Hoppa yfir valmynd
28. júní 2010 Forsætisráðuneytið

Fjárframlög vegna viðbragða í kjölfar eldgosa í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum síðastliðinn föstudag að veita 791,7 milljónir króna til endurreisnar og vegna neyðaraðgerða í kjölfar eldgosanna í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi. Styðja á við uppbyggingarstarf á eldgosasvæðinu og treysta enn frekar störf þeirra sem komið hafa að neyðaraðgerðum, öryggismálum og endurreisn í kjölfar hamfaranna. Eldgosin hafa haft víðtæk áhrif á íslenskt samfélag sem og alþjóðlegar flugsamgöngur. Viðbrögð þeirra sem hlut eiga að máli hafa verið fumlaus, traust og vel skipulögð. Samstarf bæði innan og utan stjórnsýslunnar hefur verið til fyrirmyndar og sýnir glöggt styrkleika þjóðarinnar til að takast á við afleiðingar náttúruhamfara. Enn eru allir í viðbragðsstöðu og fylgjast áfram með þróuninni á svæðinu.

Stærsta einstaka viðbótarframlagið er til Bjargráðasjóðs, 190 milljónir króna, en heildarkostnaður sjóðsins vegna eldgosanna er metinn á 300 milljónir króna. Þá fá Landgræðslan, Vegagerðin, Veðurstofan, almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra, löggæslan, Landhelgisgæslan, Rauði kross Íslands, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Jarðvísindastofnun Háskólans, Flugstoðir, heilbrigðisstofnanir og fleiri umtalsvert fé til að sinna störfum sínum í tengslum við eldgosin. Jafnframt var samþykkt að styðja við bakið á sveitarfélögum á eldgosasvæðinu m.a. vegna tímabundinna húsnæðisúrræða fyrir íbúa í Rangárþingi eystra, Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi. Líklegt má telja að Viðlagatrygging bæti ýmsan tilfallandi kostnað sveitarfélaganna til að mynda vegna hreinsunar. Brýn verkefni á næstunni verða m.a. við framkvæmdir og lagfæringar á varnargörðum við Markarfljót og Svaðbælisá auk aðgerða við að hefta öskufok á svæðinu.

Ríkisstjórnin fól fimm ráðuneytisstjórum að fara yfir allan kostnað sem tengja mætti neyðaraðgerðum á gossvæðinu í kjölfar eldgosanna. Fjárframlög til stofnana byggja á niðurstöðum þeirra og tillögum, sem taka mið af því hvaða kostnaður teljist óhjákvæmilegur vegna neyðarviðbragða og annarra nauðsynlegra aðgerða. Hópurinn starfar áfram þar sem ákveðna þætti þarf að skoða nánar á síðari stigum.
 
Heildarkostnaðarmat vegna tjóns af völdum eldgosanna í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi liggur ekki endanlega fyrir en þó er komin nokkuð góð mynd á umfangið. Hluti kostnaðar af eldgosunum leggst á Viðlagatryggingu og Bjargráðasjóð sem, eins og að ofan er getið, fékk viðbótarframlag til starfsemi sinnar.

Ólíkt kostnaðinum vegna jarðskjálftans árið 2008 þá liggur stærstur hluti kostnaðar ríkissjóðs nú hjá einstaka stofnunum. Við þau útgjöld ráða þær ekki án viðbótarfjárheimilda. Hins vegar skal nýta fjárheimildir ársins með forgangsröðun verkefna svo sem frekast er kostur. Mál er varða tjón einstaklinga eða tekjutap rekstraraðila fara til skoðunar hjá Viðlagatryggingu og Bjargráðasjóði.

Á næstunni opnar almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra í samráði við ráðuneytin að nýju þjónustumiðstöð á eldgosasvæðinu til að samræma viðbrögð og úrlausn verkefna sem framundan eru í sumar og haust. Almannavarnadeild ræður verkefnisstjóra til að annast daglegan rekstur þjónustumiðstöðvarinnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum