Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2011 Atvinnuvegaráðuneytið

Goðin treysta á þrumuguðinn Þór sem treystir á Tækniþróunarsjóð

Hækkandi sól - Ein góð frétt á dag
Hækkandi sól - Ein góð frétt á dag

Í nýlegri úthlutun Tækniþróunarsjóðs hlaut CAOZ hf. styrk vegna þróunar á sértækum tæknilausnum vegna framleiðslu sinnar á fyrstu íslensku teiknimyndinni sem sýnd verður í þrívíddartækni í kvikmyndahúsum.

CAOZ hf. er með hjálp nýjustu tækni að færa goðsögurnar í nútíma þrívíðan tölvugerðan búning í teiknimyndinni Hetjur Valhallar – Þór, sem er væntanleg í kvikmyndahús á Íslandi í haust. Undirbúningur og þróun myndarinnar fór á fullt í árslok 2004 og það verða því liðin hartnær 7 ár frá byrjun þegar hún kemur fyrir sjónir almennings í haust. 60 starfsmenn í þremur löndum eru í þessum skrifuðum orðum að vinna við myndina sem nú þegar er búið að selja til 41 lands – og vonir standa til þess að búið verði að ganga frá sölu á henni í 100 löndum þegar myndin verður frumsýnd!

Eiginleg framleiðsla hófst haustið 2009 og snemma árs 2010 kom í ljós að markaðurinn hreinlega krafðist þess að myndin væri boðin í nýjustu þrívíddar sýningartækni. CAOZ treystir að hluta á sérhæfðan hugbúnað við sína framleiðslu en til þess að geta skilað endanlegri mynd í þeim gæðum sem markaðurinn er orðinn vanur og til að nýta dýran búnað sem þegar hafði verið fjárfest í þurfti CAOZ að grípa til þess ráðs að hanna, þróa og forrita eigin hugbúnaðarlausnir til að brúa þau tæknibil sem komu upp við þá ákvörðun að koma myndinni á markað í nýjustu sýningartækni.

Þær lausnir sem fyrirtækið vinnur nú með í sinni framleiðslu eru í stanslausri þróun og viðbótum. Þær hafa gert CAOZ kleift að vinna áfram með hugbúnað sem fyrirtækið hefur langa reynslu af, en byggja eigin brýr yfir í þessar nýju sýningargerðir myndarinnar. Stuðningur Tækniþróunarsjóðs er fyrirtækinu mikilvægur því slík brúarsmíði í hugbúnaðarlausnum er mannfrek og umtalsverð fjárfesting.

Þess má geta að áður en fyrirtækið tók þá ákvörðun að þróa og forrita eigin lausnir, hafði það árangurslaust leitað að slíkum lausnum á markaðinum. Samhliða því að nýta tæknina við eigin framleiðslu, þá gefst fyrirtækinu nú, með stuðningi frá Tækniþróunarsjóði, tækifæri til að fullþróa búnaðinn til að bjóða öðrum stúdíóum í háþróaðri teiknimyndagerð til að nota við sína framleiðslu. Gert er ráð fyrir að lausnirnar verði tilbúnar til að bjóða á markaði í ársbyrjun 2012.

Framleiðsla á tölvuteiknimyndinni Hetjur Valhallar – Þór er dæmi um samstarf skapandi vinnu listamanna úr mörgum greinum við háþróaða og vandasama sérhæfða tæknivinnu þar sem hver flaga í myndinni er undir. Sem dæmi um það tæknibakland sem fyrirtækið hefur komið sér upp, þá reikna núna 528 örgjörvar daga og nætur við að framkalla ramma í myndina og þeir eru einir 250.000 sem þurfa að fara í gegnum það ferli. Til að setja þetta í samhengi þá er þetta samsvarandi því að 264 hefðbundnum tví-kjarna tölvuturnum væru stillt saman í þyrpingu til að reikna út rammana í myndina. Það er því mikið afl bæði í aðalsöguhetjunni Þór og hans íslenska tæknibaklandi.

Þrumuguðinn Þór

 

 

 

http://www.legendsofvalhalla.com/

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta