Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2009 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra mælir fyrir frumvarpi um stofnun Íslandsstofu

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stofnun Íslandsstofu. Þetta frumvarp er að finna á þskj. 175 og er 158. mál þingsins. Eins og segir í 1. gr. frumvarpsins er tilgangur þess að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og ekki síst að stuðla að því að fá til landsins sem flesta erlenda ferðamenn og fá hingað erlenda fjárfestingu.

Íslandsstofu hinni nýju er ætlað að rísa á traustum grunni Útflutningsráðs Íslands sem verður, eins og segir í bráðabirgðaákvæði með frumvarpinu, lagt niður en Fjárfestingastofa, markaðs- og kynningarstarf Ferðamálastofu erlendis, og annað markaðs- og kynningarstarf opinberra aðila á að renna inn í hina nýju stofnun sem verður reist á þessum grunni. Ég fagna því alveg sérstaklega að fá inn í þetta verk bæði þessa auknu samvinnu á sviði ferðamála en ekki síður að geta notið þeirrar þekkingar og þeirrar reynslu sem Útflutningsráð býr yfir. Ég hef sem utanríkisráðherra en líka sem fyrrverandi iðnaðar-, orkumála- og ferðamálaráðherra haft af því ákaflega góða reynslu að geta leitað til Útflutningsráðs til þess að koma íslenskum hugmyndum á framfæri. Ég nefni kannski ekki síst í því samhengi dæmið af gagnaverum, þar stóð Útflutningsráð sig algjörlega frábærlega. Það að hin nýja Íslandsstofa mun með þessum hætti rísa á grunni Útflutningsráðs þýðir því að hér er ekki gert ráð fyrir viðbótarríkisstofnun, heldur verður Íslandsstofa nýr samvinnuvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda og ég tel að þetta frumvarp eins og það er lagt upp endurspegli mjög ríkan vilja stjórnvalda til að hafa áfram mjög gott samstarf við fyrirtækin í landinu og atvinnulífið til að hnika áfram útflutningi, ferðaþjónustu og sókninni í erlenda fjárfestingu hingað til lands, og síðast en ekki síst kynningu á Íslandi erlendis.

Ekki er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins aukist vegna Íslandsstofu því að eins og kemur fram í kostnaðarumsögn með frumvarpinu munu fjárveitingar til einstakra verkefna haldast óbreyttar. Það kemur skýrt fram í 5. gr. frumvarpsins úr hvaða áttum fjárveitingar til Íslandsstofu munu koma. Hins vegar er eitt höfuðmarkmiðið með hinni nýju stofnun að með hinu aukna samstarfi, sem sker þvert á ráðuneytin, reyni menn að fá meira út úr því fjármagni sem þeir hafa úr að spila, ná sem sagt auknum árangri á einstökum sviðum fyrir sama fé.

Grunnhugmyndin að Íslandsstofu varð til í tíð ríkisstjórnar Geirs H. Haarde í framhaldi af umræðum sem fóru fram fyrst og fremst innan vébanda atvinnulífsins um nauðsyn þess að stilla saman þá krafta sem vinna að því að kynna Ísland á erlendri grundu. Frá því er skemmst að segja að ekki höfum við minni þörf fyrir það í dag eftir þau fjármálalegu áföll sem riðu yfir þjóðina þegar orðspor Íslands beið auðvitað töluverðan hnekki utan landamæra Íslands, og eitt af því sem Íslandsstofu er ætlað er að treysta og styrkja ímynd Íslands. Menn ætla sér með nánu samstarfi allra þeirra sem vinna að útflutningi og kynningar- og markaðsmálum fyrir Ísland að ná saman auknum samlegðaráhrifum sem eiga að miða að því að styrkja útflutning frá Íslandi og styðja og styrkja ímynd Íslands. Þeir sem hafa vélað um þetta frumvarp, og þeir eru ákaflega margir bæði í tíð núverandi og fyrrverandi ríkisstjórna, telja að með því að tengja saman og virkja þá þekkingu sem nú þegar er til á sviði útflutningsþjónustunnar, á sviði ferðamála- og menningarkynningar sé hægt að vera með sterkari samræmd skilaboð frá Íslandi en áður og eins og ég sagði ná auknum árangri fyrir sama fjármagn og er nú fyrir hendi í málaflokknum.

Eitt af meginverkefnunum, eins og ég sagði, er sem sagt að hin nýja Íslandsstofa styrki og efli ímynd Íslands út á við. Ég lít svo á að stofnun Íslandsstofu sé mikilvægur hluti af viðbrögðum okkar Íslendinga við hruninu vegna þess að með henni er með tilteknum hætti brugðist við þeim bresti sem varð á ímynd Íslands. Þar höfum við Íslendingar verk að vinna og þess vegna er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að stjórnvöld og atvinnulífið snúi bökum saman við að byggja upp og styrkja orðspor Íslands. Ef það er eitthvað sem við Íslendingar höfum hefð fyrir er það að segja sögu og það sem við þurfum að gera núna er með samhæfðum hætti að nýta þær stofnanir, þau tækifæri og þær leiðir sem við höfum til að segja sögu Íslands, segja söguna af því hvernig Ísland hefur brugðist við fjármálahruninu og hvernig Ísland, land og þjóð, er saman, allir sem einn, að vinna sig upp úr þeim erfiðleikum sem yfir okkur dundu því að það er það sem við erum að gera núna, endurreisn er hafin og ég er þeirrar skoðunar að við munum ná okkur út úr þeim erfiðleikum sem við rötuðum í miklu fyrr en margir spáðu og það er partur af þeirri sögu sem við þurfum að segja.

Það má í stuttu máli, frú forseti, skilgreina hlutverk hinnar nýju Íslandsstofu í fimm afmarkaða þætti. Í fyrsta lagi verður Íslandsstofa samstarfsvettvangur stjórnvalda og hagsmunaaðila þar sem verður mótuð samræmd stefna um uppbyggingu ímyndar og orðspors Íslands, en við vitum að jákvæð ímynd styrkir að öllu leyti möguleika okkar til að flytja út og til að fá hingað erlent fjármagn og ferðamenn. Í öðru lagi á Íslandsstofa að veita fyrirtækjum alhliða faglega aðstoð, fræðslu og ráðgjöf við að kynna og selja vörur og veita þá þekkingu sem hún hefur á erlendum mörkuðum. Eins og fram hefur komið er ekki sísta hlutverk hennar að fá hingað til lands erlenda ferðamenn. Í fjórða lagi á hún líka að stuðla að því að fá hingað erlent fjármagn og eins og kemur fram í 5. tölul. 5. gr. frumvarpsins á beinlínis að veita til þess 14% af þeim tekjum sem Íslandsstofa hefur. Og síðast en ekki síst í fimmta lagi á Íslandsstofa að stuðla að því að kynna íslenska menningu, íslenska arfleifð erlendis. Það er grunnstoðin sem annað hvílir á í þessu samhengi. Íslandsstofu er sem sagt ætlað að auka samstarf þvert á Stjórnarráðið og með atvinnulífinu og ætlunin er sú að stórbæta þá þjónustu með því að gera hana í senn markvissari, samræmdari og skilvirkari og ég tel, eins og ég hef áður sagt, að það skipti ekki síst miklu máli á þeim örlagatímum sem við Íslendingar lifum núna. Nú sem aldrei fyrr þarf Ísland á auknum útflutningstekjum að halda til að geta betur starfað að því að ná að reisa Ísland úr þeim erfiðleikum sem það rataði í.

Það má segja að Íslandsstofa eigi í reynd að verða sameiginlegt verkfæri stjórnvalda og atvinnulífsins til að ýta undir útflutning frá Íslandi og sömuleiðis ímynd og orðspor Íslands. (Gripið fram í.) Sérstaklega er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að stefna og frumkvæði einstakra greina fái notið sín til fulls. Þannig er gert ráð fyrir því að stjórn stofnunarinnar verði heimilt í samráði við viðkomandi fagráðuneyti að skipa sérstakar verkefnastjórnir til að móta áherslur einstakra málaflokka, t.d. varðandi kynningu og markaðsmál erlendis fyrir ferðaþjónustuna, varðandi erlenda fjárfestingu og ekki síst varðandi sprotafyrirtæki. Það er komið alveg skýrt fram að núverandi ríkisstjórn hefur sérstakan áhuga á því að lyfta sprotafyrirtækjum á Íslandi. Við teljum að þar sé að finna eitt af því sem getur skipt verulega miklu máli til þess að dreifa áhættu atvinnulífs á Íslandi þegar fram í sækir og meðal þeirra hundruða sprotafyrirtækja sem nú eru á dögum er næsta víst að þar eru nokkur sem eiga eftir að vaxa verulega og skipta miklu máli um sköpun starfa og verðmæta. Og eitt af því sem skiptir máli, einmitt fyrir sprotafyrirtækin, er að eiga kost á þeirri reynslu, þekkingu og hefð sem er fyrir hendi og mun verða innan vébanda Íslandsstofu. Og frá því er skemmst að segja að Útflutningsráð hefur staðið sig ákaflega vel í sumum tilvikum við að koma sprotafyrirtækjum á framfæri. Ég minnist þess t.d. að hafa nýlega hlustað á formann Samtaka sprotafyrirtækja ræða um það með hvaða hætti fyrirtæki hans var liðsinnt af sendiráðinu í Kaupmannahöfn og samstilltu átaki þess og Útflutningsráðs. Við þurfum að gera þetta að markvissu hlutverki Íslandsstofu.

Frú forseti. Ég undirstrika alveg sérstaklega að gert er ráð fyrir því að þessi nýja stofnun muni sérstaklega nýtast markaðs- og kynningarstarfi ferðaþjónustunnar. Þetta er í dag að verða einhver mikilvægasta atvinnugreinin á Íslandi, þetta er orðinn einn af gróskumestu þáttunum í atvinnulífi okkar og rís sannarlega undir nafni. Þar gerast kraftaverk á hverjum einasta degi og ferðaþjónustan gegnir núna lykilhlutverki í öflun verðmæts gjaldeyris. Það mun ekki síst lenda á henni í framtíðinni á næstu árum að draga klárinn fyrir þjóðina. Þá skiptir það mjög miklu máli að stjórnvaldið, ríkisstjórnin, búi ferðaþjónustunni sem hagfelldast umhverfi. Með þessari stofnun sem við erum hér að kynna í formi frumvarps er gert ráð fyrir því að atgervi ríkisvaldsins í því að stuðla að ferðaþjónustu verði aukið. Það er gert ráð fyrir því samkvæmt frumvarpinu að markaðs- og kynningarstarf Ferðamálastofu erlendis muni færast yfir til Íslandsstofu sem mun þar af leiðandi þjónusta þau fjölmörgu fyrirtæki sem hafa unnið svona ákaflega gott starf á undanförnum árum við að byggja upp ferðaþjónustuna og skapa hér störf og tekjur. Það öfluga fólk sem starfar nú að markaðsmálum innan Ferðamálastofu mun flytjast til Íslandsstofu ásamt þeim fjármunum sem ætlaðir eru til þeirra starfa. Og líka verða gerðir sérstakir samningar á milli ferðamálaráðuneytisins og Íslandsstofu um fjármuni til markaðssóknar í ferðamálum.

Við höfum alltaf lagt mikinn metnað í ferðamálin og þar, eins og ég hef sagt, er mikil (SF: Það er ekki rétt.) gróska um þessar mundir. Hv. þingmaður segir að það sé ekki rétt að menn hafi lagt rækt við ferðamálin, það hafa menn sannarlega gert, bæði núverandi ferðamálaráðherra, fyrrverandi ferðamálaráðherra og líka fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem hefur sýnt það að hún hefur góða þekkingu á þeim málaflokki vegna þess að hún hefur ekki síst á undanförnum dögum lagt fram mál sem beinlínis miða að því að bæta stoðir ferðaþjónustunnar á Íslandi. Ég get ekki fallist á það að það hafi ekki bæði af stjórn og stjórnarandstöðu verið tekið verulega á í því að ýta undir ferðaþjónustu og ég er þeirrar skoðunar að það sem við erum að gera núna með Íslandsstofu sem er í samræmi við óskir greinarinnar sjálfrar muni skipta mjög miklu máli til framtíðar. Og ef hv. þingmaður sem hér kallar fram í hefur efasemdir um það getur hún spurst fyrir um það þegar málið kemur til þingnefndar vegna þess að þetta fyrirkomulag sem hér er lagt upp með var komið með á sínum tíma til þáverandi ríkisstjórnar í formi hugmyndar, einmitt frá samtökum sem starfa á ferðamálasviði.

Frú forseti. Þetta er í grófum dráttum meginefni þess frumvarps sem ég mæli hér fyrir og að lokinni þessari umræðu legg ég til að því verði vísað til 2. umr. og hv. utanríkismálanefndar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum