Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2011 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Upplýsinga aflað um rusl við strendur landsins

Um er að ræða skipulag hafs og stranda.

Umhverfisráðuneytið, í samráði við Umhverfisstofnun, aflar nú upplýsinga um rusl og úrgang á ströndum hér við land og um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til við hreinsun stranda á undanförnum árum. Í þeim tilgangi hefur ráðuneytið sent öllum sveitarfélögum sem eiga land að hafi bréf þar sem þau eru beðin um að leggja mat á það hvort rusl á ströndum sé útbreytt vandamál innan sveitarfélagsins og hvort það ógni lífríki hafs og stranda, heilsu manna eða hafi önnur neikvæð áhrif á notkun strandarinnar.

Nokkur fjöldi svara hefur þegar borist og af þeim má ætla að lang flest sveitarfélög hreinsi sínar strendur reglulega, enda telja flest sveitarfélög að mikið rusl safnist fyrir á ströndum. Talsverður kostnaður fylgir því fyrir sveitarfélög að hreinsa strendur á hverju ári, þrátt fyrir að oft sé unnið að hreinsuninni í samvinnu við sjálfboðaliðasamtök, t.d. Bláa herinn, Seeds, Veraldarvini og Ungmennafélag Íslands, og einnig víða með virkri þátttöku unglingavinnu sveitarfélaga.

Mikil umræða fer nú fram á alþjóðavettvangi um áhrif rusls og úrgangs á lífríki hafs og stranda, skaðsemi þess og kostnað vegna hreinsunar. OSPAR samningurinn sem fjallar um vernd Norð-austur Atlantshafsins hefur nýlega gefið út skýrslu sem fjallar um kostnað vegna hreinsunar hafs og stranda en í henni er einnig að finna almenna úttekt á rusli og úrgangi við strendur Norð-Austur Atlantshafið. Hjá mörgum aðildarlöndum OSPAR, þar á meðal á Íslandi, er lítið vitað um vandann. Þess vegna ákvað umhverfisráðuneytið að afla þessara upplýsinga hjá sveitarfélögum og í kjölfarið verður ákveðið hvort grípa þurfi til sérstakra aðgerða.

Þeim sem vilja kynna sér þetta verkefni nánar eða koma upplýsingum á framfæri við umhverfisráðuneytið er bent á að hafa samband við Sesselju Bjarnadóttur, sérfræðing ráðuneytisins, með tölvupósti [email protected].

Sjá einnig:

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira