Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Viðurkenningar veittar á degi umhverfisins

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra útnefnir nemendur Hvolsskóla varðliða umhverfisins.
Varðliðar á degi umhverfisins 2010

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti Sigrúnu Helgadóttur náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Haldið var upp á dag umhverfisins í dag með afhendingu viðurkenninga og ýmsum viðburðum. Við sama tækifæri fékk prentsmiðjan Oddi afhentan Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins og nemendur Hvolsskóla voru útnefndir varðliðar umhverfisins.

Sigrún Helgadóttir hlaut náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti Sigrún Helgadóttur náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti en þetta var í fyrsta sinn sem sú viðurkenningin er afhent. Umhverfisráðherra ákvað að veita viðurkenninguna í tilefni af tuttugu ára afmæli umhverfisráðuneytisins í ár.
Sigrún Helgadóttir hefur helgað starfskrafta sína umhverfismálum, ekki síst við að miðla fræðslu til barna og ungmenna en einnig hefur hún lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að auka skilning almennings á náttúru og umhverfi.

Á árunum 2000 til 2008 var Sigrún verkefnisstjóri Grænfánaverkefnisins. Hún skipulagði það frá upphafi og stýrði því þar til þátttökuskólarnir voru komnir yfir eitt hundrað talsins og á öllum skólastigum.

Sigrún hefur þýtt og staðfært námsefni í umhverfisfræðum og einnig skrifað námsefni í náttúru- og umhverfisfræðum, bæði fyrir nemendur og kennara. Þá hefur hún samið vandaða og afar fróðlega bók um Jökulsárgljúfur, Dettifoss og Ásbyrgi en hún var þar landvörður. Hún var fyrsti landvörður þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum og mótaði þá starf landvarða og beindi því inn á þá braut að landverðir túlkuðu náttúru fyrir gesti til að auka skilning þeirra á henni.

Að auki hefur Sigrún starfað með ýmsum félögum að umhverfismálum og hefur einnig komið þekkingu sinni á framfæri á vettvangi stjórnmálanna. Hún starfaði með hópi áhugafólks um umhverfismál, Græna hópnum, sem lét til sín taka og hvatti meðal annars mjög til stofnunar sérstaks ráðuneytis umhverfismála. Síðar var hún varaþingkona Kvennalistans 1987-1991 og 1994-1995. Hún bar þá fram ýmsar hugmyndir varðandi umhverfismál og átti meðal annarra stóran þátt í að semja þingmál um stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis sem Kvennalistinn lagði fram á Alþingi. Einnig bar hún fram mörg ný sjónarmið, til dæmis um grænan hagvöxt, nýja skilgreiningu hagvaxtarhugtaksins og kvenlæga vistfræði.

 

Prentsmiðjan Oddi hlaut Kuðunginn

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti Þóru Hirst, gæðastjóra prentsmiðjunnar Odda Kuðunginn fyrir framlag fyrirtækisins til umhverfismála á liðnu ári.
Í máli Sigþrúðar Jónsdóttur, formanns valnefndar Kuðungsins, kom fram að fyrirtækið hefði árum saman unnið eftir ákveðinni umhverfisstefnu, það hefði tekið upp umhverfisstaðla og unnið að því að lágmarka neikvæð áhrif starfseminnar á umhverfi og heilsu.
Á síðasta ári hlaut  fyrirtækið hina norrænu umhverfisvottun, Svaninn. Svanurinn gerir strangar kröfur til prentsmiðja og lítur meðal annars til orku- og efnanotkunar, sorpflokkunar og rýrnunar. Kröfur Svansins til efnanotkunar í prentsmiðjum eru sérstaklega strangar. Svansvottunin nær yfir alla prentþjónustu  Odda og fyrirtækið er fyrsta prentsmiðjan í heiminum sem hefur hlotið Svansvottun á framleiðslu bylgjukassa.
Í Odda er mjög fullkomin sorpflokkun, sem hefur leitt til meiri endurvinnslu og minni urðunarúrgangs. Þá hefur breytt framleiðslutækni leitt til minni efnanotkunar og markvissari stýringu til að lágmarka notkun á hættulegum efnum og tryggja rétta meðhöndlun þeirra.
Pappírinn sem notaður er í Odda ber Evrópublómið, umhverfisvottun Evrópusambandsins. Hann er endurunninn eða kemur frá nytjaskógum, þannig að fleiri tré eru gróðursett heldur en þau sem felld eru. Með því er ekki gengið á skógana og nýtingin er sjálfbær. Meginhluti trjánna í þessum skógum fer í timbur en kurlaðar trjágreinar, afskurður og sag eru notuð til pappírsframleiðslu. Þá er allur afskurður og pappírs afgangar hjá Odda gefnir í alla leikskóla landsins.
Oddi hefur skýra umhverfisstefnu og til að tryggja að þau skilyrði séu uppfyllt er unnið markvisst að því að allir 250 starfsmenn fyrirtækisins séu upplýstir um umhverfisáhrif sem tengjast rekstri prentsmiðjunnar sem og lög, reglugerðir, staðla og kröfur í umhverfismálum.
Í valnefnd kuðungsins sátu Sigþrúður Jónsdóttir formaður fyrir hönd umhverfisráðherra, Ingunn Þorsteinsdóttir fyrir Alþýðusamband Íslands og Guðbergur Rúnarsson fyrir Samtök atvinnulífsins.

Nemendur Hvolsskóla útnefndir varðliðar umhverfisins

Við sama tilefni útnefndi umhverfisráðherra nemendur í 10. bekk Hvolsskóla varðliða umhverfisins. Verkefnasamkeppnin Varðliðar umhverfisins er samstarfsverkefni umhverfisráðuneytisins, Landverndar og Náttúruskóla Reykjavíkur og er haldin árlega meðal nemenda í 5.-10. bekk í grunnskólum landsins.  Markmið keppninnar er að hvetja ungt fólk til góðra verka í umhverfisvernd, vekja athygli á sýn ungs fólks á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði.
Nemendur Hvolsskóla voru útnefndir varðliðar umhverfisins fyrir faglega skýrslu um umhverfisáhrif vegna framkvæmda við Landeyjahöfn. Í skýrslunni leitast nemendur við að varpa ljósi á umfang framkvæmdanna og áhrif þeirra á umhverfið með því að flétta viðfangsefnið inn í stærðfræði, eðlisfræði og náttúrufræði.  Reiknaður var út umhverfiskostnaður af framkvæmdum í Landeyjahöfn, m.a. fundin út koltvísýringsmengun af flutningum grjóts í brimvarnargarð. Einnig voru borin saman þau áhrif sem eru af siglingum til Þorlákshafnar annars vegar og til Landeyjahafnar hins vegar með því að reikna út kostnað vegna olíunotkunar og magn koltvísýrings sem losnar út í andrúmsloftið á þessum tveimur siglingaleiðum. Að lokum veltu nemendur fyrir sér ávinningi landgræðslu með tilliti til bindingar koltvísýrings til að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmdanna.

Náttúran.is 2.0 opnuð

Umhverfisráðherra opnaði í dag nýja útgáfu heimasíðunnar náttúran.is á þriggja ára afmæli hennar. Vefurinn hefur verið endurskrifaður frá grunni og tekið til í allri uppbyggingu vefsins. Náttúran.is 2.0 inniheldur nokkra nýja liði og enski hluti vefsins er orðinn yfirgripsmeiri og meginefni hans er  nú aðgengilegt á þýsku. Af nýjum liðum má nefna; Vistvæn innkaupaviðmið, Náttúruspjall, nýtt viðmót Náttúrumarkaðarins og vöruleit þar sem hægt er að þrengja leitina eftir framleiðanda og vottunum.

Fjöldi viðburða

Efnt var til fjölda viðburða á degi umhverfisins í ár. Meðal annars efndi Fuglavernd og Félag umhverfisfræðinga til göngu kringum Reykjavíkurtjörn og um Vatnsmýrina þar sem líffræðileg fjölbreytni svæðisins var kynnt. Þá efndu Grasagarðurinn og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn til viðburða og Græna ljósið bauð í bíó.

Dagur umhverfisins er haldinn 25. apríl ár hvert en þann dag árið 1762 fæddist Sveinn Pálsson, fyrsti íslenski náttúrufræðingurinn. Hann var einna fyrstur til að hvetja til aðgerða gegn skógareyðingu á Íslandi og orðaði þá hugsun sem nú kallast sjálfbær þróun. Nú er haldið upp daginn í tólfta sinn og í ár er dagurinn tileinkaður líffræðilegri fjölbreytni.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra með Þóru Hirst, gæðastjóra Odda.
Kuðungurinn 2009
Svandís Svavarsdóttir með Sigrúnu Helgadóttur og fjölskyldu hennar. Sigrún hlaut náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti á degi umhverfisins.
Dagur umhverfisins 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum