Hoppa yfir valmynd
18. október 2009 Forsætisráðuneytið

Viðræðum um Icesave lokið - niðurstaða liggur fyrir

 • Aðalatriði fyrirvara Alþingis í viðaukasamningum
 • Samningar gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis á lagabreytingum
 • Sameiginleg yfirlýsing fjármálaráðherra um framgang samstarfs Íslands og AGS

Í kjölfar þess að lög nr. 96/2009 gengu í gildi 2. september sl. um ríkisábyrgð á Icesave–lánasamningunum hafa staðið yfir viðræður íslenskra stjórnvalda og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta við bresk og hollensk stjórnvöld. Niðurstaða þessara viðræðna liggur nú fyrir og hefur hún í dag verið kynnt fyrir ríkisstjórn, fjárlaganefnd Alþingis, stjórnarandstöðunni og þingflokkum stjórnarflokkanna.

Samkomulag hefur náðst við Breta og Hollendinga. Það felur í sér að þeir fallast á meginintak þeirra skilmála sem Alþingi hefur sett fyrir ríkisábyrgð en með nokkrum frávikum þó. Samkomulagið felur í sér að:

 • að gerðir verða sérstakir viðaukasamningar við lánasamninganna frá 5. júní sl. þar sem tekin er afstaða til þeirra viðmiða og fyrirvara sem leiða af lögum nr. 96/2009.
 • að lagt verði fram lagafrumvarp um breytingar á l. nr. 96/2009 til að samræma efni viðaukasamninganna og þeirra laga sem gilda um heimild ráðherra til að veita ríkisábyrgð vegna Icesave samninganna. Viðaukasamningarnir taka ekki gildi fyrr en eftir að Alþingi hefur samþykkt viðeigandi breytingar á lögum nr. 96/2009.
 • og að fjármálaráðherrar landanna sendi frá sér sameiginlega yfirlýsingu um atriði sem tengjast efni samninganna, þ.m.t. um framgang samstarfs Íslands við AGS og lýst stuðningi við að endurskoðun eigi sér stað.

Ríkisstjórn og þingflokkar stjórnarflokkana hafa samþykkt að gengið verði frá málinu með ofangreindum hætti og er stefnt að undirritun samninganna og framlagningu lagafrumvarps á morgun, mánudaginn 19. október. Samningarnir, yfirlýsingin og lagafrumvarpið verða birt þá eða um leið og gengið hefur verið endanlega frá þeim.

Við samningsgerðina hafa stjórnvöld notið fulltingis Nigel Ward hjá Ashurst lögmannsstofunni og samningu lagafrumvarps hafa annast þau Benedikt Bogason, héraðsdómari, Björg Thorarensen, deildarforseti Lagadeildar HÍ, Eiríkur Tómasson, prófessor við Lagadeild HÍ og Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur hjá Lagastofnun HÍ auk þess sem þau hafa veitt stjórnvöldum almenna ráðgjöf.

Nánar um viðaukasamningana

Helstu efnisatriði viðaukasamninganna eru:

 • Mikilvægustu fyrirvararnir eru felldir inn í lánasamningana eða koma fram í lagafrumvarpinu.
 • Frá og með 2016 verða takmarkanir á árlegum afborgunum og byggja þær á sambærilegum viðmiðunum og ákveðin voru með 3. gr. laga nr. 96/2009, þ.e. miðað er við að á tímabilinu 2017–2023 fari heildargreiðslur ekki yfir 6% af aukningu vergrar landsframleiðslu frá árinu 2008. Þá eru sett ákvæði í samningana sem miðað að því að gera framkvæmd þeirra sem liprasta með tillit til ákvarðana á VLF og áhrifa af gengisbreytingum.
 • Árlegir vextir verða ávallt greiddir og afborganir sem eru ekki greiddar að fullu vegna greiðsluhámarks munu bætast við höfuðstólinn.
 • Til þess að síður reyni á hámörk greiðslna fallast Breta og Hollendingar á að Íslendingar geti hvenær sem er ákveðið einhliða að fjölga gjalddögum afborgana úr 32 á átta árum í 56 gjalddaga á 14 árum. Leiði lenging greiðslutímans ásamt því þaki, sem sett er á árlegar greiðslur, til þess að ekki takist að greiða upp eftirstöðvar þess lengist greiðslutíminn enn frekar, eða um fimm ár í senn.
 • Óbreytt er að Ísland á eftir sem áður kost á því að greiða meira inn á lánið en fastbundið er.
 • Fallist er á að TIF leiti úrskurðar þar til bærra aðila á því hvort kröfur sjóðsins gangi við úthlutun úr búi Landsbanka Íslands hf. framar öðrum hluta krafna vegna sömu innstæðu. Komist íslenskur dómstóll að þeirri niðurstöðu, að fengnu ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins og sem er ekki í ósamræmi við niðurstöðu íslenskra dómstóla, falla sjálfkrafa niður þau ákvæði lánasamninganna að endurheimtur úr þrotabúinu skiptist á tryggingasjóðina í hlutfalli við kröfur þeirra. Skiptingin verður þá í samræmi við niðurstöðu dómstóla.
 • Staðfest er að ákvæði lánasamninganna frá 5. júní sl. um takmörkun friðhelgisréttinda taki ekki til eigna sem njóti friðhelgi skv. Vínarsamningnum um stjórnmálasamband, eigna Seðlabanka Íslands og eigna á Íslandi sem nauðsynlegar eru fyrir eðlilega starfsemi Íslands sem fullvalda ríkis.
 • Staðfest er að lánasamningarnir hafi ekki áhrif á umráð ríkisins yfir náttúruauðlindum landsins, nýtingu á þeim og fyrirkomulag á eignarhaldi yfir þeim.
 • Staðfestur er að lánasamningarnir hafi verið gerðir á grundvelli svokallaðra Brussel viðmiðana.

Nauðsynlegar lagabreytingar

Viðaukasamningarnir eru gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis og kalla á að gerðar séu breytingar á lögum nr. 96/2009. Breytingar skv. lagafrumvarpinu eru þríþættar:

Í fyrsta lagi er í breytingunum ákvæði um óskoraða ríkisábyrgð á lánasamningunum við TIF eins og þeir standa eftir að skilyrði og viðmiðanir fyrri laga hafa verið felld inn í samningana sbr. framangreint.

Í öðru lagi er í lagafrumvarpinu tekið fram að ekkert í lögunum, þ.m.t. ábyrgðin, feli í sér viðurkenningu á því að Íslandi hafi borið lagaleg skylda til að ábyrgjast lágmarkstryggingu innstæðna í útibúum LÍ í Bretlandi og Hollandi. Ef þar til bær úrlausnaraðili komist að þeirri niðurstöðu í samræmi við Evrópurétt að slík skylda hafi ekki verið til staðar, skuli íslensk stjórnvöld efna til viðræðna við aðila lánasamninganna og eftir atvikum ESB og aðila að EES um áhrif þeirrar niðurstöðu.

Í þriðja lagi eru felld brott önnur þau ákvæði fyrri laga sem óþörf eru vegna þess að efni þeirra hefur verið tekið inn í lánasamningana en sá hluti þeirra sem ekki hefur bein áhrif á þá stendur óbreyttur.

Yfirlýsing fjármálaráðherra landanna

Liður í samkomulagi um lausn með framangreindum hætti er að fjármálaráðherrar Íslands, Bretlands og Hollands muni birta sameiginlega yfirlýsingu þegar samningurinn hefur verið undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis og frumvarp um ríkisábyrgðina hefur verið lagt fram. Í yfirlýsingunni verður tekið fram að Bretland og Holland hafi m.a. annars fallist á þá efnahagslegu skilmála sem settir voru með lögum nr. 96/2009 og að Ísland hafi endurnýjað skuldbindingar sínar til að ábyrgjast skuldbindingar TIF án þess að í því felist viðurkenning á að lagaleg skuldbinding hafi verið til staðar. Fjármálaráðherra Íslands muni á grundvelli laganna fylgjast með framvindu mála og efna til viðræðna eftir því sem þörf krefur. Þá munu aðilar ennfremur staðfesta vilja til samstarfs þar á meðal til viðræðna að ósk hvaða samingsaðila sem er, til að ræða aðstæður sem sem upp kunna að koma og hvernig við þeim yrði brugðist.

Í yfirlýsingunni verður einnig fjallað um mikilvægi afgreiðslu endurskoðunar á samstarfsáætlun Íslands og AGS og lýst stuðning við það að hún fari fram.


Reykjavík 18. október 2009


Samanburðartafla

Yfirlit yfir réttindi og skyldur íslenskra aðila (sami texti hér að neðan)

Yfirlit yfir réttindi og skyldur íslenskra aðila á grundvelli lánasamninganna við Holland og Bretland

 1. Endurgreiðsla láns: Endurgreiðsla láns að fjárhæð 1.329.242.850 evrur (Holland) og allt að 2.350.000.000 pund (Bretland).
 2. Fyrirkomulag endurgreiðslu: Ársfjórðungslegar greiðslur sem hefjast í september 2016 og lýkur í júní 2024 – 32 jafnar greiðslur.
 3. Þak á greiðslur: Ef greiðsla af samanlögðum vöxtum og höfuðstól verður hærri á ársgrundvelli en 2% (Holland) eða 4% (Bretland) af vexti vergrar landsframleiðslu frá 2008 (miðað við IMF World Economic Outlook), lækkar greiðsla af höfuðstól þannig að greiðsla verði ekki umfram þakið. Vextir verða alltaf greiddir að fullu.
 4. Möguleiki á lengingu: Ísland getur, hvenær sem er á lánstímanum, óskað eftir lengingu endurgreiðslutíma um sex ár, til ársins 2030. Fjárhæð greiðslnanna yrði þá endurreiknuð á tímamarki framlengingarinnar þannig að greiðslurnar verði jafnar til ársins 2030.
 5. Sjálfkrafa framlenging: Ef möguleiki á framlengingu hefur ekki verið nýttur og lánið hefur ekki verið endurgreitt að fullu fyrir árið 2024 framlengist það sjálfkrafa til ársins 2030. (4.2b.4) Sjálfkrafa framlengingar til fimm ára frá árinu 2030 koma til ef lánið er ekki að fullu greitt fyrir þann tíma vegna þaks á endurgreiðslum
 6. Framsal krafna til TIF: Bæði hollensku og bresku tryggingarsjóðirnir framselja til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta kröfur sem þeir hafa yfirtekið frá innstæðueigendum (upp að 20.887 evrum) þegar samningurinn kemur til framkvæmda.
 7. Greiðslur frá Landsbanka: Þegar Tryggingarsjóður fær úthlutað úr búi Landsbankans vegna innstæðna verður sjóðurinn að nota þær greiðslur til að greiða niður lán Breta og Hollendinga.
 8. Forgangsréttur við greiðslur úr Landsbankanum: Ef Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta hlýtur við úthlutun úr búi Landsbankans forgang umfram aðra hluta krafna vegna sömu innstæðu þarf sjóðurinn ekki að deila því sem hann fær umfram aðra forgangskröfuhafa með Bretum og Hollendingum ef forgang umfram aðra kröfuhafa má rekja til ákvörðunar slitastjórnar Landsbankans eða niðurstöðu íslenskra dómstóla sem ekki er í andstöðu við ráðgefandi álit frá EFTA dómstólnum. Í samningi milli íslenska ríkisins og TIF verður tekið fram að TIF muni láta reyna á forganginn fyrir dómstólum.
 9. Niðurgreiðsla lána: Tryggingarsjóði er hvenær sem er heimilt að greiða niður lán Hollendinga og Breta í heild eða að hluta. Lágmark niðurgreiðslu í hvert sinn er 1 milljón evra/1 milljón punda.
 10. Ríkisábyrgð: Ríkisábyrgð á lánunum tekur gildi 5. júní 2016 og ábyrgist ríkið allar greiðslur Tryggingarsjóðs og aðrar skyldur sjóðsins á grundvelli lánasamninganna.
 11. Meðferð kröfuhafa Landsbankans: Ísland ábyrgist að grípa ekki til aðgerða sem leiða til þess að kröfuhafar Landsbankans fái meðferð sem samræmist ekki almennt viðurkenndum alþjóðlegum og evrópskum grunnreglum um meðferð kröfuhafa í alþjóðlegum slitum fyrirtækja.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira