefur lokið grunnskólaprófi en sá hópur er fjölmennastur á atvinnuleysisskrá. Búist er við tillögum í því efni á næstu vikum.

Hækkun framfærslunnar kostar um einn milljarð króna fyrir ríkissjóð. Til að mæta þessum kostnaði er gert ráð fyrir sparnaði í atvinnuleysistryggingakerfinu með ýmsum aðgerðum. Af hálfu félags- og tryggingamálaráðuneytisins er lagt til að dregið verði úr möguleikum á að sækja einingabært háskólanám af hverju tagi sem er á atvinnuleysisbótum þar á meðal nám með vinnu, kvöldnám eða fjarnám. Einnig verður þrengt að rétti námsmanna til töku atvinnuleysisbóta í sumarleyfi skóla.

Atvinnulausir munu áfram geta sótt námskeið á vegum endurmenntunarstofnana háskólanna sem eru skilgreind sem endurmenntun fyrir ákveðna hópa og leiða ekki til háskólagráðu og geta því ekki verið hluti af lánshæfu námi. Þetta eru t.d. námskeið hjá Endurmenntun HÍ og hjá Opna háskólanum.

Gert er ráð fyrir því að Lánasjóðurinn dragi úr kostnaði með því að auka tekjuskerðingu námslána úr 10% í 35% og taka upp 750.000 króna frítekjumark sem yrði fimmfalt fyrir þá sem eru að koma úr vinnu.

Ennfremur að framfærsla einstaklinga í heimahúsum standi í stað og verði þannig 50% af grunnframfærslu. Jafnframt er gert ráð fyrir að LÍN fylgi eftir þegar boðuðum breytingum á úthlutunarreglum er varða skólagjaldalán fyrir skólaárið 2010-2011.

Framangreindar tillögur um breytingar á tekjuskerðingarviðmiðum koma sér best fyrir þann hóp námsmanna sem hefur minnstar tekjur. Gert er ráð fyrir því að framfærsla hækki eða standi í stað hjá miklum meirihluta námsmanna eða allt að 80%. Einstaklingar í leiguhúsnæði með undir 1.760 þús. kr. í árslaun með námi fá hækkun miðað við núverandi kerfi en þeir sem eru yfir þessum mörkum fá minna. Einstaklingar með tekjur yfir 3.850 þús. kr. á ári fá ekki lengur námslán eftir breytingarnar.

Breytingarnar koma sér ekki síst vel fyrir barnafólk sem er um 40% af lánþegum LÍN. Dæmi um einstætt foreldri með tvö börn og milljón í árstekjur gerir ráð fyrir að framfærslan hækki um um það bil 40 þúsund krónur á mánuði. Einstaklingur í sambúð með tvö börn og 1 milljón í árstekjur hækkar um rúm 30 þúsund krónur.

Þær lánsáætlanir sem þegar hafa verið gefnar út af LÍN vegna skólaársins 2009-2010 gilda skv. áður útgefnum úthlutunarreglum. Hins vegar geta námsmenn óskað eftir nýrri lánsáætlun skv. breyttum reglum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum