Hoppa yfir valmynd
17. desember 2010 Atvinnuvegaráðuneytið

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2010

 

Samkvæmt lögum um ferðamál og markmiðum ferðamálaáætlunar ber Ferðamálastofu að sinna umhverfismálum á ýmsan hátt. Meðal hlutverka stofnunarinnar er að hvetja einstaklinga og fyrirtæki til ábyrgðar í umhverfismálum. Sem lið í því starfi veitir Ferðamálastofa árlega umhverfisverðlaun því fyrirtæki innan ferðaþjónustunar sem best þykir hafa staðið sig í umhverfismálum það árið. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1995 og er því afhent nú í 16. sinn.

Dómnefnd skipa: Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri; Anna Dóra Sæþórsdóttir, lektor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur. Dómnefnd fór yfir tilnefningar og er niðurstaða þeirra að umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hljóti að þessu sinni Farfuglaheimilin í Reykjavík fyrir markvissa umhverfisstefnu og sjálfbæran rekstur.

Í rökum dómnefndar fyrir vali sínu segir m.a: „Farfuglaheimilin í Reykjavík eru einu umhverfisvottuðu gististaðirnir á höfuðborgarsvæðinu, og líklega á landinu öllu ásamt Hótel Hellnum, sem eru vottaðir skv. staðli Earth Check. Farfuglaheimilið á Vesturgötu 17 hlaut Svansvottun í apríl 2010 og á sama tíma endurnýjaði Farfuglaheimilið í Laugardal vottun sína eftir nokkurt hlé. Með tilliti til þess hversu strangar kröfur Svansins eru fyrir gististaði, þess hversu vottun gististaða er enn fátíð á Íslandi – og þess að vottunin fékkst einmitt á þessu ári, koma farfuglaheimilin strax sterklega til greina sem verðlaunahafar. Vottun Svansins tryggir í raun að heimilin uppfylla öll þau atriði sem eiga að vega þyngst við ákvörðun um verðlaunahafa. Auk þess kemur fram í tilnefningunni að farfuglaheimilin ganga að ýmsu leyti lengra en beinlínis er gerð krafa um. Í því sambandi má nefna upplýsingar til gesta um hollustu íslenska vatnsins, en vitað er að sum fyrirtæki í greininni eru hikandi hvað þetta varðar, þar sem flöskuvatn er mikilvægur hluti af daglegri sölu í móttöku. Samstarfið við SEEDS (sjálfboðaliðasamtökin) er annað dæmi af þessu tagi, svo og sú fría aðstaða sem félagasamtökum er boðin til fundarhalda“.

Sérstaklega er áhugavert að sjá hversu hlutlæg markmiðssetning og eftirfylgni er, þannig að tryggt sé að boðað verklag verði ekki orðin tóm. Ennfremur er til eftirbreytni með hversu sterkum hætti Farfuglaheimilin taka þátt í félagslífi nærumhverfisins, auk þess að vísa með öflugum hætti á menningarviðburði.

Sem sjá á af ofnatöldu þá eru Farfuglaheimilin í Reykjavík vel að verðlaunum komin. Þess má einnig geta að árið 2003 hlaut Bandalag íslenskra farfugla umhverfisverðlaun Ferðamálastofu og þannig má sjá að umhverfisvitund innan farguglana er ekki ný af nálinni heldur á sér nokkuð langa sögu.

Vil ég að svo mæltu biðja Stefán Haraldsson formann Farfugla að koma hingað upp og taka á móti verðlaununum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta