Hoppa yfir valmynd
31. desember 2010 Forsætisráðuneytið

Þjóðin uppsker á nýju ári

Þegar ósk barst um að formaður Samfylkingarinnar skrifaði áramótagrein í Morgunblaðið hugleiddi ég að verða ekki við þeirri beiðni, enda eiga rætin og lágkúruleg skrif núverandi ritstjóra blaðsins í garð undirritaðrar vart hliðstæðu í síðari tíma blaðasögu.  Ekki kveinka ég mér þó undan réttmætri gagnrýni.  En níð á því fádæma lága plani sem oft á tíðum hefur verið í Morgunblaðinu í tíð núverandi ritstjóra er ekki sæmandi fjölmiðli sem vill láta taka sig alvarlega.

Margir hafa bent á að augljóst samhengi sé milli skrifa ritstjórans og þeirra breytinga sem urðu í Seðlabankanum í upphafi embættistíðar minnar sem forsætisráðherra.  Hvað sem því líður blasir við að markmiðið með skrifunum virðist vera að koma sökinni á hruninu á aðra þó flestir viti að rótina megi ekki síst rekja til einkavæðingar bankanna og öfgafullrar frjálshyggjustefnu þegar umræddur ritstjóri var forsætisráðherra.  Einnig telja ýmsir að verulegan hluta af kostnaði ríkissjóðs vegna hrunsins megi rekja til tæknilegs gjaldþrots Seðlabankans þegar sá hinn sami var þar bankastjóri.

Ég læt öðrum eftir að dæma um þetta en minni á að því miður leggja þeir, sem fastir eru í fjötrum fortíðar, sjaldnast nokkuð jákvætt eða uppbyggilegt til framtíðar.

Þetta taldi ég nauðsynlegan formála að þeirri grein sem hér fer á eftir.

Umbrotatímar

Undanfarin tvö ár hefur Ísland gengið í gegnum umfangsmestu þjóðfélagsbreytingar í sögu lýðveldisins. Efnahagslegt og samfélagslegt skipbrot á hugmyndakerfi Sjálfstæðisflokksins leiddi til fordæmalausra efnahagslegra hamfara fyrir einstaklinga og fyrirtæki og félagslegar aðstæður sem kallað hafa á uppstokkun og endurmat á flestum þáttum samfélagsins. Engin nútímaþjóð hefur  þurft að glíma við sambærilegar aðstæður á friðartímum.

Þessa staðreynd er hollt að hafa í huga þegar staða Íslands og Íslendinga er metin nú um áramót. Verkefni okkar hafa verið fordæmalaus, þau hafa verið risavaxin og þau hafa kallað á róttækar breytingar á flestum sviðum. Það segir sig sjálft að slíkar aðstæður kalla á mikil umbrot í samfélaginu, gríðarleg átök og erfiðar tilfinningar, eins og dæmin sýna svo glöggt.

Efnahagslegur árangur

En við Íslendingar höfum nýtt þennan umbrotatíma vel, svo vel að ýmsir tala um kraftaverk í því sambandi. Tölurnar og árangurinn tala enda sínu máli. Verðbólga hefur lækkað úr 18,6% í 2,5% og hefur ekki verið lægri í tæp sjö ár, stýrivextir hafa lækkað úr 18% í 4,5% og hafa aldrei verið lægri, gengi íslensku krónunnar hefur styrkst um 20%, fjárlagahallinn hefur minnkað úr rúmum 200 milljörðum í tæpa 40 milljarða en á sama tíma hefur velferðarkerfið verið varið eins og kostur er. Reyndar hefur umfang þess vaxið sem hlutfall af landsframleiðslu ef borið er saman við góðærisárið 2007. Við höfum endurreist fjármálakerfið sem hrundi nær allt, við höfum náð sátt allra helstu hagsmunaaðila um einhverja viðamestu skuldaaðlögun heimila og fyrirtækja sem ráðist hefur verið í á síðari tímum, sátt hefur ríkt á vinnumarkaði og sátt við Breta og Hollendinga i Icesave-málinu er vonandi í augsýn.

Skuldir ríkissjóðs og þjóðarbúsins eru mun lægri en reiknað var með, ekki síst vegna farsællar endurreisnar bankanna, fullnægjandi gjaldeyrisforði hefur verið tryggður, skuldatryggingaálag ríkissjóðs hefur lækkað úr 1007 stigum í 269 stig, atvinnuleysi hefur minnkað og störfum er farið að fjölga á ný. Samdráttarskeiðið hefur verið stöðvað, hagvöxtur er aftur farinn að mælast og undanfarið ár hefur kaupmáttur launa vaxið á ný. Í stað þess að Ísland sé nefnt sem víti til varnaðar horfir alþjóðasamfélagið nú til Íslands sem fyrirmyndar vegna mikils árangurs í endurreisnarstarfinu.

Lýðræðisumbætur og stjórnfesta

Á sama tíma erum við að gera grundvallarbreytingar á ýmsum þáttum samfélagsins sem marka munu framtíð okkar til langs tíma og við erum að taka ákvarðanir um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar er komin í hendur nýkjörins stjórnlagaþings. Þar erum við Íslendingar að stiga mjög merkilegt skref í þróun lýðræðis og stjórnskipunar sem vakið hefur mikla athygli erlendis.

Stjórnmálakerfið er í mikilli gerjun. Lagalegur rammi þess hefur tvívegis verið endurskoðaður á liðnum árum til að tryggja gegnsæi og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Einnig hafa flokkarnir sjálfir verið knúnir til endurmats. Kjósendur hafa gefið stjórnmálakerfinu gula spjaldið og krefjast réttmætra breytinga. Stjórnarráðið og stofnanakerfið hefur sömuleiðis gengið í gegnum miklar breytingar enda brást það í aðdraganda hrunsins. Skipulag þess, starfshættir og lagaumhverfi hafa verið endurskoðuð og miklar breytingar þegar litið dagsins ljós. Um áramótin mun ráðuneytum fækka um tvö og þeim langþráða áfanga verður náð í þjónustu við fatlað fólk að ábyrgð á henni verður flutt frá ríki til sveitarfélaga. Eru þá aðeins taldir stærstu þættirnir í þeirri viðamiklu uppstokkun sem farið hefur fram á vettvangi þings og ríkisstjórnar, enda ógerningur að gera þeim tæmandi skil í grein sem þessari.

Þess má þó geta að af þeim 210 verkefnum sem ítarleg samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna gerir grein fyrir eru 207 þegar afgreidd að miklu leyti eða í góðum farvegi, eins og til stóð.

Bjartsýni og áræði í öndvegi

Við Íslendingar njótum þess að búa við gjöfula náttúru og mannauð og félagslega innviði sem standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Til vitnis um það má nefna að við erum í fyrsta sæti í alþjóðlega viðurkenndum samanburði á sviði nýsköpunar, jafnréttismála og umhverfismála og að því er varðar hreinleika, aðgang að ferskvatni og heilsusamlegu umhverfi. Við erum í öðru sæti, á eftir Noregi, á lista yfir þau ríki jarðar þar sem mest lýðræði ríkir og Ísland er í þriðja sæti yfir þau lönd þar sem aðstæður eru bestar til að fæða og ala upp börn í heiminum. Allt eru þetta afar dýrmætir þættir sem skapa almenna velferð og jöfnuð hér á landi.

Á þessum góða grunni getum við nú byggt sókn Íslands til framtíðar og það eigum við óhikað að gera á árinu 2011. Á nýju ári munum við móta atvinnustefnu til framtíðar, sem byggir á traustum grunni og stuðlar að nýjum atvinnutækifærum og fjölgun starfa. Það verður eitt af stærstu verkefnum næsta árs sem þegar hefur verið lagður grunnur að.

Á nýju ári eigum við Íslendingar að setja bjartsýni, áræði, samhug og samstöðu í öndvegi í öllum okkar athöfnun. Við skulum leysa úr læðingi þann mikla samtakamátt sem í þjóðinni býr og beina honum í jákvæðan farveg uppbyggingar, framkvæmda og nýsköpunar.

Ég óska landsmönnum öllum árs og friðar

Jóhanna Sigurðardóttir,
formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum