Hoppa yfir valmynd
19. mars 2011 Innviðaráðuneytið

Tvær tillögur um breikkun Suðurlandsvegar

Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi, SASS, efndu í vikunni til fundar á Selfossi um breikkun Suðurlandsvegar með innanríkisráðherra, fulltrúum sveitarfélaga á Suðurlandi, Vegagerðarinnar og þingmönnum. Var hann boðaður í framhaldi af fundi í innanríkisráðuneytinu í byrjun árs og umræðuefnið var tilhögun og fjármögnun á breikkun Suðurlandsvegar.

Breikkun Suðurlandsvegar - fundur hjá SASS 16.3.
Breikkun Suðurlandsvegar - fundur hjá SASS 16.3.

Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri SASS, gerði í upphafi fundar grein fyrir sjónarmiðum Sunnlendinga og fór yfir forgangsröðun, umferð og breytingar á henni síðustu árin, slys og óhöpp og kostnað við þau og ræddi síðan andstæð sjónarmið um fjármögnun. Minnti hann á þau orð innanríkisráðherra að áætluð breikkun væri flýtiframkvæmd og yrði ekki unnin þannig nema með því að fjármagna hana með veggjöldum. Sagði Þorvarður Sunnlendinga leggjast gegn veggjöldum og setti fram tvær tillögur.

Tillaga 1 gerir ráð fyrir að dregið yrði úr kostnaði við framkvæmdina, að ekki verði lagður á vegtollur, hringtorg komi í stað mislægra vegamóta, kaflinn milli Selfoss og Kambabrúnar verð 2+2 vegur og að framkvæmdatími verði lengdur um tvö ár.

Tillaga 2 gerir ráð fyrir að framkvæmdin verði útfærð eins og fyrirhugað hefur verið og fjármögnuð með veggjöldum með eftirfarandi skilyrðum: Einn samræmdur vegtollur verði lagður á alla tvöfalda vegi út frá Reykjavík og stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu með fjórum eða fleiri akreinum, samræmdur jarðgangatollur verði lagður á umferð um öll jarðgöng með tveimur akreinum og að vegtollar falli inní samræmt veggjaldakerfi þegar það verður tekið upp í stað eldsneytisgjalda.

Þá lagði Þorvarður til að framhald málsins yrði að Vegagerðin yrði fengin til að kostnaðarmeta báða valkostina og að stjórnvöld leggi fram tillögu til umræðu við sveitarstjórnarmenn og þingmenn kjördæmisins og að ákvörðun yrði tekin fyrir páska.

Breikkun Suðurlandsvegar - fundur hjá SASS 16.3.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra þakkaði fyrir málefnalegt framlag frá Sunnlendingum. Hann minnti á þá ákvörðun Alþingis að tilteknar samgönguframkvæmdir yrðu fjármagnaðar með sérstökum hætti og þannig stæði málið. Horfast yrði í augu við það hvaða fjármagn væri til ráðstöfunar. Hann sagði brýnt að halda áfram þessari umræðu og sagði öryggissjónarmið ofarlega þegar vegaframkvæmdir væru ákveðnar, einnig sú stefna að byggja upp eins gott samgöngukerfi og unnt væri. Einnig væri horft til þess hvaða landshluti væri lakast settur í þessum efnum og þar kvaðst hann horfa til Vestfjarða.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri fór yfir nokkur atriði framkvæmdarinnar að loknu ávarpi ráðherra og síðan lögðu orð í belg þingmenn og sveitarstjórnarmenn: Árni Johnsen, Ólafur Örn Ólafsson, Björgvin G. Sigurðsson, Oddný Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Aldís Hafsteinsdóttir.

Breikkun Suðurlandsvegar - fundur hjá SASS 16.3.

Innanríkisráðherra tók aftur til máls í lok fundar og sagði gott að fá fram þessa valkosti. Sagði hann þá tillögu heimamanna að kanna veggjaldahugmynd í víðara samhengi áhugaverða en lagði áherslu á að menn byndu sig ekki í ákveðnum farvegi heldur yrði ráðist í þessa framkvæmd á eins hagkvæman hátt til að ná fram sem mestum úrbótum. Ræða yrði málið áfram og fá um það niðurstöðu í sátt við fjárveitingavaldið.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum