Hoppa yfir valmynd
5. október 2009 Forsætisráðuneytið

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar 2009-2010

Í eftirfarandi skrá er getið um þau lagafrumvörp sem unnið er að í einstökum ráðuneytum og áformað er að flytja á 138. löggjafarþingi. Flutt kunna að verða fleiri frumvörp en getið er og atvik geta hindrað flutning einstakra frumvarpa. Jafnframt eru taldar upp tillögur til þingsályktunar sem ætlunin er að flytja.

Þingmálaskrá er fylgiskjal með stefnuræðu forsætisráðherra 5. október 2009.

Forsætisráðuneytið

 1. Frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur.
  Í frumvarpinu verður lagt til að sett verði almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Markmið frumvarpsins er að kveða með almennum lögum á um framkvæmd og tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu hvort sem um er að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu sem skylt er að halda samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar eða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi ákveður að efna til með samþykkt þingsályktunartillögu. (Haust.)
 2. Frumvarp til laga um stjórnlagaþing.
  Í frumvarpinu verður lagt til að sett verði á fót ráðgefandi stjórnlagaþing sem falið verði að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins. (Haust.)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðanda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006.
  Í frumvarpinu verða lagðar fram tillögur um breytingar á lögunum með hliðsjón af fenginni reynslu við framkvæmd þeirra og með hliðsjón af tilmælum sem sett eru fram í skýrslu GRECO, ríkjahóps Evrópuráðsins um aðgerðir gegn spillingu, frá 4. apríl 2008. (Haust.)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilflutnings verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.
  Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögum vegna flutnings og endurskipulagningar verkefna milli ráðuneyta og vegna sameiningar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis í eitt avinnuvegaráðuneyti. (Haust.)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969.
  Stefnt er að því að setja ákvæði í lög um Stjórnarráð Íslands þar sem forsætisráðherra er falið að staðfesta siðareglur fyrir ráðherra, embættismenn í ráðuneytum og annað starfsfólk þeirra. Siðareglurnar hafa verið í undirbúningi undanfarna mánuði og munu drög að þeim fylgja frumvarpinu. (Haust.)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, 34/1944.
  Í frumvarpinu verða gerðar tillögur um breytingar á ákvæðum laganna um heimildir til að nota íslenska fánann í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu.(Haust.)
 7. Frumvarp til laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á vist- og meðferðarheimilum fyrir börn.
  Í kjölfar tveggja skýrslna vistheimilisnefndar verður flutt frumvarp um fyrirkomulag bótagreiðslna til þeirra sem eiga um sárt að binda vegna illrar meðferðar eða ofbeldis á vistheimilum fyrir börn. (Haust.)
 8. Frumvarp til laga um breyting á lögum um opinberar eftirlitsreglur, nr. 27/1999.
  Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á gildissviði laganna og fyrirkomulagi við eftirfylgni með það að markmiði að bæta vinnubrögð við undirbúning lagasetningar. (Vor.)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 73/1969 og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 73/1996.
  Frumvarpið, sem unnið verður í samráði forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og í samráði við fulltrúa stéttarfélaga opinberra starfsmanna eftir því sem við á, verða lagðar til ýmsar breytingar á lögunum sem varða m.a. starfshætti ríkisstjórnar, innra skipulag ráðuneyta, skipun embættismanna og ráðningu annarra starfsmanna hins opinbera, ráðningu og stöðu pólitískra aðstoðarmenn ráðherra, auglýsingaskyldu starfa hjá hinu opinbera og frávik frá þeirri skyldu m.a. vegna tímabundinna aðstæðna og heimildir til tilflutnings embættismanna og annarra starfsmanna innan Stjórnarráðsins, m.a. um málsmeðferð og formkröfur laganna og mögulega flutningsskyldu. (Vor.)
 10. Frumvarp til laga um breytingar á upplýsingalögum, nr. 50/1996.
  Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á upplýsingalögum með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur af framkvæmd þeirra og úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál með það að markmiði m.a. að rýmka aðgengi almennings að upplýsingum í fórum stjórnvalda og víkka gildissvið laganna, t.d. þannig að þau nái til einkaaðila, þ.e. hlutafélaga og sameignarfélaga, sem alfarið eru í eigu hins opinbera. Við endurskoðun laganna verður tekið mið af löggjöf í nágrannalöndum og sáttmála Evrópuráðsins um aðgang að opinberum upplýsingum. (Vor.)
 11. Tillaga til þingsályktunar um sóknaráætlun fyrir Ísland fram til 2020.
  Um er að ræða ályktun sem lögð verður fyrir Alþingi í tengslum við verkáætlun sem ríkisstjórnin hefur samþykkt og unnið er að á vegum forsætisráðuneytisins um það hvernig best verði lagður grunnur að nýrri sókn í íslensku atvinnulífi og samfélagi. Þetta er liður í efnahagslegri endurreisn þjóðarinnar og hefur það að markmiði að Ísland skipi sér á ný í fremstu röð í verðmætasköpun, menntun, velferð og lífgæðum.(Haust.)

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið

 1. Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19/1940.
  Um er að ræða breytingar á ákvæðum laganna um mansal og peningaþvætti auk nýrra ákvæða um skipulagða brotastarfsemi og upptöku eigna. Um er að ræða breytingar vegna fullgildingar á samningi Sameinuðu þjóðanna um fjölþjóðlega skipulagða brotastarfsemi og bókun við hann um að koma í veg fyrir verslun með fólk og Evrópuráðssamningi um aðgerðir gegn mansali. Jafnframt er um breytingar að ræða vegna tilmæla ríkjahóps Evrópuráðsins gegn spillingu og Financial Action Task Force. Frumvarpið var flutt á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga. (Haust.)
 2. Frumvarp til laga um breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993.
  Í frumvarpinu er lögð til breyting á ýmsum ákvæðum laganna, m.a. um útfarir. Frumvarpið var flutt á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga. (Haust.)
 3. Frumvarp til laga um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða.
  Um er að ræða ný lög sem koma eiga í stað gildandi laga um framsal sakamanna milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7/1962, vegna nýs samnings um framsal sakamanna milli Norðurlandanna sem undirritaður var árið 2005. (Haust.)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984.
  Um er að ræða breytingar vegna samnings Íslands við Evrópusambandið um framsal sakamanna þar sem gert er ráð fyrir að fyrirkomulag framsalsmála verði einfaldað. (Haust.)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998.
  Í frumvarpinu er lagt til að einn dómstóll verði fyrir allt landið en starfsstöðvar dómara verði víða um landið. (Haust.)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.
  Lagt er til að tekið verði upp nýtt kerfi persónukjörs í sveitarstjórnarkosningum sem felur í sér að vald um röðun efstu manna á framboðslistum er alfarið lagt í hendur kjósenda listanna. (Haust.)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.
  Lagt er til að tekið verði upp nýtt kerfi persónukjörs í alþingiskosningum sem felur í sér að vald um röðun efstu manna á framboðslistum er alfarið lagt í hendur kjósenda listanna. (Haust.)
 8. Frumvarp til laga um breyting á skaðabótalögum, nr. 50/1993.
  Endurskoðun reglna um meðábyrgð starfsmanna á tjóni. (Haust.)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940.
   Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á VII. kafla laganna um öryggisráðstafanir. M.a. er stefnt að því að skilgreina betur samspil einstakra úrræða og skilyrði fyrir beitingu þeirra.  (Haust.)
 10. Frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
   Áframhaldandi frestun á að ákvæði laganna um héraðssaksóknara taki gildi. (Haust.)
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fullnustu refsinga, nr. 49/2005.
   Endurskoðun reglna um skilorð og reynslulausn og reglur um rafrænt eftirlit. (Haust.)
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991.
   Breyting á ýmsum ákvæðum laganna er varða nauðasamninga. (Haust.)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðför, nr. 90/1989.
   Endurskoðun reglna um árangurslaust fjárnám. (Haust.)
 14. Frumvarp til laga um breytingu lögreglulögum, nr. 90/1996.
   Endurskoðun á skipulagi lögreglunnar. (Haust.)
 15. Frumvarp til laga um breytingu lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989.
   Endurskoðun á skipulagi sýslumannsembætta. (Haust.)
 16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002.
   Breyting á lögunum vegna dvalarleyfis til þolenda mansals. (Haust.)
 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005.
   Lagt er til að hætt verði að gefa Lögbirtingablaðið út í prentuðu formi. (Haust.)
 18. Frumvarp til þjóðkirkjulaga.
   Lagt er til að sett verði ný lög um þjóðkirkjuna þar sem þjóðkirkjunni verði sjálfri falið að setja sér reglur sem nú eru í lögum. (Haust.)
 19. Breyting á lögum um skráð trúfélög nr. 108/1999.
   Breyting á ákvæðum laganna er varða sjálfvirka skráningu barna í trúfélög. (Vor.)
 20. Frumvarp til laga um lögleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
   Með frumvarpinu er ráðgert að leiða barnasáttmálann í lög hér á landi. (Vor.)
 21. Frumvarp til nýrra laga um Lugano-samninginn.
   Frumvarp til nýrra laga um Lugano-samninginn til innleiðingar á nýjum Lugano-samningi um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum. (Vor.)
 22. Frumvarp til laga um breyting á lögum um happdrætti, nr. 38/2005.
   Um er að ræða endurskoðun á ýmsum ákvæðum laganna, m.a. til að koma í veg fyrir starfsemi happdrætta hér á landi sem ekki hafa fengið hér leyfi fyrir starfsemi sinni. (Vor.)
 23. Frumvarp til vopnalaga.
   Um er að ræða heildarendurskoðun á gildandi vopnalögum, nr. 16/1998. (Vor.)
 24. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
   Endurskoðun ákvæða laganna um nektardans. (Vor.)
 25. Breyting á almennum hegningarlögum nr. 19/1940.
  Endurskoðun á ákvæðum laganna er varða hryðjuverk til innleiðingar á Evrópuráðssamningi um varnir gegn hryðjuverkum. (Vor.)

Félags- og tryggingamálaráðuneyti

 1. Frumvarp til laga um aðgerðir til að taka á skuldavanda heimilanna.
  Í frumvarpinu felast aðgerðir til að rýmka heimildir til greiðslujöfnunar lána, greiðsluaðlögunar, niðurfærslu skulda með sértækum hætti o.fl. (Haust.)
 2. Frumvarp til laga um Íbúðalánasjóð.
  Gert er ráð fyrir að nauðsynlegt verði að flytja frumvarp um breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs, m.a. í tengslum við þær aðgerðir sem tengjast skuldamálum heimilanna.(Haust.)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.
  Frumvarpið mun fela í sér endurskoðun á lögunum sem byggist á reynslu af framkvæmd atvinnuleysistryggingakerfisins á síðustu mánuðum sem og bráðabirgðaákvæðum laganna auk breytinga er lúta að réttindum námsmanna til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þar á meðal verða breytingar sem þykja til þess fallnar að koma í veg fyrir misnotkun innan kerfisins. (Haust.)
 4. Frumvarp til laga um eftirlit á vinnustöðum og vinnustaðaskilríki.
  Frumvarpið mun veita efni kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins á almenna vinnumarkaðnum almennt gildi hvað varðar vinnustaðaskilríki auk þess að styrkja eftirlit aðila vinnumarkaðarins á vinnustöðum með því að vinnuveitendur fari að settum reglum á vinnumarkaði. Enn fremur er markmiðið að tryggja að hlutaðeigandi stjórnvöld geti nýtt sér þær upplýsingar er fram koma við eftirlitið. (Haust.)
 5. Frumvarp til laga um sameiningu stofnana á sviði almannatrygginga og vinnumála.
  Frumvarpið mun fela í sér tillögu um sameiningu stofnana á sviði almannatrygginga og vinnumála í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. (Haust.)
 6. Frumvarp til laga um sjálfstætt eftirlit á sviði velferðarþjónustu.
  Í frumvarpinu verður m.a. fjallað um framsetningu verklýsinga, viðmið um framkvæmd þjónustunnar, umsjón með gerð samninga við verksala þegar það á við og eftirlit með því að settar kröfur og viðmið séu uppfyllt. Undir þetta eftirlit heyra m.a. málaflokkar fatlaðra og aldraðra, barnaverndarmál, almannatryggingar og atvinnuleysistryggingar. (Haust.)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlaun til aldraðra, nr. 113/1994.
  Samkvæmt frumvarpinu mun Tryggingastofnun ríkisins taka yfir öll störf umsjónarnefndar eftirlauna og nefndin verða lögð niður. Ekki er gert ráð fyrir öðrum breytingum á lögunum þar sem framkvæmd þeirra er í föstum skorðum. (Haust.)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.
  Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að lengja heimild til að greiða endurhæfingarlífeyri en í núgildandi lögum er hámarkstímalengd endurhæfingarlífeyris 18 mánuðir eftir að greiðslu sjúkra- eða slysadagpeninga lýkur. (Haust.)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.
  Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að reglum um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði verði breytt í því skyni að lækka útgjöld sjóðsins um 1.200 m.kr. á ársgrundvelli. (Haust.)
 10. Frumvarp til laga um Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.
  Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur verið starfandi frá árinu 1996 og nú standa 16 aðilar að þeirri starfsemi. Ráðgjafarstofan hefur ekki lagastoð og er stefnt að því að setja löggjöf sem festir stofnunina betur í sessi og skýrir rekstrarform hennar sem og samnings- og réttarstöðu starfsmanna hennar. (Haust.)
 11. Endurskoðun á barnaverndarlögum, nr. 80/2002.
  Frumvarpið mun fela í sér nauðsynlegar breytingar sem byggjast á reynslu barnaverndaryfirvalda um allt land með það að markmiði að styrkja stöðu barna. (Haust.)
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra.
  Breytingin varðar gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna við álagningu 2010 vegna tekna 2009. (Haust.)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992.
  Í frumvarpinu verður m.a. fjallað um hvaða breytingar eru nauðsynlegar á núgildandi lögum til að unnt verði að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaga eins og stefnt er að 1. janúar 2011. (Haust.)
 14. Frumvarp til laga um barnatryggingar.
  Í frumvarpinu verður lagt til að tekið verði upp nýtt kerfi barnatrygginga sem komi í stað barnabóta, mæðra‐ og feðralauna, barnalífeyris og viðbótar við atvinnuleysisbætur vegna barna. Miðað er við að öllum barnafjölskyldum verði tryggð ákveðin fjárhæð til lágmarksframfærslu óháð því hvaðan tekjur fjölskyldunnar koma. Barnatryggingar yrðu allar tekjutengdar og mundu skerðast hjá fólki með tekjur umfram meðalráðstöfunartekjur. Hagur tekjulágra hópa, sérstaklega atvinnulausra og láglaunafólks mundi batna og kerfið mundi nýtast vel barnmörgum fjölskyldum. (Haust.)
 15. Skýrsla félags- og tryggingamálaráðherra um vinnu Velferðarvaktarinnar.
  Lögð verður fram skýrsla félags- og tryggingamálaráðherra um vinnu Velferðarvaktarinnar, stöðu mála og tillögur til aðgerða í velferðarmálum. (Haust.)
 16. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum.
  Félags- og tryggingamálaráðherra skal leggja fyrir Alþingi, innan árs frá alþingiskosningum, tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn, sbr. 11. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þingsályktunartillagan mun fela í sér verkefni sem ætlað er að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í íslensku samfélagi. (Vor.)
 17. Frumvarp til laga um aðlögun innflytjenda.
  Í frumvarpinu verður gerð tillaga um nýja löggjöf um aðlögun innflytjenda í samræmi við framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda. (Vor.)
 18. Frumvarp til laga um jafna meðferð fólks á vinnumarkaði án tillits til kynþáttar eða þjóðernis, trúar eða trúarskoðana, fötlunar/örorku, aldurs eða kynhneigðar.
  Frumvarpið mun byggjast í meginatriðum á efnisþáttum tilskipana Evrópusambandsins nr. 2000/43/EB, um innleiðingu meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis, og nr. 2000/78/EB, um innleiðingu meginreglunnar um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi. Felur það meðal annars í sér þá meginreglu að hvers konar mismunun, hvort sem er bein eða óbein, á grundvelli kynþáttar eða þjóðernis, trúar eða trúarskoðana, fötlunar/örorku, aldurs eða kynhneigðar á vinnumarkaði verði gerð óheimil. Á það við meðal annars um aðgang að störfum, ráðningar, laun og önnur starfskjör, starfsþróun, starfsmenntun og uppsagnir að teknu tilliti til þeirra fyrirvara sem tilskipanirnar heimila. (Vor.)
 19. Frumvarp til laga um almannatryggingar.
  Frumvarpið mun aðallega byggjast á tillögum skýrslu verkefnisstjórnar um endurskoðun almannatryggingakerfisins. Í því verður kveðið á um nýtt regluverk hvað varðar ellilífeyri og tengdar bætur. Breytingarnar munu m.a. fela í sér einföldun laganna, fækkun bótaflokka, aukna notkun frítekjumarka og sanngjarnari skerðingarreglur. Þá verða í frumvarpinu ákvæði um markmið og gildissvið laganna, málsmeðferðarreglur, kæruheimildir og fleira sem snýr að réttindum og skyldum borgaranna. Auk þess verða lagðar til breytingar sem þykja til þess fallnar að koma í veg fyrir misnotkun innan kerfisins. Síðasttalda breytingin kann þó að verða lögð til þegar á haustþingi. (Vor.)
 20. Endurskoðun á lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992.
  Endurskoða þarf lög um málefni fatlaðra vegna fullgildingar samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Einnig þarf að festa í lög ákvæði um notendastýrða þjónustu. (Vor.)

Fjármálaráðuneytið

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.
  Lagðar verða til ýmsar breytingar á tekjuskattskerfinu í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins. (Haust.)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.
  Lagðar verða til breytingar á þessum lögum í tengslum við breytingar á tekjuskattskerfinu í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins. (Haust.)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.
  Lagðar verða til breytingar á þessum lögum í tengslum við breytingar á tekjuskattskerfinu í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins. (Haust.)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
  Lagðar verða til ýmsar breytingar á virðisaukaskattskerfinu í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins. (Haust.)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 97/1978, um vörugjald.
  Lagðar verða til ýmsar breytingar á vörugjaldskerfinu í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins. (Haust.)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki.
  Lögð verður til hækkun á áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins. (Haust.)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald.
  Lögð verður til hækkun á olíugjaldi og kílómetragjaldi í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins. (Haust.)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.
  Lögð verður til hækkun á almennu og sérstöku bensíngjaldi í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins. (Haust.)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 39/1998, um bifreiðagjald.
  Lögð verður til hækkun á bifreiðagjaldi í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins. (Haust.)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald.
  Lagðar verða til breytingar á tryggingagjaldi í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins og vegna Starfsendurhæfingarsjóðs og framlaga í hann. (Haust.)
 11. Frumvarp til laga um orku-, umhverfis- og auðlindagjald.
  Lagt verður fram frumvarp um upptöku á orku-, umhverfis- og auðlindagjaldi í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins. (Haust.)
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.
  Lagðar verða til breytingar á ýmsum viðmiðunarfjárhæðum laganna, einkum varðandi barnabætur og vaxtabætur, í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins. (Haust.)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um almennu lífeyrissjóðalögin.
  Vegna Starfsendurhæfingarsjóðs, afnáms skattfrestunar o.fl. (Haust.)
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald.
  Heildarendurskoðun. (Haust.)
 15. Frumvarp til laga um kolefnisskatt.
  Breytingar á olíugjaldi, kílómetragjaldi og bensíngjaldi; skattlagning annarra orkugjafa s.s. kola, koks og rafskauta. (Haust.)
 16. Frumvarp til laga um stuðning vegna nýsköpunarfyrirtækja.
  Hlutabréfaafsláttur o.fl. (Haust.)
 17. Frumvarp til laga um komu- og gistináttaskatt.
  Sérstök gjaldskrá. (Haust.)
 18. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
  Vegna Starfsendurhæfingarsjóðs og framlaga í hann. (Haust.)
 19. Frumvarp til laga um fasteignir ríkissjóðs.
  Í frumvarpinu verður lagt til að styrkari lagastoðum verði skotið undir umsýslu með fasteignum ríkisins. (Haust.)
 20. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.
  Lagðar verða til breytingar á skipulagi stofnana skattkerfisins með sameiningu embættis ríkisskattstjóra og skattstofa. (Haust.)

Heilbrigðisráðuneytið

 1. Frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn.
  Heildarlög, koma í stað fjórtán núgildandi laga um heilbrigðisstéttir. Samræming og endurskoðun. (Haust.)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dánarvottorð, krufningar o.fl., nr. 61/1998.
  Flutningur dánarmeinaskrár frá Hagstofu til landlæknis. (Haust.)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996.
  Ákvæði varðandi gjafakynfrumur, staðgöngumæðrun o.fl. (Vor.) 
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.
  Ákvæði um samningsgerð um veitingu heilbrigðisþjónustu. (Vor.)
 5. Frumvarp til laga um slysatryggingar.
  Heildarlög. Endurskoða þarf ákvæði laga um slysatryggingar sem eru að mörgu leyti mjög úrelt og fella brott ákvæði úr lögum um almannatryggingar, enda falla þau lög nú undir félags- og tryggingamálaráðuneyti. (Vor.)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994.
  Lyfjagagnagrunnur, aðgangur. Lyfjaávísanir, takmörkuð heimild annarra en lækna til lyfjaávísana. Tryggingar þátttakenda í klínískum lyfjaprófunum. (Vor.)
 7. Frumvarp til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.
  Heildarlög. (Vor.)

Iðnarráðuneytið

 1. Frumvarp til laga um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.
  Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að lögð sé rík áhersla á að ljúka gerð rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða sem allra fyrst og hún verði lögð fyrir Alþingi á vetri komanda og fái lögformlega stöðu í stjórnkerfinu. Liður í þessu er að leggja fram frumvarp til laga um rammaáætlun þar sem kveðið verði á um lagalegan sess rammaáætlunar, endurskoðun hennar o.fl. Þá verður kveðið á um að iðnaðarráðherra skuli leggja fram með reglulegu millibili tillögu til þingsályktunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, sem byggist á niðurstöðum rammaáætlunar. (Haust.)
 2. Tillaga til þingsályktunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.
  Verði frumvarp til laga um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma að lögum mun iðnaðarráðherra leggja fram tillögu til þingsályktunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þingsályktunartillagan mun byggjast á niðurstöðum verkefnisstjórnar í 2. áfanga rammaáætlunar. (Vor.)
 3. Frumvarp til vatnalaga.
  Vatnalög, nr. 20/2006, öðlast gildi 1. júlí 2010. Í samræmi við ákvæði laga um breytingu á vatnalögum hefur iðnaðarráðherra skipað nefnd í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra til að endurskoða ákvæði laganna. Þegar nefndin hefur lokið störfum mun iðnaðarráðherra leggja fram frumvarp byggt á tillögum nefndarinnar. (Haust.)
 4. Frumvarp til laga um breytingar á raforkulögum.
  Að störfum er nefnd sem iðnaðarráðherra skipaði til að endurskoða ákvæði raforkulaga. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í raforkulögum skal endurskoðuninni lokið fyrir 31. desember 2010. Ýmis atriði endurskoðunarinnar þurfa að koma til framkvæmda fyrir þann tíma og því er gert ráð fyrir að nefndin skili áfangaskýrslu í haust um þau atriði. (Haust.)
 5. Skýrsla iðnaðarráðherra um raforkumálefni.
  Samkvæmt 39. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, leggur iðnaðarráðherra skýrslu um raforkumálefni fyrir Alþingi á tveggja ára fresti. Í skýrslunni skal fjallað um ýmis atriði er snerta vinnslu, sölu og notkun raforku, raforkuþörf, rannsóknir orkulinda, styrkingu flutningskerfisins, gæði raforku og þjóðhagslega þýðingu áætlaðra framkvæmda á sviði raforkumála og áhrif þeirra á atvinnulíf og byggð í landinu. (Haust.)
 6. Frumvarp til laga um breytingar á sérlögum um orkufyrirtæki.
  Í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 58/2008 var iðnaðarráðherra falið að beita sér fyrir endurskoðun á sérlögum um orkufyrirtæki, þar sem m.a. yrði tekið til skoðunar hvort hægt væri að fella þau brott að hluta eða öllu leyti. Þá liggur fyrir að breyta þarf lögum um Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur vegna ákvörðunar ESA um eigendaábyrgðir. (Haust.)
 7. Frumvarp til laga um hitaveitur.
  Frumvarpið gerir ráð fyrir að sett verði heildstæð löggjöf um starfsemi hitaveitna. Þar verður m.a. kveðið á um afhendingargæði, neytendavernd og að eftirlit með gjaldskrá hitaveitna verði flutt frá iðnaðarráðuneytinu til Orkustofnunar. (Vor.)
 8. Frumvarp til laga um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.
  Í frumvarpinu er iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera fjárfestingarsamning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, innan ramma laganna, við Verne Holding ehf. um byggingu og rekstur gagnavers í Reykjanesbæ. Fyrirhugað er að viðkomandi fjárfestingarsamningur verði á svipuðum nótum og fyrri fjárfestingarsamningar stjórnvalda í tengslum við álver í Reyðarfirði, Hvalfirði og Helguvík. (Haust.)
 9. Frumvarp til laga um ívilnanir vegna fjárfestinga á Íslandi.
  Fyrirséð er að með almennum lögum um ívilnanir til að örva erlenda fjárfestingu á Íslandi yrði horfið frá því fyrirkomulagi sem tíðkast hefur að gera sértæka fjárfestingarsamninga vegna einstakra verkefna, á grundvelli sérstakra heimildarlaga frá Alþingi. Í stað þess lægi, með slíkri lagasetningu, almennt fyrir hvaða ívilnandi kjör bjóðast erlendum fjárfestum hér á landi og þannig með gegnsæjum hætti reynt að auka möguleika á því að fá til landsins fjölbreytta og jákvæða erlenda fjárfestingu. Víðast hvar í nágrannaríkjum Íslands eru slíkar skilgreindar ívilnanir í boði og væri því með slíkri lagasetningu verið að efla samkeppnishæfni Íslands hvað erlenda fjárfestingu varðar og gera Íslandi betur kleift að nýta þá sérstöðu sem landið hefur í alþjóðlegu tilliti. (Vor.)
 10. Tillaga til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2010–2013.
  Unnið er að gerð nýrrar byggðaáætlunar fyrir tímabilið 2010 til 2013 og verður hún lögð fram sem tillaga til þingályktunar. (Haust.)
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 51/2009, um heimild til samninga um álver í Helguvík.
  Fjárfestingarsamningur um álver í Helguvík var tilkynntur til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem lagði mat á það hvort hann stæðist ríkisstyrkjareglur Evrópusambandsins.Í umfjöllun sinni gerði ESA einkum athugasemdir við tvö atriði samningsins sem kalla á þær lagabreytingar sem eru lagðar til með frumvarpi þessu. Annars vegar varðandi gildistíma samningsins sem var 40 ár en er styttur í 20 ár. Hins vegar er lagt til að ákvæðum um stimpilgjöld verði breytt til samræmis við athugasemdir ESA. Heimild til frávika verði þrengd þannig að frávik frá stimpilgjöldum verði afmörkuð eingöngu við skjöl sem eru gefin út í beinum tengslum við byggingu álversins en ekki rekstur þess í framtíðinni. (Haust.)
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 73/2005, um skipulag ferðamála.
  Breytingarnar lúta annars vegar að innleiðingu tilskipunar 2006/123/EB um þjónustuviðskipti og þeim kröfum sem hún gerir m.a. til leyfisveitinga. Hins vegar lúta breytingarnar að málsmeðferð Ferðamálastofu við mat á fjárhæð tryggingar og framlagningu gagna. Tilgangur breytinganna er að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar, einfalda málsmeðferð og lækka kostnað fyrir leyfishafa. (Haust.)

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið

 1. Frumvarp til laga um hvali.
  Frumvarpið sem er endurflutt frá síðasta þingi byggist á þeirri meginforsendu að ef hvalveiðar verða stundaðar hér við land verði það gert á ábyrgan og sjálfbæran hátt og ekki hvikað þeim rétti strandríkja til að nýta auðlindir sínar með þessum hætti. (Haust.)
 2. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða.
  23. október 2007 heimilaði ríkisstjórnin staðfestingu á sex ákvörðunum sameiginlegu EES nefndarinnar sem fela í sér breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn. Efnislega var um að ræða endurskoðun á undanþágu Íslands frá I. kafla í viðauka I við EES-samninginn og upptöku löggjafar Evrópusambandsins um matvæli og fóður inn í EES-samninginn. (Haust.)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006.
  Með vísan til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar mun ráðherra leggja fram á Alþingi frumvörp er lúta að brýnum breytingum á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni. Til viðbótar þessu verður reynslan af strandveiðum sumarsins metin og í því ljósi gerð tillaga um þær fyrir næstu strandveiðivertíð. Í þessu sambandi er rétt að nefna að starfandi er stór endurskoðunarnefnd sem hefur það hlutverk að leggja fram tillögur sem orðið gætu til þess að náð yrði meiri sátt meðal þjóðarinnar um fiskveiðistjórnarkerfið. (Haust.)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum
  nr. 99/1993.
  Lagðar verða til breytingar á ákvæðum laganna er varða markaðssetningu mjólkur utan greiðslumarks og ákvæði um álagningu dagsekta verða skýrð og einfölduð. Jafnframt er til skoðunar að leggja til breytingar er heimili kjötframleiðendum að standa saman að útflutningi þegar markaðsaðstæður knýja á um slíka ráðstöfun. (Haust.)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra.
  Lagt verður fram frumvarp er heimilar innflutning á frosnu svínasæði í því skyni að auðvelda kynbótastarf í svínarækt. (Haust.)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006.
  Um er að ræða tvíþættar lagfæringar er varða annars vegar viðurlög við óheimilum framkvæmdum í veiðivötnum og hins vegar ákvæði um atkvæðisrétt í veiðifélögum. (Haust.)
 7. Frumvarp til laga um breytingar á jarðalögum og ábúðarlögum.
  Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er tiltekið að hún muni standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar. Jarða- og ábúðarmál eru nátengd yfirlýstum markmiðum um fæðuöryggi þjóðarinnar. Meginstefnan hlýtur að felast í að halda utan um og vernda núverandi og framtíðarlandnæði sem til matvælaframleiðslu er fallið og skapa jafnframt sem best skilyrði í hinum dreifðu byggðum til margvíslegrar starfsemi sem leiði til öflugs og samkeppnishæfs landbúnaðar. (Vor.)

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

 1. Frumvarp til laga um fjölmiðla.
  Frumvarpið felur í sér grunnlöggjöf um starfsemi fjölmiðla auk þess sem lögð er til innleiðing á tilskipun nr. 2007/65/EBE um hljóð og myndmiðlunarþjónustu auk breytinga á lögum um prentrétt. (Haust.)
 2. Frumvarp til laga um framhaldsfræðslu.
  Í frumvarpinu felst tillaga um heildarlöggjöf um skipulag og framkvæmd framhaldsfræðslu. (Haust.)
 3. Frumvarp til laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfsréttinda.
  Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum í tilefni af innleiðingu tilskipunar 2005/36/EB. (Haust.)
 4. Frumvarp til laga um menningarminjar.
  Í frumvarpinu felst ný heildarlöggjöf um skipulag og verndun menningararfsins. (Haust.)
 5. Frumvarp til safnalaga.
  Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi um menningarminjar og tekur til safna í eigu ríkisins, annarra en bóka- og skjalasafna, viðurkenningu safna og safnastarfsemi. (Haust.)
 6. Frumvarp til laga um skil á menningarverðmætum til annarra landa.
  Frumvarpið er fylgifrumvarp frumvarps til laga um menningarminjar. (Haust.)
 7. Frumvarp til laga um Þjóðminjasafn Íslands.
  Frumvarpið er fylgifrumvarp frumvarps til laga um menningarminjar. (Haust.)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum.
  Frumvarpið felur m.a. í sér breytingar á VII. kafla höfundalaga um refsiákvæði, bætur, ákærureglur o.fl. og ennfremur á ákvæðum laganna um heimildir safna og menningarstofnana til eftirgerðar, þar á meðal fyrir blindra, sjónskertra og heyrnarlausa. Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun laga um höfundarétt. (Haust.)
 9. Frumvarp til laga um tónlistarfræðslu.
  Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um skipan tónlistarfræðslu og um samskipti ríkis og sveitarfélaga í þeim málum. (Vor.)

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

 1. Frumvarp til laga um rannsókn samgönguslysa.
  Markmið frumvarpsins er að auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir á Íslandi. Hér er um að ræða frumvarp til nýrra laga sem felur í sér sameiningu laga um rannsókn sjóslysa, laga um rannsókn flugslysa og laga um rannsóknarnefnd umferðarslysa, í heildstæða löggjöf um slysarannsóknir í samgöngum. Gert er ráð fyrir að nefndirnar verði sameinaðar í eina fimm manna rannsóknarnefnd. Gert er ráð fyrir því að hin nýja nefnd, rannsóknarnefnd samgönguslysa, heyri undir ráðherra samgöngumála. (Haust.)
 2. Frumvarp til laga um endurskoðun laga um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum.
  Markmiðið með endurskoðuninni er að ná fram samræmi í gjaldamálum og tekjuöflun vegna framkvæmda og reksturs í flugmálum. Endurskoða þarf tekjuáætlun í ljósi breytinga á stefnu í gjaldamálum með það að markmiði að auka samræmingu í gjaldamálum og tekjuöflun vegna stofnframkvæmda í flugmálum. (Haust.)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Siglingastofnun, nr. 6/1996.
  Markmiðið með lögunum er að styrkja lagastoðir og auka tengingu milli gjaldskrár Siglingastofnunar og kostnaðar við að veita þá þjónustu sem gjöldin eru tekin fyrir. (Haust.)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vitamál.
  Með frumvarpinu á að hækka vitagjald í samræmi við verðlagsbreytingar og með hliðsjón af gengisbreytingum en það hefur ekki hækkað síðan í desember 2002. (Haust.)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 24/1982, um flutningasamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi.
  Markmið frumvarpsins er að endurskoða lögin í heild sinni og aðlaga þeim breytingum sem orðið hafa frá því þau voru samþykkt árið 1982. (Haust.)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.
  Helstu breytingar sem lagðar verða til í frumvarpinu varða annars vegar lækkun álagningarprósentu (gjaldhlutfall) jöfnunargjalds í jöfnunarsjóð alþjónustu. Samkvæmt því skal fjárþörf vegna alþjónustu endurskoðuð árlega í samræmi við fjárþörf sjóðsins. Hins vegar er ætlunin að tryggja fullnægjandi reglugerðarheimild í 35. gr. fjarskiptalaga til að innleiða megi ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 544/2009 frá 18. júní 2009 um breytingar á reglugerð nr. 717/2007 frá 27. júní 2007, um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins, og á tilskipun 2002/21/EB (nýja reikireglugerðin). (Haust.)
 7. Frumvarp til laga um landslénið
  Unnið er að gerð laga um landslénið .is, þar á meðal um lénaúthlutanir, en hingað til hafa engin lög gilt á þessu sviði. Öll helstu nágrannalönd okkar hafa sett lög á þessu sviði. Með frumvarpinu er lagt til að forræði á landsléninu .is sé í höndum íslenskra stjórnvalda og skilgreint hvernig og með hvaða hætti ábyrgð á framkvæmd og stefnumótun varðandi skráningar undir landsléninu skuli skipað auk þess sem kveðið er á um ramma fyrir skráningarskilyrði léna undir landsléninu. Við gerð frumvarpsins er tekið mið af hvernig þessari framkvæmd er háttað í nágrannalöndum. (Haust.)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga.
  Markmiðið með endurskoðun laga nr. 54/1971 er að færa lögin til nútímalegra horfs, gera þau aðgengilegri og endurskoða hugtakanotkun. Lögin eru að stofni til frá árinu 1971 en hafa tekið vissum breytingum. Gert er ráð fyrir aðgangi Innheimtustofnunar að greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. (Haust.)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987.
  Um er að ræða heildarendurskoðun umferðarlaga sem miðar að því að færa umferðalögin í nútímalegra horf og gera þau einfaldari, skýrari og aðgengilegri auk endurskoðunar á viðurlagaþáttum. (Vor.)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 71/2002, um samgönguáætlun.
  Hugað verður að breyttu vinnulagi við undirbúning samgönguáætlunar í ljósi þess að lögð verður áhersla á samþættingu áætlana og tengingu samgönguáætlunar við til að mynda byggðaáætlun og sóknaráætlun. (Vor.)
 11. Frumvarp til laga um endurskoðun loftferðalaga, nr. 60/1998.
  Hér er um heildarendurskoðun laganna að ræða. Markmiðið er að færa þau að núverandi umhverfi og að tiltækar séu almennar heimildir til setningar stjórnvaldsreglna sem þarf til innleiðingar á alþjóðlegum reglum á sviði flugmála. (Vor.)
 12. Frumvarp til laga um endurskoðun siglingalaga, nr. 34/1985.
  Markmiðið með endurskoðuninni er að uppfæra lögin í ljósi ýmissa breytinga sem orðið hafa á síðustu 24 árum og leiða m.a. af alþjóðlegum breytingum. (Vor.)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um leigubifreiðar, nr. 134/2001.
  Um er að ræða heildarendurskoðun laganna en með henni á að færa þau til nútímahorfs miðað við þær breytingar sem orðið hafa á umhverfi greinarinnar. (Vor.)
 14. Frumvarp til laga um skip.
  Hér er um ný lög að ræða. Með þeim eru sameinuð þrenn lög um skip, þ.e. lög um mælingar skipa, lög um skráningu skipa og lög um eftirlit með skipum. Markmiðið er að einfalda og skýra lagaákvæði er tengjast skipum, styrkja lagastoðir vegna stjórnvaldsfyrirmæla, og bæta við efnisákvæðum í þeim tilvikum sem þörf er á. (Vor.)
 15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu og þinglýsingu skipa, nr. 115/1985.
  Markmiðið með lögunum er að einfalda framkvæmd þinglýsingar vegna skipa og tryggja samræmi. Taka á upp samræmdan þinglýsingargagnagrunn fyrir skip í gegnum Landskrá fasteigna, sem er gagna- og upplýsingakerfi á tölvutæku formi í umsjá Fasteignamats ríkisins. Auk þessi vinnast önnur atriði eins og að færsla þinglýsingarbóka skipa og báta verði hjá einu sýslumannsembætti, móttaka skjala til þinglýsingar frá öðrum sýslumannsembættum verði með rafrænum hætti. (Vor.)
 16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 30/2007, um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.
  Með frumvarpinu á að kveða skýrar á um hvaða réttindi þurfi til að annast skipstjórn á frístundafiskveiðiskipum. (Vor.)
 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987.
  Um er að ræða heildarendurskoðun. (Vor.)
 18. Frumvarp til laga um tíðniúthlutanir.
  Unnið er að breytingu á lögum um tíðniúthlutanir en nú er fjallað er um tíðniúthlutanir í lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, að takmörkuðu leyti. Með breytingunum er ætlunin að skapa skýrari umgjörð um skipulag og úthlutun þeirra mikilsverðu réttinda sem fjarskiptatíðnir teljast vera. Hér er um að ræða takmarkaða auðlind sem töluverð fjárhagsleg verðmæti eru bundin við. Því skiptir sköpum að við úthlutun þessara gæða sé farið eftir hlutlægum og gagnsæjum sjónarmiðum á grundvelli fyrirfram ákveðinna reglna þannig að sem best verði tryggt að markmið um sanngirni og jafnræði sé náð um leið og úthlutun tíðna þjóni almannahagsmunum með tilliti til útbreiðslu og aðgengis að fjarskiptaþjónustu um landið allt. (Vor.)
 19. Frumvarp til laga um póstþjónustu.
  Svo innleiða megi tilskipun 2008/6/EB („pósttilskipunina“) er nauðsynlegt að fram fari heildarendurskoðun á núverandi póstlögum, nr. 19/2002. Er því unnið að gerð frumvarps til nýrra laga um póstþjónustu. Helstu breytingar felast í því að afnuminn verði einkaréttur ríkisins á sviði póstþjónustu í samræmi við pósttilskipunina sem felur í sér opnun markaðarins og aukna samkeppni á póstmarkaði. (Vor.)

Umhverfisráðuneytið

 1. Frumvarp til skipulagslaga.
  Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á skipulagsþætti skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. (Haust.)
 2. Frumvarp til laga um mannvirki. 
  Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á byggingarþætti skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. (Haust.)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000.
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem gera þarf á lögum um brunavarnir til samræmis við frumvarp til laga um mannvirki auk annarra breytinga í ljósi reynslu af framkvæmd laganna. (Haust.)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996.
  Markmið frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB í íslensk lög, um vísvitandi sleppingar erfðabreyttra lífvera í náttúruna. (Haust.)
 5. Frumvarp til laga vegna innleiðingar á INSPIRE-tilskipun EB.
  Markmið frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2007/2/EB, um stofnun innra skipulags fyrir staðbundnar landupplýsingar innan Evrópusambandsins (INSPIRE) í íslensk lög. (Haust.)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002.
  Frumvarpið mælir fyrir um breytingar á upphæð úrvinnslugjalds vegna leysiefna, ísósýanata og halógenaðra efnasambanda. (Haust.)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald.
  Markmið frumvarpsins er að starfsemi Endurvinnslunnar hf. verði breytt til samræmis við kröfu um framleiðendaábyrgð, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Við þessa breytingu munu lög nr. 52/1989 falla út gildi. Setja þarf ákvæði um einnota drykkjarvöruumbúðir inn í lög nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og jafnframt fella niður ákvæði um einnota drykkjavöruumbúðir í lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002. Frumvarpið felur einnig í sér innleiðingu nokkurra EB-gerða. Tilskipun 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma, sem kveður m.a. á um framleiðendaábyrgð, markaðssetningu og söfnun, meðhöndlun, endurvinnslu og förgun þeirra. Þá þarf að setja ákvæði um úrgang frá námum, sbr. tilskipun 2006/21/EB. Einnig verður í frumvarpinu mælt fyrir um framleiðendaábyrgð á einnota drykkjarvöruumbúðir, með skilagjaldi, úr áli, stáli, gleri og plastefnum, sem kemur til framkvæmda frá og með 1. janúar 2010. (Haust.)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.
  Með frumvarpinu er ætlunin að breyta frestum vegna úrskurða vegna mats á umhverfisáhrifum og breyta á afmörkun framkvæmda sem falla undir 2. viðauka laganna í ljósi reynslu af framkvæmd þeirra. (Haust.)
 9. Frumvarp til laga um umhverfisábyrgð.
  Markmið frumvarpsins er að tryggja að sá sem ábyrgð ber á umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni komi í veg fyrir tjón ef tjón hefur orðið og beri kostnað af ráðstöfunum sem af því leiða. Með frumvarpinu er ætlunin að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/35/EB, um umhverfisábyrgð, í íslensk lög. (Haust.)
 10. Frumvarp til laga um stjórn vatnsmála.
  Markmið frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB um aðgerðarramma bandalagsins um stefnu í vatnsmálum í íslensk lög. (Vor.)
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994.
  Markmið frumvarpsins er að setja skýrari kröfur um leiðsögumenn vegna hreindýraveiða en einnig að breyta reglum um arð og arðsúthlutun vegna hreindýraveiða. (Vor.)
 12. Frumvarp til laga um efni og efnavöru.
  Heildarendurskoðun laga um eiturefni og hættuleg efni, byggð á tillögum nefndar og nýrri efnalöggjöf EB. (Vor.)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004.
  Frumvarpið er til innleiðingar á tilskipun 2005/35/EB um mengun frá skipum og samræmd refsiákvæði vegna brota. Jafnframt mælir frumvarpið fyrir um viðbrögð við bráðamengun hafs og stranda, um viðbragðsaðila og lágmarksmengunarvarnabúnað í höfnum. (Vor.)
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum er varða veitingu starfsleyfa. (Vor.)
 15. Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009–2013.
  Umhverfisráðherra ber samkvæmt lögum nr. 44/1999, um náttúruvernd, að vinna náttúruverndaráætlun á fimm ára fresti og leggja hana fyrir Alþingi. (Vor.)

Utanríkisráðuneytið

 1. Frumvarp til laga um Íslandsstofu.
   Markmið frumvarpsins er að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins. (Haust.)
 2. Frumvarp til laga um eftirlit með hlutum og þjónustu sem hafa hernaðarlega þýðingu. Með frumvarpinu eru m.a. uppfærðar og útfærðar gildandi reglur (lög nr. 4/1988, um útflutningsleyfi) um eftirlit með útflutningi á hlutum og þjónustu, sem hægt er að nota í hernaði eða til hryðjuverka, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. (Haust.)
 3. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu Evrópusamnings um aðgerðir gegn mansali.
 4. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu bókunar við Palermo-samning gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi, um að koma í veg fyrir og refsa fyrir mansal, einkum á konum og börnum.
 5. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu Evrópusamnings um að koma í veg fyrir hryðjuverk.
 6. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu kjörfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
 7. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu.
 8. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu Evrópusamnings gegn spillingu á sviði einkamálaréttar.
 9. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu Lugano-samnings um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum.
 10. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu samnings Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um að stuðla að fylgni fiskiskipa á úthafinu við alþjóðlegar verndunar- og stjórnunarráðstafanir.
 11. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Noregs um kolvetnisauðlindir beggja vegna markalína.
 12. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samkomulags um breytingar á samningi um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi (NEAFC-samningnum).
 13. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu samnings um réttindi fatlaðra.
 14. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2009.
 15. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2009.
 16. Einnig er gert ráð fyrir að lagðar verði fram tillögur til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar sem fela í sér breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn.
 17. Enn fremur er gert ráð fyrir að lagðar verði fram tillögur til þingsályktunar um staðfestingu væntanlegra fiskveiðisamninga vegna ársins 2010, m.a. samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum og samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið

 1. Frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi.
  Um er að ræða heildarendurskoðun á lögum um vátryggingastarfsemi. Með frumvarpinu eru gerðar tillögur að innleiðingu tilskipunar um endurtryggingu (2005/68/EB) í íslenskan rétt, auk þess sem lagðar eru til nokkrar breytingar á gildandi rétti, m.a. um hæfisskilyrði og heimildir til stjórnarsetu. (Haust.)
 2. Frumvarp til laga um ökutækjatryggingar og skaðabótaábyrgð vegna ökutækja.
  Frumvarpið er samið samhliða samningu frumvarps til laga um ný umferðarlög, þar sem gert er ráð fyrir að ákvæði núgildandi umferðalaga um ökutækjatryggingar verði í sérstakri löggjöf. (Haust.)
 3. Frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki í ljósi fjármálaáfallsins, m.a. um heimildir eftirlitsaðila til inngrips, hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja, ábyrgð innri endurskoðunardeilda og áhættustýringar, stórar áhættuskuldbindingar og bankaleynd. (Haust.)
 4. Frumvarp til laga um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.
  Með frumvarpinu er lögð til innleiðing á tilskipunum um verðbréfasjóði, auk þess sem lagðar eru til nokkrar breytingar á gildandi lögum, m.a. um fjárfestingastefnu og heimildir verðbréfasjóða, hæfisskilyrði sjóðsstjóra, hæfi rekstrarfélaga og eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins. (Haust.)
 5. Frumvarp til laga um innstæðutryggingar.
  Í frumvarpinu er gert ráð fyrir endurskoðun gildandi laga um innstæðutryggingar í ljósi fjármálaáfallsins og tilskipunar frá þessu ári um innstæðutryggingar (2009/14/EB). (Haust.)
 6. Frumvarp til laga um greiðsluþjónustu.
  Með frumvarpinu er ætlunin að innleiða tilskipun ESB um greiðsluþjónustu á innri markaðnum o.fl (2007/64/EB). Markmið tilskipunarinnar er að skapa heildstætt, samræmt og nútímalegt ESB-regluverk um rafræna greiðslumiðlun. (Haust.)
 7. Frumvarp til laga um breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999.
  Á hverju hausti er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem er grundvöllur fjármögnunar starfsemi Fjármálaeftirlitsins. (Haust.)
 8. Frumvarp til laga um breyting á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006.
  Frumvarpið mun taka á þeim athugasemdum sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert við gildandi lög á þessu sviði. (Haust.)
 9. Frumvarp til laga um neytendalán.
  Með frumvarpinu er ætlunin að innleiða tilskipun ESB um neytendalán (2008/48/EB). Meginmarkmið tilskipunarinnar er frekari sameining markaða og aukin neytendavernd. (Haust.)
 10. Frumvarp til laga um þjónustuviðskipti.
  Með frumvarpinu er gerð tillaga um innleiðingu þjónustutilskipunarinnar (2006/123/EB), sem hefur það markmið að auðvelda þjónustuveitendum að bjóða þjónustu sína yfir landamæri. (Haust.)
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, og lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994 (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).
  Tilgangur frumvarpsins er að auka gagnsæi varðandi eignarhald, auka jafnrétti kynja í stjórnum og meðal framkvæmdastjóra og kveða á um að stjórnarformaður megi ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið. (Haust.)
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/1997, um vörumerki.
  Í frumvarpinu er lagt til að tæming réttinda (réttindaþurrð) miðist við Evrópska efnahagssvæðið í stað alþjóðlegrar tæmingar. Hliðsjón er höfð af nýlegum dómi EFTA-dómstólsins. (Haust.)
 13. Frumvarp til laga um breyting á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991.
  Frumvarpinu er ætlað að skýra og fylla ákvæði XII. kafla samvinnufélagalaga er varða félagsslit. (Haust.)
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, og einkahlutafélög, nr. 138/1994.
  Skýrsla um hlutafélagalög og einkahlutafélagalög í ljósi fjármálaáfallsins hefur verið unnin fyrir viðskiptaráðuneytið. Í skýrslunni er gerð tillaga um ýmsar breytingar á ákvæðum laganna á sviði hlutafélagaréttar og mun frumvarpið taka mið af niðurstöðum skýrslunnar. (Haust.)
 15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, og lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994 (réttindi hluthafa).
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun um nýtingu tiltekinna réttinda hluthafa í félögum sem hafa fjármálagerninga sína tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði (2007/36/EB). Lagt er til að frestur til boðunar hluthafafunda verði lengdur og sett verði sérstök ákvæði um efni fundarboðs og hvað birt skuli á vef félags fyrir og eftir hluthafafundi. (Haust.)
 16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006.
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem leiða af lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, sem tóku gildi um síðustu áramót. Megintillögurnar fela í sér breytingar á ákvæðum í núverandi lögum sem leggja störf endurskoðenda og skoðunarmanna að jöfnu. (Haust.)
 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um bókhald, nr. 145/1994.
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem leiða af lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, sem tóku gildi um síðustu áramót. Megintillögurnar fela í sér breytingar á ákvæðum í núverandi lögum sem leggja störf endurskoðenda og skoðunarmanna að jöfnu. (Haust.)
 18. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa.
  Tilgangur frumvarpsins er að mæla fyrir um að starfsleyfisveiting verðbréfamiðstöðva verði færð frá viðskiptaráðuneyti til Fjármálaeftirlitsins. (Haust.)
 19.  Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á málefnissviði efnahags- og viðskiptaráðuneytis.
  Tilgangur frumvarpsins er að mæla fyrir um gjaldtöku vegna kæra til kærunefnda á verkefnasviði ráðuneytisins. (Haust.)
 20. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörumerki, nr. 45/1997.
  Frumvarpið kveður á um breytingar í ljósi Singapúrsamningsins um vörumerki. (Vor.)
 21. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994.
  Vegna breytinga sem gerðar hafa verið á rekstri brunabótamats er nauðsynlegt að huga að endurskoðun laganna. Til álita kemur þá hvort afnema eigi skylduvátryggingu vegna bruna húseigna að hluta til eða öllu leyti. (Vor.)
 22. Frumvarp til laga um náttúruhamfaratryggingu (viðlagatryggingu).
  Í frumvarpinu er gert ráð fyrir endurskoðun á lögum um Viðlagatryggingu Íslands í ljósi laga um vátryggingarsamninga og þeirrar reynslu sem fékkst af verkferlum Viðlagatryggingar Íslands í jarðskjálftunum á Suðurlandi árin 2000 og 2007. (Vor.)

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira