Hoppa yfir valmynd
1. október 2009 Forsætisráðuneytið

Færri sveitarfélög og fleiri verkefni

Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga fimmtudaginn 1. október 2009.

Ágætu sveitarstjórnarmenn.

Það hefur sjálfsagt aldrei verið mikilvægara en einmitt nú að koma saman til fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna.

Það hafa verið óvissutímar á flestum sviðum fjármála og sveitarfélögin hafa ekki frekar en ríkið farið varhluta af þeim efnahagsþrengingum sem þjóðin á við að glíma.

Við vitum að við Íslendingar þurfum að halda vel á spöðunum til þess að gera þessa
djúpu efnahagslægð eins skammvinna og mögulegt er. Það kallar á samstöðu og samvinnu, ríkisstjórnar, sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðar ofl. En við erum þrautseig þjóð, það hefur sagan kennt, og við munum vinna okkur út úr þessum erfiðleikum.

Það lýsir vel viðhorfum ríkisstjórnarinnar hve sveitarstjórnarmálin fá mikið vægi í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Aukið vægi sveitarstjórna og bætt samskipti ríkis og sveitarfélaga eru lykilatriði í okkar huga.

Við viljum efla hið staðbundna lýðræði og bæta lýðræðisleg vinnubrögð, við viljum færa verkefnin heim í hérað auk þess að styrkja og breikka tekjustofna. Við viljum auka efnahagssamráð ríkis og sveitarfélaga og við viljum skapa farsæl samskipti og traust á milli aðila. Þetta eru allt áherslur sem þið, ágætu sveitarstjórnarmenn, hafið einnig sett í forgang og því eigum við mikla samleið við úrvinnslu þessara verkefna.

Ég fagna því sérstaklega þeirri yfirlýsingu sem Kristján Möller samgönguráðherra og Halldór Halldórsson, formaður stjórnar Sambands sveitarfélaga, undirrituðu á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga í vikunni um frekari vinnu við sameiningar sveitarfélaga. Með henni er ætlunin að skoða sameiningarkosti í hverjum landshluta og móta tillögur til ákvörðunar á landsþingi ykkar og síðan á Alþingi sem er nýlunda.

Ég styð þessi áform eindregið og fagna því líka að Vestfirðingar og Austfirðingar hafa þegar byrjað að ræða í alvöru um stóra sameiningu sveitarfélaga í sínum landshlutum.

Við höfum í mörg ár, með mikilli fyrirhöfn, farið leið frjálsrar sameiningar og þótt hún hafi vissulega skilað miklum árangri í sameiningu er enn langt í land að mínu mati. Eins og bent hefur verið á er meira en helmingur allra sveitarfélaga á Íslandi með færri en eitt þúsund íbúa og það gengur ekki í mínum huga. Ég tel það raunsætt og raunar mjög mikilvægt vegna vaxandi hlutverks sveitarfélaganna og síaukinna verkefna að þeim fækki úr 77 í 17 á næstu árum.


Og hlutur sveitarfélaganna á bara eftir að aukast. Þess vegna þarf þeim að vaxa ásmegin. Verkefnisstjórn á vegum félags- og tryggingamálaráðherra vinnur til dæmis að yfirfærslu málefna fatlaðra og aldraðra til sveitarfélaganna á árunum 2011 og 2012. Ég legg mikla áherslu á að haldið verði fast í þessi áform. Það er löngu tímabært að samþætta þessa mikilvægu velferðarþjónustu annarri velferðarþjónustu sem sveitarfélögin annast og reynsla þeirra sveitarfélaga sem tekið hafa þessi verkefni mælir með því að þessi leið sé farin.

Ég tek ekki undir með þeim sem segja, að nú sé ekki rétti tíminn til að gera þetta og vísa til efnahagsástandsins – ég held því þvert á móti fram, að það sé engin fyrirstaða, miklu frekar tel ég að það geti kallað fram tækifæri til nýsköpunar og endurnýjunar sem geti leitt til betri en um leið hagkvæmari þjónustu á þessu sviði.

Ég tel jafnframt að þetta sé ekki endastöð hvað breytingar á verkaskiptingu varðar. Við þurfum sem fyrst að ákveða hvaða verkefni verða næst í röðinni og hvenær rétti tíminn er fyrir áframhaldandi breytingar. Ég nefni framhaldsskólann, sem sveitarfélögin sjálf hafa bryddað uppá, ég nefni heilsugæsluna og ég nefni verkefni á sviði samgöngumála.

En samhliða auknum verkefnum hljótum við að gera ríkari kröfu um það að öll sveitarfélög axli sína ábyrgð í uppbyggingu samfélagsins. Þetta á við bæði um velferðarþjónustuna og ekki síður um stuðning við atvinnulíf og menningu. Ekkert sveitarfélag má vera stikk frí í þessum efnum. Allra síst á þrengingartímum eins og þeim sem við nú upplifum. Það er ófært og í raun óliðandi að einstök sveitarfélög, jafnvel þau sem vel eru sett og nýta ekki tekjustofna sína til fulls bjóði ekki uppá fullar húsaleigubætur, félagslegt húsnæði eða sérstakar húsaleigubætur og  tryggi ekki lágmarks þjónustu við aldraða, fatlaða og þá sem standa höllum fæti á meðan önnur á sama svæði eiga i miklum erfiðleikum með að halda uppi lögboðnu þjónustustigi. Þannig getum við ekki hagað okkur lengur- allir verða að axla sínar byrðar. Sú  þjónusta sem hér um ræðir er öðrum þræði lögbundin en mörg sveitarfélög gera betur en lög kveða á um og getur sú aðstoð ráðið úrslitum um velferð einstakra fjölskyldna.

Ágætu fundarmenn!
Nú er unnið að endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga í stórri nefnd en hugsunin er sú að við getum náð breiðri samstöðu um þá endurskoðun. Slík samstaða er æskileg en áhersla á hana má ekki verða til þess að málið koðni niður í athafaleysi.

Útsvarið er langstærsti tekjustofn sveitarfélaga eins og þið þekkið. Útsvarið er um 70% af heildartekjum sveitarfélaganna, þó svo að mörg sveitarfélög, einkum hin smærri, reiði sig ekki síður á framlög úr Jöfnunarsjóði.

Nefndin þarf að skoða tekjustofnakerfið í heild og meta kerfisbreytingar, svo sem hvar og hvernig liggja tækifæri til að útvíkka og breikka tekjustofna. En hún þarf einnig að fjalla um innbyrðis skiptingu tekjustofna milli sveitarfélaga. Skattstofnar eru missterkir og það hefur í för með sér ójafnræði milli sveitarfélaga með hliðsjón af útgjaldaþörf þeirra, nema til komi öflugar jöfnunaraðgerðir. Er það þannig sem við viljum hafa það, eða eru aðrar leiðir sem koma til álita?

Regluverk Jöfnunarsjóðs er sömuleiðs allt til skoðunar og er tillagna sérstaks starfshóps um úrbætur á því að vænta fyrir árslok.

Við ættum nú einnig að nýta tækifærið til þess að ljúka mótun fjármálareglna fyrir sveitarfélögin á næstu mánuðum. Við verðum að tryggja jafnvægi í rekstri sveitarfélaga yfir hagsveifluna með því að styrkja ákvæði í sveitarstjórnarlögum.

Í kjölfarið ættu ríki og sveitarfélög að gera með sér hagstjórnarsamning líkt og tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Fjármálareglur og slíkir hagstjórnarsamningar væru öflug tæki við þær erfiðu aðstæður sem við stöndum nú frammi fyrir í fjármálum hins opinbera. Á sama tíma verður að bæta og styrkja efnahagslegt samráð stjórnsýslustiganna.

Við verðum að styrkja samráðsnefnd um efnahagsmál og ég bind einnig vonir við að nýtt ráðuneyti efnhags- og viðskiptamála verði mjög virkt í þessu samráði og leiði það til framtíðar. Þar sem pólitískrar stefnumótunar er þörf mun svo ráðherranefnd um efnahagsmál taka af skarið með forsvarsmönnum sveitastjórna. Til þess að slíkt samráð verði sem öflugast er þó nauðsynlegt að bæta skil á hagtölum um stöðu sveitarfélaganna. Helst þyrftu að liggja fyrir tölur um fjármál sveitarfélaganna mánaðarlega líkt og hjá ríkissjóði.

Ég tel einnig nauðsynlegt að litið verði til þess hvort ekki skuli setja reglur um lántökur sveitarfélaga í erlendri mynt. Eins og við höfum öll séð getur 45%  skuldsetning sveitarfélaga í erlendri mynt verið stórvarasöm, amk á meðan við nýtum krónuna sem gjaldmiðil. Skortur á samráði á þessu sviði er talinn til veikleika í okkar hagkerfi sem við þurfum að taka á. Veikleikinn er einkum talinn felast í því að rúmar heimildir eru hjá sveitarfélögum til lántöku og skuldsetningar, og að krafan um hallalausan rekstur er mjög veik. Það verður ekki hjá því komist að gera einhverjar breytingar hvað þetta varðar.

Í kjölfar efnahagshrunsins var samráð ríkis og sveitarfélaga aukið og leiddi það til þess að gerðar voru ýmsar breytingar á lögum til að bæta stöðu einstakra sveitarfélaga. Meðal annars var útsvarið hækkað um 0,25 prósentustig og fallið var frá lækkun fasteignaskatts á opinberar eignir, auk þess sem aukaframlag Jöfnunarsjóðs var tryggt. Unnið er nú í samgönguráðuneytinu að setningu reglna varðandi úthlutun framlagsins í ár.

Lýðræðishópur sambandsins hefur unnið ötullega að mótun siðareglna fyrir sveitarstjórnarstigið og ég styð heilshugar slíka vinnu ykkar sveitarstjórnarmanna. Við bíðum eftir að sjá mótaðar tillögur og það mun ekki standa á okkur að finna leiðir til að styðja eða innleiða slíkar viðmiðunarreglur í viðeigandi regluverk.

Ég hef farið yfir sjónarmið sambandsins varðandi frumvarp til laga um persónukjör. Margar af ykkar ábendingum eiga rétt á sér og þær munum við skoða. Ég vil þó leggja áherslu á að megintilangur þeirrar breytingar sem lögð hefur verið til er að bæta og styrkja stöðu kjósenda við val á fulltrúum á Alþingi eða í sveitarstjórn. Við eigum ekki að vera hrædd við þessi skref, þau eru nauðsynlegar lýðræðisumbætur og eru án efa mikilvægt skref í að færa aukið vald inn í kjörklefann.

Krafa almennings um aukið lýðræði og meiri áhrif kjósenda er hávær og réttmæt. Við kjörnir fulltrúar megum ekki  daufheyrast við þessum kröfum fólksins. Tíminn fyrir breytingar er núna og tíminn er nægur ef viljinn fyrir hendi. Ég bendi á að nánast allar breytingar á kosningalöggjöf hér á landi hafa átt sér stað með tiltölulega skömmum fyrirvara fyrir kosningar. Sá tími sem nú er til stefnu er rúmur í þeim samanburði.

Meðal gagnrýnisradda sem heyrst hafa er að það fyrirkomulag persónukjörs sem lagt er til tryggi ekki jafna stöðu kynjanna í kosningum. Um þessar mundir er nefnd að ljúka störfum um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum og verður fróðlegt að sjá hennar niðurstöður. Við skulum hins vegar hafa í huga að núverandi fyrirkomulag kosninga tryggir ekki jafna stöðu kynjanna. Það hefur verið  á ábyrgð flokkanna sjálfra að tryggja stöðu kynjanna á framboðslistum sínum. Þeirri jafnréttiskröfu hafa sumir flokkar svarað en aðrir ekki, því miður. Mín skoðun er sú að persónukjör muni bæta stöðu kvenna á framboðslistum og reynsla annarsstaðar á Norðurlöndum styður hana.

Mikilvægt er að hlusta á öll sjónarmið og rök varðandi beint persónukjör. Það verður því verkefni Alþingis halda áfram umfjöllun um málið en ég legg alla áherslu á að það verði klárað á fyrstu mánuðum þings nú í haust þannig að ljóst verði vel fyrir áramót hvaða reglur muni gilda í sveitarstjórnarkosningunum að vori.

Kæru sveitarstjórnarmenn!
Í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er unnið hörðum höndum að gerð sóknaráætlana fyrir alla landshluta. Þetta er brýnt verkefni sem miðar að því að skapa nýja sýn á svæðasamstarf í landinu, efla staðbundna áætlanagerð og tryggja að sjónarmið stjórnsýslu, atvinnulífs og menningar á hverju svæði verði hluti af stefnumörkun viðkomandi svæða.

Sveitarfélögin hafa mikilvægu hlutverki að gegna í þessu sambandi, þau eru leiðandi afl í svæðasamvinnu og þess vegna hafa þau fengið mikið hlutverk í þessu þýðingarmikla verkefni.

Vinna við gerð sóknaráætlana fyrir hvern landshluta felur einnig í sér tímabært og kærkomið tækifæri til að skoða svæðasamvinnu hér á landi í alþjóðlegu samhengi. Við þurfum að spyrja okkur um það hvernig getum við endurskiplagt heimavinnu okkar á sviði byggða og sveitarstjórnarmála til þess að nýta sem best þau tækifæri sem t.d. kunna að vera framundan á sviði Evrópumála.

Stuðningur úr uppbyggingar- og byggðasjóðum ESB byggist að miklu leyti á því að styðja við þróun og atvinnusköpun á einstökum svæðum með hliðsjón af sóknaráætlunum viðkomandi ríkja. Meginspurningin í því sambandi snýst um það, hvaða svæðaskipulag er rétt að hafa á Íslandi með hliðsjón af þessu, hvernig skipuleggjum við samstarf og sóknaráætlanir innan svæða svo sem stjórnsýslu, atvinnulíf, menningu ofl. og hvernig skipuleggjum við samskipti viðkomandi svæðis við stjórnvöld.

Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga komi með formlegum hætti að aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Skipulag aðildarviðræðna er nú til skoðunar í utanríkisráðuneytinu, það verða margir kallaðir að þessari vinnu og mjög mikilvægt er að sveitarfélögin fái sæti við samningaborðið.

Ágæta sveitarstjórnarfólk!
Ríkisstjórnin hefur lagt nýjan grunn að ríkisfjármálum næstu fjögurra ára. Við höfum samþykkt stefnumörkun sem gerir okkur kleift að takast á við afleiðingar hrunsins og aðlaga rekstur ríkissjóðs að þeim raunveruleika sem við búum við. Það er verkefni sem kallar á uppstokkun alls ríkisrekstursins og gerir ráð fyrir að stoppað verði í 190 milljarða halla á 4 árum. Þegar í lok árs 2010 er gert ráð fyrir að hallinn hafi minnkað um tæpa 100 milljarða króna. Þessu verður náð fram jafnhliða með niðurskurði, sparnaði, uppstokkun ríkiskerfisins og réttlátari  skattastefnu en verið hefur.

Allstaðar þarf að draga saman og hagræða í rekstri, hjá því verður ekki komist en ríkisstjórnin er sammála um þá forgangsröðun að verja eins og hægt er bæði grunnþjónustuna og störfin. Launalækkanir eru óumflýjanlegar í öllu opinbera kerfinu, hversu sársaukafullt sem það er, en þó hefur verið mörkuð sú stefna að laun undir 400 þúsund verða ekki skert.

Efnahagskreppan hefur augljóslega haft mikil áhrif á fjármál sveitarfélaganna og gríðarlegur viðsnúningur hefur orðið á rekstri bæði sveitarsjóða og samstæðureikninga frá árinu 2007, þegar góðærið var í algleymingi, til ársins 2008 þegar kreppan skall á af fullum þunga. Ég geri ráð fyrir því að horfurnar í rekstri á þessu ári séu heldur ekki bjartar hjá allmörgum sveitarfélögum. Við þurfum því sérstaklega að huga að endurskipulagningu skulda hjá minni sveitarfélögum og ef til vill horfast í augu við að þau geti betur fengist við vandann með sameiningu við önnur sveitarfélög.

Mikill viðsnúningur í fjárhag sveitarfélaga skýrist af allmörgum þáttum svo sem lækkandi tekjum og auknum velferðarútgjöldum, en þó vega einna þyngst áhrifin af gengisfalli krónunnar annars vegar og mikil verðbólga.

Þessi breytta staða færir okkur óþægilega heim sanninn um það að við getum ekki treyst á svo veikan gjaldmiðil sem krónan er, en ætla okkur um leið að búa við opið hagkerfi á frjálsu markaðssvæði með öðrum ríkjum. Þetta er dýrkeyptur lærdómur, og vonandi erum við Íslendingar tilbúnir til að draga lærdóm af því.

Ágætu ráðstefnugestir!
Þann 25. júní sl. var af hálfu ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins undirritaður stöðuleikasáttmáli sem markar á vissan hátt upphafið að endurreisn íslenskt samfélags og efnahagslífs. Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að við stöndum öll saman í þeim brýnu verkefnum sem framundan eru og þar gegna sveitarfélögin afar mikilvægu hlutverki. Sjaldan hefur máltækið „sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér“ átt betur við.

Ég fullvissa ykkur um að á vettvangi ríkistjórnarinnar er unnið hörðum höndum að þeim verkefnum sem kveðið er á um í sáttmálanum í smáu sem stóru.  Eins og fram kemur þar segir að gengið verði "frá útistandandi skuldum ríkisins vegna húsaleigubóta".  Það er vegna samkomulags sem ég gerði sem félagsmálaráðherra  fyrrihluta 2008 og vantaði nokkuð upp á að ríkissjóður stæði við 60% þátttöku sína í viðbótar húsaleigubótum. Ástæðan fyrir því var mun meiri eftirspurn eftir bótum miðað við forsendur samkomulagsins. Viðbótarfjárþörfin vegna 2008 var talin vera 147 m.kr. og áætluð viðbótar vöntun vegna 2009 eru 496 m.kr. Stöðugleikasáttmálinn tekur af allan vafa um þetta og nú hefur Jöfnunarsjóður fengið fjárveitingu til að standa við þessa viðbótar fjárþörf, hann mun því greiða 60% af viðbótarhútaleigubótum sveitarfélaga eins og samningurinn kveður á um.

Nú þegar hafa verið teknar ýmsar ákvarðanir sem munu verða innspýting í efnahagslíf okkar og koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju. Þið þekkið þetta af umræðu síðustu daga, Búðarháls, endurbygging álversins í Straumsvík, álver í Helguvík, Suðvesturlína, Nýr Landspítali og fleira.

Mér finnst ánægjulegt að geta sagt frá því hér að ýmsar stórar samgönguframkvæmdir eru tilbúnar til forvals og útboða. Þar er um að ræða Suðurlandsveg frá Selfossi til Reykjavíkur, Vesturlandsveg frá Þingvallavegi að Hvalfjarðargöngum, Vaðlaheiðargöng og fleiri samgönguframkvæmdir. Þá  er undirbúningi lokið fyrir þrjú útboð vegna Landeyjarhafnar, byggingu á þjónustu- og ferjuhúsi, hafnargarði og skipaaðstöðu og dýpkun innsiglingarrennu. Einnig mun verða haldið áfram með álætlaðar vegaframkvæmdir víðsvegur um landið. Loks má geta að í framhaldi af farsímavæðingu er nú unnið að háhraðatengingum um land allt af fullum krafti.

Varðstaða um velferð í íslensku samfélagi er grundvallarþáttur í stöðugleikasáttmálanum. Þar gegnir Velferðarvaktin sem er samstarfsverkefni ríkisins, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins mikilvægu hlutverki. Verkefni hennar felast í því að greina áhrif kreppunnar á ungt fólk, fjármál heimilanna, vinnumarkaðsúrræði og aðstæður fólks án atvinnu, aðstæður þeirra sem standa höllum  fæti og velferðarvaktin á gera tillögur um viðbrögð og aðgerðir þegar á þarf að halda.

Í stöðugleikasáttmálanum var ákveðið að vinna að úrlausn á skuldavanda heimila og fyrirtækja og í gær var tilkynnt um aðgerðir á því sviði. Þau ná til almennra úrræða, sértækra aðgerða og endurbóta á greiðsluaðlögun. Það er trú mín að þessar aðgerðir, viðbótarúrræði einstakra fjármálastofnanna og þær fjölmörgu aðgerðir sem þegar hefur verið gipið til í þessu skini, tryggi húsnæðisöryggi fólks og að skuldsett heimili verði ekki föst í skuldafjötrum um ókomna tíð.  Þær eiga altént að duga til þess að fólk geti hafið endurskipulagningu skuldamála sinna þannig að fjölskyldur og heimili sjái fram á viðunandi greiðslubyrði og allir geti tekið þátt í endurreisninni sem framundan er.

En við þurfum líka að draga lærdóma af þróun mála á húsnæðismarkaði undanfarin ár og misseri og gera það sem í okkar valdi stendur til að forða samfélagi okkar frá því að sama sagan endurtaki sig. Húsnæðisöryggi fólks á ekki að verða ofurselt dutlungum markaðarins. Séreignastefnan sem nánast eini valkostur fólks hefur að mínu viti runnið sitt skeið og nýtt húsnæðiskerfi, þar sem raunverulegt val getur staðið á milli búsetuforma hlýtur að taka við. Við þurfum að tryggja virkan leigurmarkað, efla búseturéttarformið og setja bönd á markaðsöflin þegar kemur að húsnæði fólks. Ríki, sveitarfélög, hagsmunaaðilar og fjármálastofnanir þurfa að ná sátt um framtíðarfyrirkomulag í þessum efnum og ég hvet menn til að hraða þeirri vinnu sem allra mest.

Ágæta sveitarstjórnarfólk.
Sveitarstjórnarmenn hafa kallað eftir auknu og betra samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Ég tel að við höfum náð ákveðnum árangri á síðustu misserum hvað það varðar, ég leyfi mér að fullyrða að það sé meiri skilningur nú en oft áður á mikilvægi og stöðu sveitarfélaganna í íslensku samfélagi.

Sameiginlega er unnið að fjölmörgum verkefnum til eflingar sveitarstjórnarstigsins eins og ég hef rakið. Ríkisstjórnin mun áfram kappkosta að eiga við ykkur, kæra sveitarstjórnarfólk, náið og gott samráð. Við höfum brýn verkefni að vinna fyrir land og þjóð, samvinna okkar er lykill að farsælum árangri.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta