Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nýjar fjármálastofnanir taka við rekstri Sparisjóðs Keflavíkur og Byrs sparisjóðs

Fréttatilkynning nr. 11/2010

Helstu atriði:

  • Ný fjármálafyrirtæki taka við starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs sparisjóðs.
  • Fjármálaeftirlitið hefur flutt innlán og eignir Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs sparisjóðs til nýrra fjármálafyrirtækja.
  • Starfsemi hinna nýju fjármálafyrirtækja og útibúa þeirra verður með hefðbundnum hætti og þjónusta óbreytt.

Fjármálaráðherra hefur í dag sett á stofn tvö fjármálafyrirtæki sem taka við rekstri Sparisjóðsins í Keflavík, annars vegar, og Byrs sparisjóðs, hins vegar. Er það gert eftir að stjórnir þessara sparisjóða óskuðu eftir því við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir starfsemi sparisjóðanna, í kjölfar þess að samningaviðræður sem staðið hafa yfir undanfarna mánuði leiddu ekki til niðurstöðu.

Svo sem fram hefur komið hefur fjármálaráðuneytið fylgst með samningaviðræðum þessara tveggja sparisjóða við kröfuhafa sína þar sem eiginfjárframlag að hálfu ríkisins samkvæmt neyðarlögunum var hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu sjóðanna. Þessum viðræðum lauk með þeirri niðurstöðu að hluti kröfuhafa hefur nú hafnað fyrirliggjandi tillögum um fjárhagslega endurskipulagningu og því er ekki fyrir hendi fullnægjandi samþykki til að þær tillögur nái fram að ganga.

Í samræmi við verklag sem áður hefur verið viðhaft hefur Fjármálaeftirlitið flutt innlán og eignir beggja sparisjóðanna til nýrra fjármálafyrirtækja sem stofnuð hafa verið og eru að fullu í eigu ríkisins. Nýju fjármálafyrirtækin yfirtaka öll innlán í Sparisjóðnum í Keflavík og Byr sparisjóði og eignir til að mæta þeim skuldbindingum.

Innlán eru sem áður tryggð og allir viðskiptavinir munu hafa fullan aðgang að fjármálaþjónustu. Starfsemi hinna nýju fjármálastofnana og útibúa þeirra verður með hefðbundnum hætti og þjónusta óbreytt. Aðgengi að hraðbönkum og netbönkum, notkun greiðslukorta og greiðslumiðlun verður með reglubundnum hætti.

Í stjórn sparisjóðsins, SpKef sparisjóður sem tekur við starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík, sitja Ásta Dís Óladóttir, formaður, Helga Loftsdóttir, Valdimar Halldórsson, Anna María Pétursdóttir og Ottó Hafliðason.

Nýtt hlutafélag, Byr hf., tekur við starfsemi Byrs sparisjóðs, en í stjórn þess eiga sæti Stefán Halldórsson, formaður,  Ólafur Halldórsson, Dóra Sif Tynes, Árelía Guðmundsdóttir og Páll Ásgrímsson.

Stjórnirnar munu funda með starfsfólki á föstudag.

Fjármálaráðuneytinu, 23. apríl 2010



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum