Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2009 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 2/2009

Mál nr. 2/2009:

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

  

A

gegn

Kaupþingi banka hf.

  

Launamunur. Málskostnaður.

Kærandi starfaði hjá Kaupþingi banka hf. frá því snemma árs 2005. Hún starfaði við verðbréfaráðgjöf bankans til 30. nóvember 2005, en frá og með 1. desember 2005 starfaði hún í deildinni Sala og þjónusta við fagfjárfesta sem heyrði undir eignastýringarsvið. Henni var sagt upp störfum í október 2008. Af hálfu kæranda er því haldið fram að tiltekinn karlmaður hafi verið með umtalsvert hærri laun en kærandi þrátt fyrir að störf þeirra hafi verið þau sömu. Þannig hafi bankinn brotið gegn 25. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, og kærandi orðið fyrir beinni mismunun á grundvelli kynferðis. Af hálfu Kaupþings banka hf. er því hafnað að launamunurinn hafi stafað af kynferði heldur hafi hann stafað af því að af því að störf kæranda og þess aðila sem hún ber sig saman við voru ekki sambærileg og munur var á menntun, starfsreynslu og starfsaldri þeirra. Niðurstaða kærunefndar var að kærða hafi tekist að sýna fram á að munur á föstum mánaðarlaunum hafi byggst á hlutlægum og málefnalegum ástæðum en honum hafi ekki tekist að sanna að mikill mismunur á bónusgreiðslum vegna ársins 2006 hafi verið byggður á öðru en kynferði.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 11. nóvember 2009 er kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli þessu:


I.

Inngangur

Með kæru dagsettri 27. febrúar 2009 óskaði Gísli Guðni Hall hrl., f.h. kæranda, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Kaupþing banki hf. hefði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með því að umtalsverður munur var á launagreiðslum innan deildarinnar Sala og þjónusta til fagfjárfesta í Kaupþingi banka hf., til kæranda annars vegar og karlkyns viðskiptastjóra hins vegar. Jafnframt krafðist kærandi þess að Kaupþingi banka hf. yrði gert að greiða kæranda málskostnað vegna meðferðar kærunnar fyrir nefndinni, sbr. 5. mgr. 5. gr. jafnréttislaga.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Kaupþingi banka hf. með bréfi dagsettu 10. mars 2009. Með tölvupósti frá Guðmundi Siemsen hdl., f.h. Kaupþings banka hf., dagsettum 10. mars 2009, mótteknum 20. mars 2009, var óskað eftir viðbótarfresti til að koma á framfæri umsögn og var veittur frestur til 30. mars 2009. Umsögn lögmanns Kaupþings banka hf. um kæruna barst með bréfi dagsettu 30. mars 2009 og var lögmanni kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri með bréfi dagsettu 1. apríl 2009.

Þriðji aðili, B, var með bréfi kærunefndar dagsettu 1. apríl 2009 upplýstur um að veittar hefðu verið upplýsingar varðandi launakjör hans til samanburðar við kæranda.

Með tölvupósti lögmanns kæranda, dagsettum 15. apríl 2009, var óskað eftir viðbótarfresti til að koma á framfæri umsögn og var veittur frestur til 21. apríl 2009. Athugasemdir lögmanns kæranda við umsögn lögmanns Kaupþings banka hf. bárust með bréfi dagsettu 21. apríl 2009 og voru sendar lögmanni Kaupþings banka hf. með bréfi dagsettu 22. apríl 2009. Þá barst leiðrétt eintak umsagnarinnar hinn 24. apríl 2009 og var sent sama dag til lögmanns Kaupþings banka hf. Hinn 27. apríl 2009 barst á ný leiðrétt eintak umsagnar lögmanns kæranda sem var sent lögmanni Kaupþings banka hf. með bréfi dagsettu 28. apríl 2009.

Með tölvupósti lögmanns Kaupþings banka hf., dagsettum 8. maí 2009 var óskað eftir viðbótarfresti til 12. maí 2009 til að gera athugasemdir og var lögmaður kæranda upplýstur um það með símtali sama dag. Hinn 13. maí 2009 bárust athugasemdir lögmanns Kaupþings banka hf., dagsettar 12. maí 2009.

Með bréfi kærunefndar dagsettu 15. maí 2009 var lögmanni kæranda gefinn kostur á að gera viðbótarathugasemdir við bréf lögmanns Kaupþings banka hf. Viðbótarathugasemdir lögmannsins bárust með bréfi dagsettu 29. maí 2009.

Lögmanni Kaupþings banka hf. var með bréfi kærunefndar dagsettu 3. júní 2009 gefinn kostur á að gera viðbótarathugasemdir. Sá kostur var framlengdur til 22. júní 2009 og bárust viðbótarathugasemdir lögmannsins þann dag. Þær athugasemdir voru sendar lögmanni kæranda til kynningar með bréfi nefndarinnar dagsettu 23. júní 2009.

Með bréfi kærunefndar dagsettu 17. júlí 2009 til lögmanns Kaupþings banka hf. var óskað eftir viðbótargögnum. Gögn bárust nefndinni 13. ágúst 2009 með bréfi dagsettu 4. ágúst 2009.

Þá óskaði kærunefnd á ný eftir frekari viðbótargögnum frá lögmanni Kaupþings banka hf. með bréfi, dagsettu 24. ágúst 2009, og var sú ósk ítrekuð með bréfi dagsettu 1. september 2009. Umbeðin viðbótargögn bárust nefndinni með bréfi lögmanns Kaupþings banka hf., dagsettu 22. september 2009.

Með bréfum kærunefndar, dagsettum 17. september 2009, voru C, D, E og F upplýstir um að veittar hefðu verið upplýsingar varðandi launakjör þeirra hjá Kaupþingi banka hf. til samanburðar við kæranda.

Hinn 1. október 2009 barst nefndinni tölvubréf lögmanns Kaupþings banka hf. þar sem óskað var eftir að fá að koma á fund nefndarinnar. Í kjölfarið var hringt í lögmenn aðila 9. október 2009 og þeim boðið að koma á fund nefndarinnar 13. október. Lögmaður kæranda gerði hins vegar athugasemdir, í tölvupósti dagsettum 11. október 2009, við þá málsmeðferð en hún skyldi að jafnaði vera skrifleg. Var í kjölfarið ákveðið að afturkalla fundarboðið. Var lögmanni kærða boðið, með bréfi dagsettu 13. október 2009, að koma frekari sjónarmiðum og gögnum á framfæri við nefndina og bárust þær með bréfi lögmanns, dagsettu 20. október 2009. Athugasemdir lögmannsins voru sendar lögmanni kæranda til kynningar með bréfi nefndarinnar, dagsettu 23. október 2009, auk afrita af bréfum lögmanns kærða, dagsettum 4. ágúst 2009 og 22. september 2009. Þann 4. nóvember 2009 bárust svo athugasemdir frá lögmanni kæranda, dagsettar 3. nóvember sama ár.

Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála.

Þar sem Andri Árnason formaður og Björn L. Bergsson varaformaður voru báðir vanhæfir í máli þessu var Guðni Á. Haraldsson hæstaréttarlögmaður skipaður formaður ad hoc þann 17. júlí 2009 við afgreiðslu þess. Á síðari stigum meðferðar málsins kom í ljós vanhæfi Guðna og tók því Páll Arnór Pálsson hæstaréttarlögmaður sæti formanns ad hoc í nefndinni þann 2. október 2009. Úrlausn málsins hefur tafist af þessum sökum.


II.

Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að Kaupþing banki hf. hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með því að umtalsverður munur var á launagreiðslum innan deildarinnar Sala og þjónusta til fagfjárfesta í Kaupþingi banka hf., til kæranda annars vegar og karlkyns viðskiptastjóra hins vegar. Kærandi telur sig þannig hafa orðið fyrir beinni mismunun á grundvelli kynferðis, þ.e. óhagstæðari meðferð en annar einstaklingur af gagnstæðu kyni við sambærilegar aðstæður.

Greint er frá því í rökstuðningi með kæru að kærandi hafi hafið störf hjá Kaupþingi banka hf. snemma árs 2005. Hún hafi starfað við verðbréfaráðgjöf bankans allt til 30. nóvember 2005, en frá og með 1. desember 2005 hafi hún flust í deildina Sala og þjónusta við fagfjárfesta sem var undir eignastýringarsviði. Þar hafi hún starfað uns henni var sagt munnlega upp störfum 24. október 2008 og staðfest var skriflega með bréfi formanns skilanefndar bankans, dagsettu 28. október 2008. Kærandi hafi verið leyst undan vinnuskyldu frá dagsetningu bréfsins að telja. Skriflegur ráðningarsamningur kæranda er dagsettur 27. janúar 2006.

Greint er frá því í kærunni að meginverkefni deildarinnar Sala og þjónusta við fagfjárfesta hafi verið að annast sölu á afurðum eignastýringarsviðs Kaupþings banka hf. bæði til fagfjárfesta og fyrirtækja. Kveðið hafi verið á um það í ráðningarsamningi kæranda að hún myndi bera ábyrgð á að byggja upp viðskipti við stærri fyrirtæki, koma upp markaðssíðum fyrir erlenda fjárfesta og sjá um samskipti við önnur svið bankans, til að mynda útibúasvið, ráðgjöf og einkabankaþjónustu. Enn fremur hafi verið gert ráð fyrir því að kærandi sinnti öðrum verkefnum í samráði við yfirmann deildarinnar, sem var G.

Í ráðningarsamningnum hafi sagt að kærandi starfaði sem sérfræðingur á eignastýringarsviði Kaupþings banka hf., en starfsheiti kæranda innan deildarinnar var viðskiptastjóri.

Auk kæranda og forstöðumannsins hafi starfsmenn deildarinnar verið tveir talsins um mitt ár 2008, hliðsettir kæranda og með sama starfsheiti. Annars vegar D sem mun hafa byrjað að starfa hjá Kaupþingi banka hf. í júní 2005, en hafi hafið störf í deildinni Sala og þjónusta við fagfjárfesta í nóvember 2007. Hins vegar B sem hafi verið með u.þ.b. átta ára starf að baki hjá bankanum um mitt ár 2008. B mun hafa verið sagt upp störfum 12. september 2008. Í beinu samhengi við starfslok hans hafi verið ráðnir tveir nýir starfsmenn til deildarinnar. Annars vegar C sem mun hafa verið starfandi í verðbréfaráðgjöf hjá bankanum um eins árs skeið frá 2006. C hafi hafið störf í deildinni Sala og þjónusta við fagfjárfesta 14. september 2008 með starfsheitið viðskiptastjóri. Hins vegar E sem mun hafa verið starfsmaður bankans frá árinu 2006. E hafi hafið störf í deildinni Sala og þjónusta við fagfjárfesta 24. september 2008 með starfsheitið viðskiptastjóri.

Stuttu eftir að kærandi hafði verið leyst frá störfum hjá Kaupþingi banka hf. hafi hún komist að því fyrir tilviljun hver laun B hefðu verið hjá Kaupþingi banka hf. Í stuttu máli hefðu mánaðarlaun hans í starfi viðskiptastjóra verið XXXX krónur á mánuði frá upphafi árs 2008 til starfsloka. Jafnframt hafi komið fram í þessum upplýsingum að bónusgreiðslur til B hefðu verið að minnsta kosti XXXY króna árið 2007 og u.þ.b. tvöföld sú upphæð árið á undan. Samanburður á launum kæranda og þessa hliðsetta starfsmanns, B, sé í stuttu máli eftirfarandi:

                                                Kærandi        B

Föst mánaðarlaun 2006.        XXYX kr.      YYXX kr.

Bónusgreiðslur 2006.......       XYXX kr.      YXXY kr.

Föst mánaðalaun 2007...       YXXX kr.       YYXX kr.

Bónusgreiðslur 2007 ......       XXYY kr.       XXXY kr.

Föst mánaðarlaun 2008.        XYXY kr.       XXXX kr.

Tilgreindar launafjárhæðir kæranda séu samkvæmt launaseðlum, auk þess sem lagðir hafi verið fram launaseðlar kæranda frá árinu 2005. Það athugast að kærandi hafði verið í fæðingarorlofi og tekið við greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði frá mars 2007 til og með janúar 2008.

Kærandi hafi séð í hendi sér, á grundvelli þessara upplýsinga um launakjör samstarfsmannsins fyrrverandi, að henni hefði verið mismunað gróflega í launum gagnvart starfi sem hún hafi vitað fyrir víst að væri sambærilegt við það starf sem hún hafi haft með höndum hvað varðar starfsheiti, inntak starfs, ábyrgð og aðra þætti. Hún hafi leitað til stéttarfélags síns, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, varðandi úrbætur.

Kaupþingi banka hf. hafi verið ritað bréf dagsett 5. janúar 2009 þar sem gerð hafi verið krafa um skaðabætur vegna kynbundins launamunar. Kaupþing banki hf. hafi svarað erindinu með bréfi dagsettu 5. febrúar 2009 þar sem fram hafi komið að „nokkur munur“ hafi verið á launum kæranda og launum B. Launamunurinn, sem bótakrafa kæranda hafi miðast við, hafi ekki verið vefengdur í svarinu með rökum eða nýjum upplýsingum. Kaupþing banki hf. hafi hins vegar hafnað því alfarið að launamunurinn hafi verið á grundvelli kynferðis heldur vísaði hann til ástæðna á borð við menntun, starfsreynslu og starfsaldur. Mat Kaupþings banka hf. á verðmæti starfsaldurs og starfsreynslu megi sjá af launahækkunum sem kærandi hafi notið á árunum 2006 til 2008. Hækkanirnar milli ára séu ekki nema lítið brot af þeim launamun sem hafi verið á umræddum tveimur starfsmönnum.

Kærandi byggir á því í kæru að framkomnar upplýsingar um launakjör eins karlkyns viðskiptastjóra í deild sem kærandi starfaði í sýni fram á að föst mánaðarlaun karlsins hafi verið u.þ.b. 90% hærri en laun kæranda. Kaupþing banki hf. hafi í raun ekki véfengt þennan launamun og verði því að ganga út frá því sem staðreynd að hann hafi verið til staðar. Það eigi bæði við um mánaðarlaun og bónusgreiðslur fyrir árin 2006 og 2007.

Kærandi kveðst hafa fullvissu fyrir því, út frá eigin reynslu og þekkingu á inntaki þess að vera ráðin sem viðskiptastjóri í deildinni Sala og þjónusta til fagfjárfesta hjá Kaupþingi banka hf., að störf hennar og B hafi verið þau sömu. Kærandi hafi fengið starfsaldurshækkanir á starfstímanum sem eðli málsins samkvæmt hljóti einnig að hafa gilt fyrir sömu störf. Útilokað sé að slíkar starfsaldurshækkanir geti réttlætt nema lítið brot af þeim mun á mánaðarlaunum sem hafi verið til staðar. Sama sé upp á teningnum sé litið til þess hvaða krafa um menntun sé gerð fyrir starf viðskiptastjóra. Helstu verkefni í lýsingu starfsins felist í samskiptum við erlenda fjárfesta og samstarfi við önnur svið bankans. Menntun kæranda hafi nýst afar vel í þessum verkefnum, en kærandi lauk annars vegar B.S.-prófi í viðskiptafræði frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands árið 2004, og hins vegar B.A.-prófi í þýsku og ensku árið 2000.

Fjölbreytt menntun kæranda og þekking á tungu, menningu og viðskiptum á stórum markaðssvæðum (Þýskalandi og í hinum enskumælandi heimi) hafi gert henni kleift að sinna starfinu með mestu ágætum. Með því sé ekki dregið úr því að menntun B, sem sé með bandaríska gráðu í rekstrarfræðum, hafi einnig nýst honum vel. Það sé á hinn bóginn fráleitt að til staðar hafi verið munur á menntun þeirra tveggja eða starfreynslu sem réttlætt hafi getað þann launamun sem á þeim tveimur hafi verið.

Kærandi telur sig hafa búið yfir nægri starfsreynslu, að minnsta kosti seinni hlutann af starfstímanum, til að sinna starfinu með óaðfinnanlegum hætti. Ekki hafi hún orðið vör við annað en hún hafi gert það og mætt öllum þeim kröfum sem gerðar hafi verið til hennar í starfi. Ekki verði séð hvaða frekari starfsreynslu aðrir viðskiptastjórar innan deildarinnar hafi búið yfir sem réttlætt geti launamun. Sé það hins vegar ætlun Kaupþings banka hf. að leggja mismunandi starfsreynslu til grundvallar afstöðu sinni sé óhjákvæmilegt að bankinn leggi enn fremur fram upplýsingar um launakjör og starfsreynslu annarra þeirra sem störfuðu sem viðskiptastjórar í deildinni samhliða kæranda og B árið 2008 og að borin verði saman laun og starfsreynsla starfsmanna á öðrum sviðum og hvort þar finnist samsvarandi launamunur á slíkum grunni.

Kærandi telur einnig að henni hafi verið mismunað við bónusgreiðslur sem fram fóru árin 2006 og 2007. Samkvæmt ráðningarsamningi kæranda skyldu þessar greiðslur taka mið af árangri samstæðunnar í heild (Kaupþings banka hf. og dótturfélaga), bankarekstrinum á Íslandi og árangri eignastýringar. Þá hafi enn fremur átt að leggja mat á árangur kæranda í starfi, en bónusgreiðslur hafi almennt miðast við að 15% arðsemiskrafa samstæðunnar næðist. Öll skilyrði fyrir bónusgreiðslum hafi verið uppfyllt fyrir tímabilin sem komu til útborgunar árin 2006 og 2007.

Kærandi telur enga ástæðu til þess að ætla að í ráðningarsamningum annarra viðskiptastjóra deildarinnar hafi verið ákvæði um bónusgreiðslur, önnur en þau sem að framan greinir, með öðrum orðum hafi ekki verið til staðar gegnsætt og hlutlaust árangursmatskerfi sem bónusgreiðslur hafi farið eftir. Samkvæmt því sé fráleitt að bónusgreiðslur hliðsetts starfsmanns við kæranda hafi verið allt að tvöfalt hærri en hennar.

Til viðbótar bendir kærandi á að sömu atvik verði ekki hvort tveggja í senn, notuð til þess að réttlæta hærri grunnlaun en ella væri, sem og að starfsmaðurinn eigi rétt á auknum bónus ofan á sín grunnlaun. Eigi þetta ekki síst við þegar bónusgreiðslur vega jafn þungt inn í heildarlaunakjör og fyrir lá að svo hafi verið í tilviki íslensku bankanna á umliðnum misserum.

Kærandi tekur fram að hún telji að Kaupþing banki hf. hafi alls ekki gert rétta og fullnægjandi grein fyrir launagreiðslum til B og breytingum á þeim, en starf hans liggi til grundvallar samanburði skv. 25. gr. jafnréttislaga. Í því sambandi bendir kærandi á eftirfarandi:

Stórkostlegur munur hafi verið á grunnlaunum kæranda og B eins og staðfest hafi verið með upplýsingum í greinargerð Kaupþings banka hf. um að mánaðarlaun B hafi verið XXYZ krónur. Taka beri einnig tillit til þess hafi bifreiðstyrkur verið greiddur. Gengið sé út frá því að kærunefndin staðreyni upplýsingar hvað þetta varði. Áréttað sé að kæranda hafi aldrei staðið til boða á starfstíma hennar að fá bifreiðastyrk, enda þótt hún hafi iðulega þurft að sækja fundi utan bankans ekki síður en B. Ekki hafi komið fram hvenær á árinu 2006 laun B hafi hækkað í XXZY krónur eða hvort í þeirri tölu sé tekið tillit til bifreiðastyrks.

Ljóst sé að grunnlaun B hafi hækkað miklu tíðar og hlutfallslega meira en grunnlaun kæranda.

Hvað varði starfsheiti hafi Kaupþing banki hf. borið því við að starfsheitið viðskiptastjóri hafi ekki verið skilgreint sérstaklega innan bankans og hafi það hvorki endurspeglað inntak starfa þeirra sem báru það starfsheiti né ábyrgð þeirra. Þessu mótmælir kærandi sem rakalausu og óstaðfestu. Sé á því byggt að Kaupþing banki hf. hljóti að bera sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingu sem svo augljóslega gangi gegn því sem almennt sé viðtekið á vinnumarkaði og í starfsemi stærri fyrirtækja. Verði að ganga út frá því að sama starfsheitið, viðskiptastjóri, veiti afgerandi líkindi fyrir því að kærandi og B hafi gegnt störfum sem hafi verið sambærileg að inntaki og ytri búnaði þannig að mun á launagreiðslum til þeirra verði að rökstyðja með einstaklingsbundnum þáttum.

Varðandi samanburð á menntun af hálfu kærða hafi því verið slegið fram, án frekari rökstuðnings, að MBA-próf frá Háskólanum í New Haven eigi að vega þyngra en menntun kæranda þegar komi að hlutlægu mati á hæfni til þess að gegna starfi viðskiptastjóra. Kærandi telur hins vegar veruleg áhöld um að þessi staðhæfing gagnaðila standist sé viðurkenndum mælikvörðum um mat á menntun beitt. Slíkir mælikvarðar feli meðal annars í sér vottun námsins og staðfestingu á samsetningu námsþátta og frammistöðu að baki prófgráðu. Kærandi bendir á að launamunurinn sé hlutfallslega svo mikill að útilokað sé að réttlæta hann, til dæmis með vísan til kjarasamningsins sem gilt hafi um laun starfsmannanna. Málflutningur Kaupþings banka hf. um þetta bendi til þess að áhersla á prófgráður sé eftir á fengið sjónarmið, en ekki raunveruleg ástæða fyrir launamuninum á sínum tíma.

Staðfest hafi verið af hálfu Kaupþings banka hf. að ráðningarsamningur kæranda hafi hvað bónusgreiðslur varði verið sambærilegur að efni við ráðningarsamninga annarra starfsmanna deildarinnar, þ.m.t. B. Ekki sé rétt með farið af hálfu bankans um bónusgreiðslur til kæranda vegna áranna 2006 og 2007. Eins og sjá megi af framlögðum gögnum hafi bónus til kæranda verið XZYY krónur vegna 2006 og XXYY krónur vegna 2007. Samkvæmt bankanum hafi verið samsvarandi og þar með samanburðarhæfar bónusgreiðslur til B ZXYX krónur vegna ársins 2006 og ZYXX krónur vegna ársins 2007. Samkvæmt upplýsingum sem kærandi hafði fengið hafi mátt ætla að hærri fjárhæð hefði átt að vera vegna 2007 en það geti þó hafa byggst á misskilningi.

Tilraun Kaupþings banka hf. til að skýra mun á bónusgreiðslum með því að rakka niður kæranda en upphefja samstarfsmanninn sé ótrúverðug og mótmælt. Halda beri því til haga að árið 2006 hafi kærandi hvorki verið ný í starfi hjá bankanum né reynslulaus við sölu og ráðgjöf sem hafi verið meginstarfsemi deildarinnar. Vísast til ferilskrár kæranda í því sambandi, en fyrri störf og reynsla kæranda hafi að sjálfsögðu verið ástæða þess að henni hafi verið boðið að taka við starfi viðskiptastjóra í umræddri deild bankans.

Þá sé það rangt sem haldið hafi verið fram af hálfu Kaupþings banka hf. að drjúgur tími kæranda hafi farið í það framan af af starfstímanum að afla þekkingar. Hið rétta sé að þegar kærandi hafi verið ráðin til deildarinnar Sala og þjónusta við fagfjárfesta hafi hún um tíu mánaða skeið starfað í Lífeyris- og verðbréfaráðgjöf Kaupþings banka hf. við að selja sjóði. Almennt hafi verið litið þannig á að slík störf væru kjörin til undirbúnings fyrir önnur störf og að þeir sem næðu árangri við sölu á þeim vettvangi fengju stöðuhækkun til annarra og ábyrgðarmeiri starfa í höfuðstöðvum bankans. Þegar kærandi hóf störf í ráðgjöfinni snemma árs 2005 hafi þegar komið í ljós að hún hafi haft mikla burði til starfa af þessu tagi og mál þróast fljótt þannig að hún hafi svarað meira og minna öllum fyrirspurnum erlendra fjárfesta sem hafi haft áhuga á því að fjárfesta í hlutabréfum í bankanum, öðrum einstökum íslenskum félögum, íslenskum hlutabréfasjóðum (sem reknir hafi verið af eignastýringu), íslenskum skuldabréfasjóðum (einnig reknir af eignastýringu) og einstökum skuldabréfum. Kærandi hafi þannig haft milligöngu um sölu á mjög fjölbreyttum afurðum bankans og verið í sambandi við stóran hóp viðskiptavina. Hér hafi komið ekki síst að gagni mjög góð þekking kæranda á enskri og þýskri tungu og innsæi í menningu annarra landa, en kærandi hafi bæði stundað nám og störf erlendis, meðal annars í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Sé skemmst frá því að segja að störf kæranda við Lífeyris- og verðbréfaráðgjöf Kaupþings hafi verið afar farsæl svo eftir hafi verið tekið. Tekið skal fram að hluti af þessum störfum hafi verið að selja peningamarkaðssjóði, það verkefni hafi áfram verið hluti af starfi kæranda eftir að hún hafi flust til í starfi og undir eignastýringarsvið bankans, þannig að ekki standist sú staðhæfing að kærandi hafi þurft að afla sér einhverrar þekkingar á því sviði.

Í ljósi þessara atvika og málsins almennt sé sú staðhæfing fullkomlega óskiljanleg að framkvæmdastjóri eignastýringarsviðs hafi talið að kærandi hafi ekki náð þeim árangri sem að hafi verið stefnt. Þessa staðhæfingu sé kærandi að heyra í fyrsta sinn nú og viti ekki á hverju hún byggist. Hitt liggi hins vegar fyrir að þegar ákveðið hafi verið að segja B upp störfum hans í bankanum í september 2008 hafi það verið kærandi sem tók við lunganum af þeim verkefnum sem B hafi haft með höndum, þar á meðal vinnu í svokölluðu erlendu hlutabréfateymi. Verði að ætla að sú ráðstöfun hefði varla verið gerð nema kærandi hefði valdið starfi sínu með fullnægjandi hætti.

Kærandi telur að Kaupþingi banka hf. hafi með engu móti tekist að sýna fram á að launamunur milli kæranda og B sem hún beri sig saman við verði skýrður með hlutlægum þáttum og þeim mælikvörðum sem leggja beri til grundvallar samkvæmt ráðningarsamningum um störf viðskiptastjóra. Þvert á móti virðist greinargerð bankans staðfesta að geðþótti stjórnenda hafi fyrst og fremst ráðið bónusgreiðslum. Það sé í beinni andstöðu við bann jafnréttislaga sem ætlað sé að tryggja að hlutlægar og málefnalegar ástæður séu fyrir kjaramuni milli kynja sem fyrir hendi sé. Vísar kærandi í þessu sambandi til 19. gr. jafnréttislaga. Fyrir liggi hvernig ákvæði þetta hafi verið framkvæmt af kærunefnd jafnréttismála og dómstólum, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar í málinu nr. 258/2004.

Á það bendir kærandi einnig að jafnvel þótt Kaupþing banki hf. myndi sýna fram á, sem honum hafi ekki tekist að svo komnu máli, að B hafi aflað bankanum meiri tekna en kærandi, þá sé það alls ekki einhlítur mælikvarði á hvort beita megi líkindareglu 2. mgr. 25. gr. Sé í því sambandi bent á framangreindan Hæstaréttardóm og skuldbindingar Íslands á sviði jafnlaunareglu Evrópuréttarins, sbr. tilskipun ESB nr. 75/117 og dóma Evrópudómstólsins, þar sem mat á því hvort störf séu jafnverðmæt sé byggt á eiginleikum starfsins og einstakra þátta þess, svo sem eðli starfs, krafna til starfsreynslu og vinnuskilyrða.

Enn fremur minnir kærandi á að ógagnsætt launakerfi hafi í fyrri álitum kærunefndar jafnréttismála verið talið afgerandi atriði þegar komist sé að niðurstöðu um launamun í skilningi jafnréttislaga, sbr. til dæmis mál nr. 4/1997.

Bendir kærandi á að starfsreynsla og hæfni kæranda til starfsins hafi til muna verið meiri en þeirra fjögurra karla, C, D, E og F, sem til greina komi í slíkum samanburði. Sjáist það best af því að kærandi hafi verið valin til starfa árið 2005 í deildina Sala og þjónusta við fagfjárfesta og tekin fram yfir þá D og F sem þá hafi starfað í ráðgjöf Kaupþings banka hf. Þeir C og E hafi hvorugir hafið störf hjá bankanum þegar þetta var.

Kærandi greinir frá því að síðustu bónusgreiðslu sína í starfi hafi hún fengið í febrúar 2007 vegna ársins 2006, enda þá starfað í deildinni um 14 mánaða skeið. Á þeim tíma hafi einungis verið starfandi í deildinni þau B og kærandi, auk forstöðumannsins G.

III.

Sjónarmið Kaupþings banka hf.

Kaupþing banki hf. hafnar því alfarið að bankinn hafi með launagreiðslum til starfsmanna umræddrar deildar brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Með vísan til þess hafnar Kaupþing banki hf. kröfu kæranda þess efnis að bankinn verði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar vegna meðferðar málsins fyrir nefndinni skv. 5. mgr. 5. gr. laganna.

Greinir Kaupþing banki hf. frá því að samkvæmt ráðningarsamningi við kæranda skyldi hún bera ábyrgð á uppbyggingu viðskipta við stærri fyrirtæki, koma upp markaðssíðum fyrir erlenda fjárfesta, sjá um samskipti við önnur svið bankans og sinna öðrum verkefnum í samráði við yfirmann sem var forstöðumaður deildarinnar. Þá skyldi kærandi fá greiddar XXXZ krónur í grunnlaun á mánuði, en ekki hafi verið greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Bankinn hafi útvegað kæranda farsíma og greitt allan kostnað af honum. Í ráðningarsamningnum hafi jafnframt verið kveðið á um tilhögun bónusgreiðslna. Forsenda slíkra greiðslna hafi verið að 15% arðsemismarkmiðum samstæðunnar yrði náð, en fjárhæð slíkra bónusgreiðslna hafi verið ákvörðuð af framkvæmdastjóra eignastýringarsviðs í samráði við forstjóra og starfsmannastjóra, að teknu tilliti til árangurs samstæðunnar í heild, bankans á Íslandi, árangurs eignastýringar og árangurs kæranda í starfi. Að þessu leyti hafi ráðningarsamningur kæranda verið sambærilegur ráðningarsamningum annarra starfsmanna deildarinnar.

Samkvæmt ráðningarsamningi kæranda hafi hún verið ráðin til starfa á eignastýringarsviði Kaupþings banka hf. sem sérfræðingur, en í daglegu tali hafi verið vísað til starfsmanna deildarinnar Sala og þjónusta við fagfjárfesta sem viðskiptastjóra. Starfsheitið viðskiptastjóri hafi ekki verið skilgreint sérstaklega innan bankans og endurspeglað því hvorki inntak starfa þeirra sem báru það starfsheiti né ábyrgð þeirra. Inntak starfa einstakra starfsmanna innan deildarinnar hafi annars vegar ákvarðast af ákvæðum ráðningarsamnings og hins vegar af fyrirmælum yfirmanns. Talsverður munur hafi því getað verið á störfum tveggja viðskiptastjóra, verðmætasköpun þeirra í þágu bankans, ábyrgð þeirra og öðrum þáttum í störfum þeirra, enda þótt báðir hafi verið titlaðir viðskiptastjórar.

Þá greinir Kaupþing banki hf. frá því að deildin Sala og þjónusta við fagfjárfesta hafi sinnt sölu á afurðum og þjónustu eignastýringar bankans og erlendra samstarfsaðila hans, einkum til fagfjárfesta og stærri fyrirtækja. Helstu verkefni deildarinnar voru a) sala á sjóðum erlendra samstarfsaðila bankans, svo sem JP Morgan o.fl., til innlendra fagfjárfesta, auk samskipta við erlenda samstarfsaðila, b) sala og þjónusta vegna eignastýringar og verðbréfasjóða til fagfjárfesta og c) sala á verðbréfasjóðum, einkum skammtímasjóðum, til stærri fyrirtækja og samskipti við erlendar starfsstöðvar. Forstöðumaður deildarinnar hafi sinnt þeim verkefnum sem talin séu upp í a- og b-lið, ásamt B. Kæranda hafi verið falið að sinna þeim verkefnum sem talin séu í c-lið. Verkefni kæranda innan deildarinnar hafi því ekki verið þau sömu og verkefni B, svo sem haldið hafi verið fram af hálfu kæranda.

Í upphafi ársins 2007 hafi kærandi farið í fæðingarorlof, en þá hafði hún aðeins verið rúmt ár í starfi innan deildarinnar og hafði henni því eðli málsins samkvæmt ekki tekist að afla sér umfangsmikillar starfsreynslu á starfssviði deildarinnar. Að loknu fæðingarorlofi hafi kærandi tekið þriggja mánaða launalaust leyfi frá störfum hjá Kaupþingi banka hf., en komið svo að nýju til starfa hjá bankanum í janúar 2008 og tekið til við fyrri störf.

Kaupþing banki hf. hafnar því alfarið að hafa mismunað kæranda í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis, enda hafi réttmætar og málefnalegar ástæður ráðið því að nokkur munur hafi verið á launakjörum kæranda og B sem kærandi hafi kosið að bera sig saman við.

Í fyrsta lagi hafi munur á starfskjörum ekki verið sá sem haldið sé fram af hálfu kæranda, en kærandi fari þar rangt með staðreyndir í veigamiklum atriðum. Kærandi láti hjá líða að upplýsa að laun hennar á árinu 2005 hafi verið breytileg þar sem greitt hafi verið sérstaklega fyrir yfirvinnu, en sá aðili sem hún kjósi að bera sig saman við hafi verið á föstum mánaðarlaunum, án þess að greitt hafi verið sérstaklega fyrir yfirvinnu. Þegar kærandi hóf störf innan deildarinnar Sala og þjónusta við fagfjárfesta hafi grunnlaun hennar numið XXYX (sic) krónum, en á starfstíma kæranda hafi grunnlaunin hækkað í samræmi við kjarasamning og orðið YXXX krónur 1. janúar 2007 og XYXY krónur 1. janúar 2008. Af hálfu kæranda hafi því verið haldið fram að grunnlaun samstarfsmanns hennar hafi í upphafi ársins 2006 numið YYXX krónum. Hið rétta sé að grunnlaun hans námu á þeim tíma XXZZ krónum. Laun samstarfsmannsins hafi hækkað í XXZY krónur á árinu 2006, í XZXZ krónur 1. janúar 2007, í XZZX krónur 1. júlí 2007 og XXYZ krónur 1. febrúar 2008 og haldist síðan óbreytt út starfstíma hans hjá bankanum. Sá munur sem hafi verið á launakjörum kæranda og samstarfsmanns hennar hjá bankanum á þessu tímabili sé því umtalsvert minni en fullyrt hafi verið af hálfu kæranda. Kærandi og B hafi ekki gegnt sömu eða jafnverðmætum störfum í skilningi 1. mgr. 19. gr. og 2. mgr. 25. gr. laganna.

Í öðru lagi hafi störf kæranda og karlkyns samstarfsmanns hennar ekki verið sambærileg. Kærandi hafi sinnt allt öðrum störfum en B sem hún kjósi að bera sig saman við. B hafi sinnt sölu á sjóðum erlendra samstarfsaðila og verðbréfasjóða til fagfjárfesta, sinnt þjónustu vegna eignastýringar og annast samskipti við erlenda samstarfsaðila ásamt forstöðumanni deildarinnar. Jafnframt hafi B gegnt lykilhlutverki við að afla nýrra viðskiptaafurða fyrir sviðið, meðal annars með því að ná samningum við JP Morgan um sölu á sjóðum félagsins. Kærandi hafi aftur á móti sinnt sölu á verðbréfasjóðum, einkum skammtímasjóðum, til stærri fyrirtækja og sinnti samskiptum við erlendar starfsstöðvar. B hafi náð góðum árangri í sölu á erlendum hlutabréfasjóðum til innlendra fagfjárfesta, einkum lífeyrissjóða og gegndi hann, ásamt forstöðumanni deildarinnar, lykilhlutverki í að fá umboð fyrir erlenda hlutabréfasjóði, og afla og viðhalda viðskiptum við fagfjárfesta. Kærandi hafi aftur á móti verið ný í starfi og talsverður hluti af starfstíma hennar hjá bankanum hafi því farið í að afla sér reynslu og þekkingar á starfssviði deildarinnar. Umtalsverður munur hafi því verið á inntaki starfa þeirra og ábyrgð sem hafi verið mun ríkari í starfi B en kæranda. Af þessu leiddi að B hafi aflað umtalsvert meiri tekna fyrir bankann en kærandi.

Kaupþing banki hf. mótmælir því að kærandi hafi tekið við lunganum af þeim verkefnum sem B hafi sinnt við starfslok hans hjá bankanum, þar með talið vinnu í erlendu hlutabréfateymi. Hið rétta sé að öðrum starfsmanni deildarinnar hafi verið falið að taka við hluta af þessum verkefnum, en vert sé að hafa í huga að verulega hafði dregið úr verkefnum deildarinnar í kjölfar bankahrunsins. Þá hafi kærandi ekki tekið þátt í vinnu í erlendu hlutabréfateymi bankans.

Í þriðja lagi hafi verið verulegur munur á menntun kæranda og menntun B. Á prófgráðum kæranda og B sé grundvallarmunur að mati bankans og óþarft að færa sérstök rök fyrir þeim augljósa mun sem sé á grunnnámi og meistaranámi á háskólastigi. Þá bendir bankinn á að aðeins hafi verið horft til þeirrar menntunar starfsmanna sem hafi nýst þeim beint í störfum sínum innan deildarinnar þegar ákvarðanir hafi verið teknar um inntak starfa þeirra og launakjör. Ekki hafi verið tekið sérstakt tillit til þess að kærandi hafi lokið grunnnámi í þýsku, með ensku sem aukagrein, enda hafi samskipti starfsmanna deildarinnar við viðskiptavini og aðra farið fram á íslensku og eða ensku.

Í fjórða lagi hafi verið verulegur munur á starfsreynslu kæranda og B. Kærandi hafi lokið námi sínu í viðskiptafræði árið 2004 og hafið störf hjá Kaupþingi banka hf. árið 2005. Við upphaf starfstímans hjá Kaupþingi banka hf. hafi kærandi ekki aflað sér neinnar reynslu í sambærilegum störfum. B hafi hafið störf hjá eignastýringu á verðbréfasviði í Búnaðarbanka Íslands í upphafi ársins 2001, en áður hafði hann starfað í eitt ár hjá Morgan Stanley í Bandaríkjunum og um tveggja ára skeið hjá innlendu fjármálafyrirtæki. Hann hafi síðan verið starfsmaður deildarinnar Sala og þjónusta við fagfjárfesta frá því að deildin var sett á laggirnar árið 2003 og tekið virkan þátt í uppbyggingu á samstarfi við erlenda samstarfsaðila, en það samstarf hafi myndað verulegan hluta af tekjum deildarinnar. Þá hafi B gegnt starfi sjóðsstjóra Global Equity hlutabréfasjóðsins í þrjú ár.

Í fimmta lagi hafi verið verulegur munur á starfsaldri innan bankans. Kærandi hafi verið ráðin til bankans sem nýr starfsmaður í upphafi samanburðartímans árið 2005, en þá hafi B þegar starfað hjá bankanum og forvera hans í fjögur ár, þar af tvö ár innan deildarinnar Sala og þjónusta við fagfjárfesta eða frá því að deildinni hafði verið komið á laggirnar.

Kaupþing banki hf. telur sig hafa sýnt fram á að málefnalegar forsendur hafi ráðið því að B hafi verið greidd hærri laun en kæranda, þ.e. að munur á launakjörum þeirra hafi ráðist af öðrum þáttum en kynferði þeirra. Með vísan til þess hafnar bankinn því að hafa mismunað kæranda í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns þannig að brjóti gegn bannákvæði 25. gr. laga nr. 10/2008.

Til viðbótar bendir Kaupþing banki hf. á að bankinn hafi greitt kæranda sambærileg laun og öðrum starfsmönnum deildarinnar sem hafi gegnt sama eða jafnverðmætu starfi í samræmi við 1. mgr. 19. gr. jafnréttislaganna. Aðrir starfsmenn deildarinnar hafi verið karlkyns og því ekki verið lögð til grundvallar launaákvörðunum innan deildarinnar sjónarmið sem feli í sér kynjamismunun.

Kaupþing banki hf. hafi ekki greitt neinum starfsmönnum deildarinnar bifreiðastyrk, svo sem haldið sé fram af hálfu kæranda, og því hafi kæranda ekki staðið til boða slíkur styrkur fremur en öðrum starfsmönnum deildarinnar. Allir starfsmenn hafi verið með farsíma á vegum bankans og enginn starfsmaður hafi fengið sérstaklega greitt fyrir yfirvinnu eða aukafrídaga.

Vegna umfjöllunar kæranda um fæðingarorlof B upplýsir Kaupþing banki hf. að B hafi gegnt hálfu starfi meðan á fæðingarorlofstímanum stóð og hann því aldrei tekið sér leyfi frá störfum að fullu.

Nokkur munur hafi jafnframt verið á bónusgreiðslum til handa kæranda og B. Sá munur hafi þó á engan hátt grundvallast á kynferði þeirra heldur á sjálfstæðu mati framkvæmdastjóra sviðsins, forstjóra og starfsmannastjóra, á árangri þeirra í starfi, svo sem fram komi í ráðningarsamningi kæranda. Á þeim tíma sem um ræði hafi kærandi verið ný í starfi, reynslulaus, með minni faglega þekkingu en B, engin viðskiptatengsl, auk þess sem framkvæmdastjóri eignastýringarsviðs bankans hafi ekki talið kæranda hafa náð þeim árangri sem að hafi verið stefnt. Þá verði ekki hjá því litið að árið 2007 hafi kærandi verið fyrst í fæðingarorlofi og síðan í launalausu leyfi og hafi því haft takmarkaða möguleika til að hafa áhrif á tekjumyndun í starfsemi deildarinnar á árinu, en umtalsverð aukning hafi orðið á veltu og arðsemi deildarinnar á árinu 2007. Störf B hafi aftur á móti þótt einkennast af frumkvæði og áhuga á að ná árangri í starfi, en B hafi verið talinn hafa náð góðum árangri í sölu afurða eignastýringar bankans og hafi gegnt lykilhlutverki í að afla og viðhalda viðskiptatengslum við fagfjárfesta. Bónusgreiðslur til handa kæranda fyrir árið 2006 hafi numið ZXXZ krónum og fyrir árið 2007 numið ZXZX krónum, en bónusgreiðslur til handa B hafi numið ZXYX krónum fyrir árið 2006 og ZYXX krónum fyrir árið 2007. Síðar kom kærði með leiðréttingar á þessum tölum og voru þá greiðslurnar til kæranda og B flokkaðar þannig:

 

Kærandi

B

Greitt árið 2005

 

 

Bónus 2004

 

ZZXX

Bónus 2005

 

ZZXY

 

 

 

Greitt árið 2006

 

 

Bónus 2005

ZZYZ

ZYZX

Bónus vegna afkomu 2005

YZZX

 

Aukabónus vegna 2005

XZXX

 

Bónus 2006

ZZYY

ZXYX

 

 

 

Greitt árið 2007

 

 

Bónus 2006

XXYY

XXZX

Bónus 2007

 

ZYYX

 

 

 

Greitt árið 2008

 

 

Bónus 2006

 

ZYXY

Bónus 2007

 

ZYYX

Kaupþing banki hf. hélt því fram að almennt hafi verið umtalsverður munur á bónusgreiðslum til einstakra starfsmanna deildarinnar, enda fjárhæð slíkra greiðslna ekki síst ráðist á mati stjórnenda deildarinnar á árangri starfsmanna í starfi en ekki kynferði þeirra. Bankinn kvað rétt að kærandi hafi ekki fengið greiddan bónus vegna ársins 2007, enda hafi kærandi verið frá vinnu vegna fæðingarorlofs og veikinda frá janúarmánuði 2007 og fram á árið 2008. Þá bendir Kaupþing banki hf. á að í kærunni hafi komið fram að kærandi telji sér hafa verið mismunað vegna bónusgreiðslna sem inntar hafi verið af hendi til starfsmanna árin 2006 og 2007, þ.e. vegna áranna 2005 og 2006, en ekki vegna ársins 2007. Aðilar málsins séu því einhuga um að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði til að fá bónusgreiðslu árið 2008 vegna ársins 2007. Sé það í fullu samræmi við skyldu bankans gagnvart starfsmönnum í fæðingarorlofi samkvæmt kjarasamningi Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins, sem einskorðist við að greiða mismun á óskertum launum (föst mánaðarlaun, greiðsla fyrir reglubundna yfirvinnu og vaktaálag) og greiðslum frá Fæðingarorlofssjóði.

Bankinn telur að sýnt hafi verið fram á að málefnalegar og hlutlægar ástæður hafi verið fyrir kjaramuni kæranda og B. Vekur bankinn sérstaka athygli á því sjónarmiði sínu að störf kæranda og B hafi á engan hátt verið sambærileg og því sé ótækt að leggja starf B til grundvallar samanburði skv. 25. gr. jafnréttislaganna. Í raun veki furðu að kærandi kjósi að bera sig saman við B sem hafi við upphaf starfsferils kæranda hjá bankanum árið 2005, haft sjö ára starfsreynslu á fjármálamarkaði, meiri menntun og reynslu en kærandi, sem hafi á sama tíma haft enga starfsreynslu á sama markaði.

    

IV.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að því að kona og karl sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni, sbr. 2. mgr. 25. gr. sömu laga.

Í kæru sinni til nefndarinnar fer kærandi þess á leit við nefndina að hún fjalli um og taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn lögum nr. 10/2008, en umtalsverður munur hafi verið á kjörum innan deildarinnar Sala og þjónusta til fagfjárfesta í Kaupþingi banka hf., kæranda annars vegar og karlkyns viðskiptastjóra hins vegar. Kærandi telur sig þannig hafa orðið fyrir beinni mismunun á grundvelli kynferðis, þ.e. óhagstæðari meðferð en annar einstaklingur af gagnstæðu kyni við sambærilegar aðstæður.

Eins og að framan er rakið hóf kærandi störf hjá Kaupþingi banka hf. í febrúar 2005 sem sérfræðingur á eignastýringarsviði og starfaði í deildinni Sala og þjónusta við fagfjárfesta frá 1. desember 2005 þar til henni var sagt upp störfum í október 2008. Ljóst er að áberandi munur var á kjörum kæranda annars vegar og karlkyns viðskiptastjórans B hins vegar, svo sem síðar verður vikið að.

Kærandi byggir á því að störf hennar og B hafi verið þau sömu í skilningi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þau hafi haft sama starfsheiti innan Kaupþings banka hf., þau hafi gegnt hliðsettum störfum innan sömu deildar, menntun kæranda hafi ekki verið síðri en B og að hinn mikli launamunur verði ekki réttlættur með málefnalegum og hlutlægum hætti, þar með talið vegna menntunar, starfsaldurs eða annars. Kærandi telur að um kynbundinn launamun sé að ræða.

Í ráðningarsamningi kæranda sagði að hún bæri ábyrgð á að byggja upp viðskipti við stærri fyrirtæki, koma upp markaðssíðum fyrir erlenda fjárfesta og sjá um samskipti við önnur svið bankans, til að mynda útibúasvið, ráðgjöf og einkabankaþjónustu. Enn fremur var gert ráð fyrir því að kærandi sinnti öðrum verkefnum í samráði við yfirmann deildarinnar, sem var G.

Af hálfu Kaupþings banka hf. er á því byggt að störf kæranda og B hafi ekki verið sambærileg. Starfsheitið viðskiptastjóri hafi ekki verið skilgreint sérstaklega innan bankans og endurspeglaði því hvorki inntak starfa þeirra sem báru það starfsheiti né ábyrgð þeirra. Störf einstakra starfsmanna innan deildarinnar hafi annars vegar ákvarðast af ákvæðum ráðningarsamnings og hins vegar af fyrirmælum yfirmanns. B hafi sinnt sölu á sjóðum erlendra samstarfsaðila og verðbréfasjóða til fagfjárfesta, sinnt þjónustu vegna eignastýringar og annast samskipti við erlenda samstarfsaðila ásamt forstöðumanni deildarinnar. Jafnframt hafi B gegnt lykilhlutverki við að afla nýrra viðskiptaafurða fyrir sviðið, meðal annars með því að ná samningum við JP Morgan um sölu á sjóðum félagsins. Kærandi hafi aftur á móti sinnt sölu á verðbréfasjóðum, einkum skammtímasjóðum, til stærri fyrirtækja og annast samskipti við erlendar starfsstöðvar. Umtalsverður munur hafi því verið á inntaki starfa þeirra og ábyrgð sem hafi verið mun ríkari í starfi B en kæranda. Hann hafi jafnframt aflað umtalsvert meiri tekna en kærandi fyrir bankann.

Við úrlausn á því hvort um er að ræða sömu störf hefur verið litið til þess hvort þau eru sambærileg að ábyrgð, inntaki og ytri búnaði og því hvort störfunum hafi verið ætlað nokkuð jafnræði í ytri ásýnd, sbr. meðal annars álit kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 11/2004 og dóma Hæstaréttar í málum nr. 11/2000 og nr. 258/2004. Því geti verið um sömu störf að ræða í skilningi jafnréttislaga, þótt einstaka þættir þeirra kunni að vera ólíkir og laun jafnvel ákvörðuð á grundvelli mismunandi kjarasamninga.

Ekki nýtur við gagna um starf B, hvorki ráðningarsamningur né starfslýsing. Samkvæmt ráðningarsamningi kæranda var næsti yfirmaður hennar forstöðumaður deildarinnar Sala og þjónusta við fagfjárfesta. Kærandi og B voru einu starfsmenn deildarinnar fyrir utan forstöðumann hennar þar til hún fór í fæðingarorlof og báru sama starfsheiti. Þau voru að því leyti hliðsett í deildinni. Ekki hefur verið sýnt fram á að eðlismunur hafi verið á störfum þeirra þótt þau hafi ekki að öllu leyti sinnt sömu verkefnum eða samstarfs- og viðskiptavinum.

Við þær aðstæður sem uppi eru í máli þessu er það mat kærunefndar jafnréttismála að það standi Kaupþingi banka hf. nær að leiða að því hlutlæg rök að starf kæranda hafi ekki verið það sama og starf B. Með því að þau hafa ekki verið lögð fyrir kærunefnd verður að telja að kærandi hafi leitt verulegar líkur að því að störf hennar og B hafi verið þau sömu í skilningi jafnréttislaga þar sem þau voru hliðsett og svo lík að inntaki og ytri ásýnd. Nægir það til þess samkvæmt almennum sönnunarreglum, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008, að Kaupþing banki hf. verður að sýna fram á að sá munur sem var á launakjörum kæranda og B hafi ekki verið reistur á sjónarmiðum er varða kynferði þeirra.

Kærunefndin hefur fengið upplýsingar um launakjör fimm karlkyns starfsmanna Kaupþings banka hf. sem gegndu störfum í lengri eða skemmri tíma í sömu deild og kærandi á starfstíma hennar. Var það gert meðal annars að kröfu kæranda. Nefndin bar saman laun og bónusgreiðslur þessara starfsmanna og kæranda. Til þess er að líta að þessir aðilar störfuðu allir á eignastýringarsviði. Í deildinni Sala og þjónusta við fagfjárfesta starfaði B einn ásamt forstöðumanni þar til í desember 2005 er kærandi hóf þar störf. Tveir starfsmenn komu til starfa í deildinni á meðan kærandi var í fæðingarorlofi árið 2007, K fram í ágúst og D frá nóvember sama ár. Er B lét af störfum í september 2008 komu C og E í hans stað.

Samkvæmt framangreindum upplýsingum er ljóst að karlarnir höfðu sambærileg laun og kærandi áður en hún fór í fæðingarorlof, að frátöldum B. Á árinu 2007 urðu nokkrar launahækkanir hjá körlunum en á þeim tíma var kærandi í fæðingarorlofi. Skýringar Kaupþings banka hf. á launahækkunum eru þær að á þessum tíma hafi verið umtalsverð aukning á veltu og arðsemi í rekstri bankans, meðal annars í deildinni Sala og þjónusta við fagfjárfesta. Laun kæranda tóku hækkunum samkvæmt kjarasamningum á sama tíma.

Framangreindar upplýsingar staðfesta það sem fram kom í rökstuðningi kærða að sá munur sem var á föstum launum kæranda og samstarfsmanns hennar B hjá bankanum var nokkuð minni en fullyrt var að hálfu kæranda. Það er þó ljóst að hann var frá upphafi umtalsverður.

Kaupþing banki hf. hefur byggt á því að B hafi unnið að verkefnum sem hafi falið í sér meiri ábyrgð og verið verðmætari fyrir bankann en starf kæranda. B hafi náð góðum árangri í sölu á erlendum hlutabréfasjóðum til innlendra fagfjárfesta, einkum lífeyrissjóða, og gegndi hann ásamt forstöðumanni deildarinnar lykilhlutverki í að fá umboð fyrir erlenda hlutabréfasjóði og afla og viðhalda viðskiptum við fagfjárfesta. Af þessu leiddi að B hafi aflað umtalsvert meiri tekna fyrir bankann en kærandi. Þessar fullyrðingar kærða hafa meðal annars stuðning í málatilbúnaði kæranda. Kærandi hefur í máli þessu og máli kærunefndarinnar nr. 3/2009 byggt á því að er B hætti störfum í deildinni í september 2008 hafi verið tekin ákvörðun um að fela henni stóran hluta af þeim verkefnum sem B hafði haft með höndum, þar á meðal sölu erlendra sjóða, en því verkefni var stjórnað af svonefndu erlendu hlutabréfateymi sem starfaði innan Kaupþings banka hf.  B hafi að auki annast samskipti við erlenda samstarfsaðila á borð við JP Morgan, State Street og Fidelity.

Kærði hefur jafnframt lagt áherslu á að verulegur munur hafi verið á starfsreynslu kæranda og B sem og menntun þeirra. B hafði starfað hjá eignastýringu á verðbréfasviði í Búnaðarbanka Íslands frá síðari hluta árs 2000. Áður hafði hann starfað í eitt ár hjá Morgan Stanley í Bandaríkjunum og um tveggja ára skeið hjá innlendu fjármálafyrirtæki. Hann varð starfsmaður deildarinnar Sala og þjónusta við fagfjárfesta er deildin var stofnuð árið 2003 og tók virkan þátt í uppbyggingu á samstarfi við erlenda samstarfsaðila, en það samstarf myndaði verulegan hluta af tekjum deildarinnar að sögn kærða. Þá var B sjóðsstjóri Global Equity hlutabréfasjóðsins hjá kærða í þrjú ár. Kærandi lauk hins vegar námi 2004 og hóf störf hjá kærða í febrúar 2005 við verðbréfaráðgjöf en frá 1. desember 2005 í deildinni Sala og þjónusta við fagfjárfesta sem var undir eignastýringarsviði Kaupþings banka hf.

B er með MBA-próf í viðskiptafræði (rekstrarhagfræði) frá bandarískum háskóla en kærandi er með B.A.-próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og er því ljóst að menntun B er meiri en kæranda. Kærandi hefur einnig B.A.-próf í þýsku og ensku en það vegur ekki á móti framhaldsmenntun á því sviði sem kærandi og B störfuðu á þótt sú menntun hafi nýst í starfi eins og kærandi hefur lýst.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að nægilega sé fram komið í máli þessu að sá munur sem var á föstum launum kæranda annars vegar og B hins vegar megi rekja til þess að hann hafi annast önnur og verðmætari verkefni en kærandi. Jafnframt hafði umræddur karl bæði yfir að ráða mun meiri starfsreynslu og meiri menntun á því sviði sem þau störfuðu á. Enn má líta til þess að B hafði umtalsvert hærri mánaðarlaun en aðrir þeir karlmenn sem störfuðu sem viðskiptastjórar innan deildarinnar Sala og þjónusta við fagfjárfesta.

Verður því að líta svo á að munurinn á föstum launum kæranda og B skýrist með öðrum orðum af öðru en kynferði. Að þessu leyti er því ekki um brot á lögum nr. 10/2008 að ræða.

 

Kærandi telur að henni hafi verið mismunað við bónusgreiðslur sem inntar voru af hendi 2006 og 2007, vegna áranna 2005 og 2006.

Örðugt er að bera saman bónusgreiðslur milli deilda þar sem starfsemi þeirra og arðsemi var mismunandi. Kærandi kom fyrst til starfa í deildinni Sala og þjónusta við fagfjárfesta í desember 2005. Því telur nefndin að samanburður á bónusgreiðslum til kæranda og B árið 2006 vegna 2005 komi ekki til álita. Bónusgreiðslur árið 2007 vegna ársins 2006 koma því einar til skoðunar í máli þessu.

Á árinu 2006 störfuðu aðeins kærandi og B í deildinni Sala og þjónusta við fagfjárfesta auk forstöðumanns. Þótt bónusgreiðslur kæranda hafi hækkað verulega við það að hefja störf í deildinni var þó umtalsverður munur á bónusgreiðslum til kæranda og B. Mismunandi verkefni, viðskiptaaðilar, starfsreynsla og menntun kunna að geta réttlætt þennan mun. Hins vegar er það álit kærunefndar jafnréttismála að slíkur munur verði að byggjast á fyrirfram skilgreindum og gagnsæjum viðmiðum. Slíkir mælikvarðar mega ekki vera til þess fallnir að mismuna kynjunum.

Samkvæmt ráðningarsamningi kæranda skyldu bónusgreiðslur greiddar tvisvar á ári. Fyrir 1. febrúar og 1. ágúst ár hvert yrðu bónusgreiðslur liðins tímabils ákveðnar. Þær skyldu taka mið af árangri samstæðunnar í heild (Kaupþings banka hf. og dótturfélaga), bankans á Íslandi og árangri eignastýringar. Þá átti að leggja mat á árangur kæranda í starfi, en bónusgreiðslur hafi almennt miðast við að 15% arðsemiskrafa samstæðunnar næðist. Samkvæmt samningnum ákvað framkvæmdastjóri bónusgreiðslur að höfðu samráði við forstjóra og starfsmannastjóra. Af hálfu kærða hefur komið fram að ráðningarsamningur kæranda hafi að þessu leyti verið sambærilegur ráðningarsamningum annarra starfsmanna deildarinnar. Að öðru leyti hafi ekki verið til sérstakar reglur um ákvörðun bónusgreiðslna.

Skilja má málflutning kærða á þann veg að árangur í starfi viðkomandi starfsmanna hafi ráðið mestu við mat á bónusgreiðslum í máli þessu. Kærði hefur átt þess kost að leggja fram reglur eða aðrar upplýsingar sem gætu rennt stoðum undir þá fullyrðingu hans að málefnalegar ástæður hafi legið að baki miklum mun á bónusgreiðslum. Hefur hann ekki lagt fram nokkur gögn er sýna hvernig það mat árangri fór fram, svo sem mælingar eða úttektir á árangri einstakra starfsmanna, hverjar tekjur deildarinnar hafi verið og af hvaða verkþáttum tekjurnar hafi stafað. Af þessum sökum er það álit kærunefndar jafnréttismála að kærða hafi ekki tekist að sanna að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kynferði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008.

Með vísan til framangreinds þykir Kaupþing banki hf. hafa brotið gegn 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. mgr. 19. gr., laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, að því er varðar bónusgreiðslur vegna ársins 2006.

Með vísan til atvika máls þessa og niðurstöðu nefndarinnar skal kærði greiða kæranda 200.000 krónur í málskostnað.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist nokkuð vegna tafa við gagnaöflun, sumarleyfa og þess að í tvígang þurfti að skipa nýjan formann nefndarinnar.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kaupþing banki hf. telst hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, í máli þessu að því er varðar bónusgreiðslur sem inntar voru af hendi árið 2007 vegna ársins 2006.

Kaupþing banki hf. greiði kæranda, A, 200.000 krónur í málskostnað.

 

Páll Arnór Pálsson

Ingibjörg Rafnar

 Þórey S. Þórðardóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum