Hoppa yfir valmynd
2. september 2010 Forsætisráðuneytið

Yfirlýsing formanna stjórnarflokkanna í tilefni af breytingum á ríkisstjórn

Ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hefur reynst árangursríkt og sögulegt á margan hátt. Á þeim 19 mánuðum sem flokkarnir hafa starfað saman hefur tekist að framkalla viðsnúning í efnahagslífi landsins. Ráðist hefur verið í viðamiklar aðgerðir til að auðvelda skuldsettum heimilum og fyrirtækjum glímuna við efnahagserfiðleikana og lögð hefur verið mikil vinna í að endurreisa traust Íslands á alþjóðavettvangi. Á sama tíma hefur farið fram víðtækt uppgjör í íslensku samfélagi gagnvart þeirri stefnu og vinnubrögðum sem viðgengust í atvinnulífi, stjórnmálum og stjórnsýslu fyrir hrun og birtast nú í víðtækri uppstokkun á innviðum samfélagsins. Þar er skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis grundvallargagn sem áfram verður fylgt eftir með víðtækum umbótum og uppstokkun á fjölmörgum sviðum samfélagsins.

Sú skýra áætlun sem ríkisstjórnin hefur unnið eftir hefur að mestu gengið eftir og á sumum sviðum gott betur. Helstu hagvísar benda til að viðsnúningur sé orðinn í íslensku efnahagslífi. Hagvöxtur hefur mælst síðustu 6 mánuði – meira en hálfu ári áður en reiknað var með. Atvinnuleysi er komið í 7,5% - mun lægra en áætlanir gerðu ráð fyrir. Störfum er aftur farið að fjölga. Verðbólga hefur lækkað úr 18,6% í 4,5% og hefur ekki verið lægri í 3 ár. Stýrivextir hafa lækkað úr 18% í 7% og hafa ekki verið lægri í 6 ár. Gengið styrkist jafnt og þétt og hefur ekki verið hærra skráð í eitt og hálft ár. Forsvarsmenn SA, ASÍ, Seðlabanka, AGS ofl. hafa lýst því yfir að kreppunni sé lokið og bjartsýni fer vaxandi í samfélaginu.

Viðsnúningurinn er til marks um ákveðinn áfangasigur í glímunni við þá erfiðleika og áföll sem íslenskt efnahagslíf hefur orðið fyrir. Næstu skref eru að byggja á þessum árangri, ná jöfnuði í ríkisfjármálum og fylgja eftir þeim fjölmörgu ábendingum sem komu fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Liður í þessu er að fram fari uppstokkun í stjórnkerfi Íslands með fækkun ráðuneyta og einföldun stofnanakerfis. Þessi uppstokkun kallar á breytingar á ríkisstjórn enda fækkar nú ráðherrum um tvo og stefnt er að frekari fækkun um áramótin.

Ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs byggir störf sín og stefnu á skýrum markmiðum samstarfsyfirlýsingar flokkanna frá maí 2009, fyrirliggjandi efnahagsáætlun og samþykktum meirihlutans á Alþingi. Meðal þeirra stefnumála ríkisstjórnarinnar sem formenn stjórnarflokkanna eru sammála um að leggja áherslu á og hrinda í framkvæmd á næstu mánuðum eru eftirfarandi 20 mál:

 1. Leggja grunn að stöðugleika á vinnumarkaði og áframhaldandi samstarf við hagsmunaaðila
 2. Nýskipan í orku og auðlindamálum innleidd og heildstæð orkustefna samþykkt
 3. Fækka ráðuneytum  og sameina, endurskipuleggja og styrkja einingar í ríkisrekstrinum enn frekar
 4. Lög um stjórn fiskveiða endurskoðuð á grunni niðurstöðu sáttanefndar og breytingar á stjórnarskrá (sameign á auðlindum) tryggðar. Þjóðaratkvæðagreiðsla um kvótakerfið undirbúin ef ekki næst viðunandi sátt
 5. Rammaáætlun um verndun og nýtingu samþykkt
 6. Ný lög um vatn og vatnatilskipun Evrópu samþykkt
 7. Taka næsta skref í afnámi gjaldeyrishafta
 8. Klára 3. og 4. endurskoðun áætlunar með AGS. Áhersla lögð á að áætluninni ljúki ekki seinna en síðsumars 2011. Endurskoða þörf fyrir töku gjaldeyrislána
 9. Eyða óvissu um lánamál fyrirtækja og einstaklinga, efla upplýsingaöflun,  kynna úrræði og stórefla embætti Umboðsmanns skuldara
 10. Lokið verði endurskoðun almannatryggingakerfisins og breytingar lögfestar
 11. Ráðist verði í enn frekari verkefni á grundvelli aðgerðaráætlunar til að styrkja stöðu barna og ungmenna
 12. Ný aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi samþykkt og austurríska leiðin lögfest
 13. Lögum breytt til að innleiða nýskipan ráðningarmála og breytta stjórnarhætti í Stjórnarráði Íslands m.a. í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar
 14. Flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaga verði lokið og undirbúningi flutnings málefna aldraðra hraðað
 15. Stutt verði við undirbúning og starf stjórnlagaþings og þjóðfundar og unnið markvisst að mótun nýrrar stjórnarskrár
 16. Stofnun þjóðhagsstofnunar verður skoðuð
 17. Sóknaráætlun í atvinnumálum – Ísland 20/20, hrint í framkvæmd og aðgerðir efldar í þágu langtímaatvinnulausra og ungmenna án atvinnu
 18. Mótuð verði menningarstefna til framtíðar
 19. Ljúka aðgerðaráætlun um losun gróðurhúsalofttegunda
 20. Gerð verði áætlun í mannréttindamálum að norrænni fyrirmynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum