Hoppa yfir valmynd
15. desember 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samstarf Íslands og Bretlands á sviði rannsókna og eftirlits með eldsumbrotum 

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, Ian Whitting, sendirherra Bretlands á Íslandi, og Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins.
Viljayfirlýsing Íslands og Bretlands

Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins og Ian Whitting, sendirherra Bretlands á Íslandi, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu umhverfisráðuneytis Íslands og viðskipta- og nýsköpunarráðuneytis Bretlands um samstarf þjóðanna á sviði rannsókna og eftirlits með eldsumbrotum á Íslandi og umhverfisáhrifum og áhættu af völdum þeirra.

Yfirlýsingin er undirrituð í kjölfar vaxandi samstarfs íslenskra og breskra vísindamanna í tengslum við eldgosið í Eyjafjallajökli. Vísindamenn frá Bresku veðurstofunni, Bresku jarðfræðistofnuninni og fleiri breskum stofnunum komu hingað til lands í vor þegar Eyjafjallajökull gaus og hittu íslenska vísindamenn og skiptust á upplýsingum og þekkingu.

Upplýsingar frá íslenskum vísindamönnum reyndust mikilvægar í starfi breska Neyðarvísindaráðsins (SAGE) sem sir John Beddington, vísindaráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar, fer fyrir. SAGE var skipað jarðfræðingum, veðurfræðingum og  loftslagsvísindamönnum. Ráðið veitti bresku ríkisstjórninni upplýsingar um eldgosið í Eyjafjallajökli og ráðgjöf um viðbrögð við því.

Veðurstofa Íslands hefur þegar undirritað viljayfirlýsingar um samstarf við Bresku veðurstofuna, Bresku jarðfræðistofnunina og Breska veðurrannsóknarsetrið. Þá hefur Breska veðurstofan gert samning við Bresku loftferðastofnunina um rannsóknir á öskuskýjum með flugvélum þegar annað eldgos hefst á Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum