Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Stækkun verndarsvæðis fugla í Andakíl

andakilundirritun
Á Hvanneyri

Svandís Svavarsdótti umhverfisráðherra undirritaði í gær friðlýsingu búsvæðis fyrir fugla í Andakíl í Borgarfirði. Landeigendur þrettán jarða í Andakíl og sveitarfélagið Borgarbyggð standa að friðlýsingunni.

Um er að ræða stækkun svæðis sem var friðlýst árið 2002. Þá var öll Hvanneyrarjörðin friðlýst sem búsvæði blesgæsar, alls 1.744 hektarar. Eftir stækkun verður friðlýsta svæðið 3.086 hektarar. Stækkunin er mikilvægt skref í verndun og endurheimt votlendis hér á landi með tilliti til verndunar fugla og bindingar gróðurhúsalofttegunda. Svæðið er mikilvægasti viðkomustaður Blesgæsar vor og haust á leið hennar til og frá varpstöðvum sínum á Grænlandi. Svæðið hefur því verulegt alþjóðlegt verndargildi.

Með friðlýsingu er leitast við að tryggja að vistfræðilegir eiginleikar svæðisins haldist eða bætist og að það verði aðgengilegt fyrir gesti. Á verndarsvæðinu mun hefðbundin nýting haldist svo sem verið hefur. Umhverfisstofnun hefur gert samkomulag við Votlendissetur Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri um umsjón með svæðinu.

Nú er unnið að því að tilnefna friðlýsta svæðið í Andakíl á lista Ramsarsamningsins um vernd votlendis, en í gær var haldið upp á að 40 ár eru liðin frá gerð Ramsarsamningsins um vernd votlendis. Einnig bar friðlýsinguna upp á Alþjóðlega votlendisdaginn, sem haldinn er 2. febrúar ár hvert. Hér á landi eru þrjú svæði á Ramsarlistanum: Mývatn og Laxá, Þjórsárver og Grunnafjörður. Tvö svæði til viðbótar hafa þegar verið tilefnd á lista samningsins, þau eru Guðlaugstungur og Snæfells- og Eyjabakkasvæðið.

Kort af verndarsvæðinu í Andakíl.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira