Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2010 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 13. júlí 2010

 

 

Mál nr. 50/2010                    Eiginnafn:     Bjarkan

Hinn 13. júlí kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 50/2010:

Eiginnafnið Bjarkan (kk.) tekur íslenskri eignarfallsendingu, Bjarkans, það brýtur ekki í bág við íslenskt málkerfi og er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn. Það fullnægir að öðru leyti skilyrðum laganna.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Bjarkan (kk.) er samþykkt.

 

 

 

Mál nr. 53/2010                    Eiginnafn:     Líza

Hinn 13. júlí kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 53/2010:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Í máli þessu reynir á skilyrði nr. þrjú hér að ofan. Ritháttur nafnsins Líza (kvk.) getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls enda er bókstafurinn z ekki í íslensku stafrófi. Á nafnið er því aðeins heimilt að fallast ef umbeðinn ritháttur þess telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn.

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

1.   Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.   Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.   Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.   Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.   Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.   Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.   Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.   Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár er engin kona skráð með eiginnafnið Líza sem uppfyllir skilyrði ofangreindra vinnulagsreglna. Það telst því ekki vera hefð fyrir þessum rithætti.

Eiginnafnið Líza uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Líza (kvk.) er hafnað.

 

 

 

 

Mál nr. 54/2010                    Ættarnafn: Erlingsen

                                     

Hinn 13. júlí 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 54/2010:

 

Óskað er eftir að breyta rithætti ættarnafnsins Ellingsen í Erlingsen.

 

Samkvæmt 7. mgr. 8. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, er óheimilt að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi. Enn fremur leiðir af 2. og 5. mgr. sömu lagagreinar að réttur manna til ættarnafna er bundinn ákveðnum skilyrðum og tekur aðeins til ákveðinna ættarnafna. Af 15. gr. laganna leiðir enn fremur að maður getur fellt niður ættarnafn sem hann hefur borið eða tekið það upp sem millinafn. Í öllum tilgreindum ákvæðum er á því byggt að réttur til ættarnafns sé bundinn tilteknum þröngum skilyrðum, og enn fremur að þessi þröngi réttur taki aðeins til ákveðins ættarnafns. Af þessum lagaákvæðum verður ekki leidd heimild til að breyta rithætti ættarnafns.

 

Samkvæmt 20. gr. laga um mannanöfn er heimilt að breyta ritun nafns í þjóðskrá án þess að um sé að ræða eiginlega nafnbreytingu. Í lagagreininni er ekki tekið af skarið um það hvort hún taki til ættarnafna. Í greinargerð, sem fylgdi frumvarpi því sem varð að lögum nr. 45/1996, er ákvæðið skýrt svo:

 

„... Greinin er samhljóða 21. gr. laga nr. 37/1991.

Þær breytingar sem falla undir þessa grein eru eftirfarandi:

1. Breyting á rithætti eiginnafns eða millinafns í samræmi við úrskurði mannanafnanefndar um heimila rithætti nafna (t.d. Esther í stað Ester eða öfugt).

2. Breyting á nafnritun sem felur það í sér að eiginnafn eða millinafn er fellt úr þjóðskrá eða skammstafað.

3. Breyting á kenninafni þannig að menn taki upp ættarnafn sem þeir eiga rétt á eða kenni sig til móður í stað föður eða öfugt. Enn fremur breyting á kenninafni sem felur það í sér að maður kennir sig til annars eiginnafns foreldris en hann hefur áður gert.

4. Aðlögun kenninafns skv. 4. mgr. 8. gr. að því tilskildu að mannanafnanefnd hafi þegar fjallað um málið eða alveg hliðstætt mál.

Óski forsjármenn barns eftir einhverri af framangreindum breytingum á nafnritun þess skulu þeir beina umsókn þar að lútandi til Þjóðskrár.“

 

Ljóst er að í þessum skýringum er ekki gert ráð fyrir því að undir heimild skv. 20. gr. geti fallið breytingar á rithætti ættarnafna. Sjálft orðalag 20. gr. tekur hins vegar ekki af skarið um þetta, eins og áður er nefnt. Verður því niðurstaða málsins að ráðast af fortakslausu orðalagi 7. mgr. 8. gr. laga um mannanöfn, þar sem fram kemur að óheimilt sé að taka upp nýtt ættarnafn. Umbeðin breyting á rithætti myndi ganga gegn því ákvæði laganna og verður því að hafna beiðninni.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um ritmyndina Erlingsen af ættarnafninu Ellingsen er hafnað.

 

 

  

Mál nr. 55/2010                    Eiginnafn:     Ian

 

Hinn 13. júlí kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 55/2010:

 

Í máli þessu liggur fyrir beiðni sem fram er lögð vegna [...], að síðara eiginnafn hans verði skráð í þjóðskrá.

 

Aðdragandi málsins er sá að foreldrar [...]voru við nám í Bandaríkjunum þegar hann fæddist þar. Hann fékk nöfnin [...] og voru þau nöfn skráð í Bandaríkjunum. Vegna námsins höfðu foreldrarnir rétt til þess að skrá lögheimili sitt áfram hér á landi þótt þau dveldust í Bandaríkjunum. Við framvísun þeirra á fæðingarvottorði drengsins hjá Þjóðskrá var því litið svo á að íslensk mannanafnalöggjöf ætti við um nafngjöfina og þar sem eiginnafnið Ian var ekki á mannanafnaskrá var því nafni skotið til mannanafnanefndar. Þáverandi mannanafnanefnd var sammála þessu og með úrskurði uppkveðnum 9. mars 1994 var beiðni um eiginnafnið Ian hafnað með þeim rökum að nafnið væri ekki íslenskt og hefði ekki unnið sér hefð í íslensku máli. Það fullnægði því ekki skilyrðum 2. gr. laga um mannanöfn nr. 37/1991. Frá þessum tíma hefur nafn drengsins verið skráð í þjóðskrá: [...].

 

Hjá Þjóðskrá hefur nú verið lagt fram afrit af bandarísku vegabréfi drengsins til staðfestingar á því að hann hafi öðlast bandarískt ríkisfang við fæðingu. Hann er því bandarískur ríkisborgari þrátt fyrir að foreldrar hans beri einvörðungu íslenskt ríkisfang. Þá liggur einnig fyrir að bandarísk stjórnvöld hafa skráð nöfn hans [...].

 

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996 skal eiginnafn geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi og það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Skilyrði þess að eiginnafn verði viðurkennt eru því nokkuð önnur og rýmri samkvæmt gildandi lögum en var samkvæmt áðurgildandi lögum nr. 37/1991. Eigi

að síður er ljóst að eiginnafnið Ian fullnægir ekki öllum skilyrðum laganna því að það er ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur. Einhljóðið i kemur aldrei fram á undan a í ósamsettum orðum nema í erlendum tökunöfnum á borð við William.

 

Í 10. gr. laga um mannanöfn eru ákvæði um nafnrétt manna af erlendum uppruna. Þar segir að ákvæði 5. gr. taki ekki til barns hér á landi ef báðir foreldrar þess eru erlendir ríkisborgarar. Í 2. mgr. ákvæðisins segir enn fremur að sé annað foreldri barns erlendur ríkisborgari eða hafi verið það er heimilt að barni sé gefið eitt eiginnafn og/eða millinafn sem víkur frá ákvæðum 5. gr. ef unnt er að sýna fram á að hið erlenda nafn sé gjaldgengt í heimalandi hins erlenda foreldris. Barnið skal þó ávallt, eigi þessi málsgrein við, bera eitt eiginnafn sem samrýmist 5. gr.

 

Eins og af framangreindu leiðir er í 10. gr. laga um mannanöfn fjallað um rétt einstaklinga til nafna sem þeir leiða af foreldrum sínum og ríkisfangi þeirra. Í máli þessu er ekki um það að ræða að sá sem óskar skráningar á eiginnafni geti leitt slíkan rétt af foreldrum sínum. Álitamálið er hvort hann eigi, vegna síns eigin ríkisfangs, rétt á því að fá skráð í þjóðskrá það nafn sem honum var gefið á grundvelli þess.

 

Í 11. gr. laga um mannanöfn kemur fram að fái maður, sem heiti erlendu nafni, íslenskt ríkisfang þá megi hann halda fullu nafni sínu óbreyttu. Honum sé þó heimilt að taka upp eiginnafn, millinafn og/eða kenninafn í samræmi við ákvæði laganna. Orðalag þessarar reglu á ekki fyllilega við það tilvik sem hér er til umræðu. Á hinn bóginn eru þau eðlislík að því leyti að sá einstaklingur sem hér um ræðir ber erlent ríkisfang og fékk gefið nafn sem samræmdist reglum þess ríkis en ber einnig íslenskt ríkisfang á grundvelli íslenskra laga.

 

Við beitingu laga um mannanöfn ber að leggja til grundvallar að nafn einstaklings er einn mikilvægasti þáttur sjálfsímyndar hans og varðar fyrst og fremst einkahagi hans, en síður almannahag, eins og lagt er til grundvallar í lögskýringargögnum að baki gildandi lögum um mannanöfn, nr. 45/1996. (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 669). Þá hefur umboðsmaður Alþingis ítrekað bent á að réttur einstaklings til auðkennis, sjálfsímyndar og nafns er varinn af ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, eins og ákvæðið verður túlkað með hliðsjón af 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, sjá álit umboðsmanns frá 27. apríl 2009 í máli nr. 4919/2007 og frá 29. desember 2009 í máli nr. 5334/2008.

 

Lög nr. 45/1996 banna ekki að einstaklingur, sem ber erlent ríkisfang og hefur á þeim grundvelli verið gefið nafn í því ríki, fái að halda því óbreyttu í íslenskri þjóðskrá. Ber því að fallast á umsókn foreldra drengsins [...] um að hann fái að bera það nafn og vera skráður með báðum nefndum nöfnum í íslenskum gögnum. Nafnið fullnægir hins vegar ekki skilyrðum 5. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, og verður því ekki fært á mannanafnaskrá sem eiginnafn.

 

Úrskurðarorð:

Með vísan til 1. mgr. 22. gr. laga nr. 45/1996 er heimilt að skrá eiginnafnið Ian (kk.) í þjóðskrá sem síðara nafn [...]. Nafnið Ian (kk.) skal ekki fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

 

Mál nr. 57/2010                    Eiginnafn:     Dolli

 

Hinn 13. júlí 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 57/2010:

 

Eiginnafnið Dolli (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Dolla, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Dolli (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

 

Mál nr. 58/2010                    Eiginnafn:     Jean

 

Hinn 13. júlí 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 58/2010:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Í máli þessu reynir á skilyrði nr. þrjú hér að ofan. Ritháttur nafnsins Jean (kk.) getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, miðað við að það sé borið fram „sjan“, „dsjín“ eða „djín“. Ef nafnið væri borið fram samkvæmt stafanna hljóðan teldist það ekki heldur ekki fullnægja umræddu skilyrði þar sem ekki er  ritað j á undan ea í íslenskri stafsetningu. Á nafnið Jean er því aðeins heimilt að fallast ef umbeðinn ritháttur þess telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn. Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

1.   Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.   Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.   Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.   Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.   Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.   Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.   Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.   Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

 

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár eru  fimm karlar skráðir með eiginnafnið Jean sem uppfylla skilyrði vinnulagsreglnanna. Tveir að fyrra nafni (fyrsta) og þrír að síðara nafni. Sá elsti þeirra er fæddur árið 1961. Það telst því ekki vera hefð fyrir þessum rithætti.

Eiginnafnið Jean  uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Jean (kk.) er hafnað.

 

 

 

 

Mál nr. 59/2010                    Millinafn: Fossmar

                                                Eiginnafn: Fossmar

 

 

Hinn 13. júlí 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 59/2010:

 

Í máli þessu er aðallega sótt um heimild fyrir því að nota nafnið Fossmar sem millinafn en eiginnafn til vara. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, skal millinafn dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu. Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn.

Faðir umsækjanda, þ.e. þess einstaklings sem ætlað er að bera nafnið Fossmar, ber sjálfur nafnið sem eiginnafn, þó ekki hafi það verið skráð á mannanafnaskrá. Nafnið er líkt fjölda annarra íslenskra nafna, s.s. Valdimar, Sigmar. Mannanafnanefnd lítur því svo á að nafnið Fossmar hafi í íslensku máli unnið sér hefð sem eiginnafn karls. Af þeirri ástæðu er óheimilt að fallast á nafnið sem millinafn.

 

Vegna framangreinds skal þó bent á ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn: Þar segir að millinafn sem víki frá ákvæðum 2. mgr. sé heimilt þegar svo standi á að eitthvert alsystkini þess sem á að bera nafnið, foreldri, afi eða amma beri eða hafi borið nafnið sem eiginnafn eða millinafn yrði þeirri heimild beitt í málinu. Það er ekki mannanafnanefndar að úrskurða að svo stöddu um hvort þessari heimild beri að beita í málinu enda verður ekki séð að ágreiningur sé um það í sjálfu sér. Í því tilviki yrði nafnið þó ekki fært á mannanafnaskrá sem millinafn.

 

Vegna varakröfu umsækjanda skal tekið fram að nafnið Fossmar tekur íslenska eignarfallsendingu, Fossmars, og fullnægir að öðru leyti öllum skilyrði sem lög um mannanöfn gera til eiginnafna. Fallist er á nafnið Fossmar (kk.) sem eiginnafn og ber að færa það á mannanafnaskrá.


 

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Fossmar er hafnað, með fyrirvara um ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996.

Beiðni um eiginnafnið Fossmar (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

  

 

Mál nr. 61/2010                    Eiginnafn: Cæsar

Hinn 13. júlí 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 61/2010:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Í máli þessu reynir á skilyrði nr. þrjú hér að ofan. Ritháttur nafnsins Cæsar (kk.) getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls enda er bókstafurinn c ekki í íslensku stafrófi. Á nafnið er því aðeins heimilt að fallast ef umbeðinn ritháttur þess telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn.

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

1.   Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.   Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.   Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.   Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.   Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.   Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.   Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.   Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár er einn karl   skráður með eiginnafnið Cæsar. Það telst því ekki vera hefð fyrir þessum rithætti.

Eiginnafnið Cæsar uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Cæsar (kk.) er hafnað.

 

 

 

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum