Hoppa yfir valmynd
1. mars 2011 Félagsmálaráðuneytið

Ný reglugerð um trúnaðarmenn fatlaðs fólks

Sett hefur verið reglugerð um skipun trúnaðarmanna fatlaðs fólks. Verkefni þeirra er að fylgjast með högum fatlaðs fólks og aðstoða það við hvers konar réttindagæslu. 

Samkvæmt reglugerðinni getur fatlaður einstaklingur leitað til trúnaðarmanns með hvaðeina sem varðar réttindi hans, fjármuni eða önnur persónuleg mál. Trúnaðarmaður skal veita honum stuðning og aðstoða hann við að leita réttar síns eftir því sem við á. Einnig er gert ráð fyrir að hver sá sem telur að brotið sé á réttindum fatlaðs einstaklings geti tilkynnt það trúnaðarmanni auk þess sem trúnaðarmaður getur tekið upp mál af eigin frumkvæði. Trúnaðarmaður skal vera sýnilegur og standa fyrir fræðslu fyrir fatlað fólk og þá sem starfa með því.

Velferðarráðherra skipar trúnaðarmenn fatlaðra að fengnum tillögum frá heildarsamtökum fatlaðs fólks.

Trúnaðarmenn skulu vera átta talsins og skiptast þeir milli landshluta með eftirfarandi hætti:

  1. Á þjónustusvæði Reykjavíkur og Seltjarnarness skulu starfa tveir trúnaðarmenn.
  2. Kópavogur, Garðabær, Álftanes, Mosfellsbær og Kjós skulu hafa sameiginlegan trúnaðarmann.
  3. Hafnarfjörður og Suðurnes skulu hafa sameiginlegan trúnaðarmann.
  4. Vesturland og Vestfirðir skulu hafa sameiginlegan trúnaðarmann.
  5. Norðurland vestra, Akureyri og Norðurþing skulu hafa sameiginlegan trúnaðar­mann.
  6. Austurland og Hornafjörður skulu hafa sameiginlegan trúnaðarmann.
  7. Vestmannaeyjar og Suðurland skulu hafa sameiginlegan trúnaðarmann.

Velferðarráðuneytið mun útvega trúnaðarmönnum starfsaðstöðu og annað sem þeim er nauðsynlegt vegna starfs síns. Ráðuneytinu er heimilt að semja við samtök fatlaðra um að leggja trúnaðarmanni til starfsaðstöðu þar sem því verður við komið.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira