Hoppa yfir valmynd
14. október 2009 Innviðaráðuneytið

Nýr vegur um Arnkötludal formlega í notkun

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri opnuðu formlega nýjan veg um Arnkötludal í dag. Vegurinn liggur milli Vestfjarðavegar í Króksfirði og Steingrímsfjarðar og opnar nýja leið milli Dala og Stranda.

Nýr vegur um Arnkötludal tekinn í notkun.
Bundið slitlag er nú milli norðanverðra Vestfjarða og höfuðborgarsvæðisins.

Nýi vegurinn er 25 km langur og með honum og nýjum vegarköflum í Mjóafirði og víðar í Ísafjarðardjúpi styttist vetrarleiðin milli Bolungarvíkur og höfuðborgarsvæðisins um 75 km. Þessi leið er nú öll lögð bundnu slitlagi og var einnig afhjúpaður skjöldur á Arnkötludalsveginum af því tilefni.

Vegagerðin sá um undirbúning og hönnun verksins og Línuhönnun sem nú heitir Efla annaðist verkhönnun og gerð útboðsgagna. Áður hafði Leið ehf. látið gera frumdrög og umhverfismat. Verktaki var Ingileifur Jónsson ehf. Framkvæmdir við verkið hófust í maí 2007 og lauk nú síðla hausts en eftir er þó að leggja efra lag á veginn og ganga frá vegriðum og fleiru.

Nýr vegur um Arnkötludal tekinn í notkun.

Í ávarpi sínu í athöfn þar sem þessum áfanga var fagnað sagði Kristján L. Möller meðal annars að leiðin gæfi nýja möguleika á daglegum atvinnu- og menningarsamskiptum Dalamanna og Strandamanna sem hann taldi næsta víst að þeir myndu notfæra sér. Hann sagði arðbærasta atriðið vera styttingu vegalengda ekki síst fyrir flutningsaðila þar sem leiðin dragi úr kostnaði. Hann sagði þessa byltingu hafa leitt til þess að Eimskip hefði í gær tilkynnt um lækkun flutningsgjalda um 8% og taldi ljóst að Landflutningar-Samskip myndu sigla í kjölfarið. Þá sagði ráðherra að farsímasamband væri fyrir hendi á nyrðri hluta leiðarinnar og stutt væri í það á syðri hlutanum.

Ýmsir fleiri fluttu ávörp við athöfnina, meðal annarra Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, fyrrverandi og núverandi þingmnn, sveitarstjórnarmenn og fleiri.

------

Kristján L. Möller og Sturla Böðvarsson eru hér við skjöldinn sem settur var upp í tilefni af því að með veginum um Arnkötludal er nú komið bundið slitlag allt milli Bolungarvíkur og höfuðborgarsvæðisins.

Nýr vegur um Arnkötludal tekinn í notkun.

Hér virða ráðherra og vegamálastjóri skjöldinn fyrir sér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum