Hoppa yfir valmynd
24. mars 2011 Innviðaráðuneytið

Um 250 manns á íbúafundi um Norðfjarðargöng

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar efndi í gær til íbúafundar í Neskaupstað um Norðfjarðargöng. Sveitarstjórnarmenn og fulltrúar atvinnulífsins ræddu nauðsyn þess að fá Norðfjarðargöng í stað Oddsskarðsganga. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri greindi frá framkvæmdinni og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði ekki spurningu um hvort ráðist yrði í gerð ganganna heldur hvenær.

Fundur um Norðfjarðargöng á Neskaupstað 23.3.
Fundur um Norðfjarðargöng á Neskaupstað 23.3.

Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri tók fyrstur til máls og ræddi mikilvæg atriði og staðreyndir. Hann sagði pólitískan einhug í kjördæminu um að Norðfjarðargöng væru  forgangsverkefni, þingmenn allra flokka væru sammála um það. Hann minnti á að Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefði ítrekað ályktað um nauðsyn ganganna. Bæjarstjórinn sagði að samgönguráð ynni nú að tillögu um næstu samgönguáætlun og gera yrði ráð fyrir Norðfjarðargöngum á fyrsta tímabili hennar, árunum 2011 til 2014.

Öruggar samgöngur lykillinn að þróun innviða

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, sagði að með Kárahnjúkavirkjun og stóriðju hefði verið tekin ákvörðun um byggðaþróun á Austurlandi. Þegar slíku verkefni væri valinn staFundur um Norðfjarðargöng á Neskaupstað 23.3.ður í litlu samfélagi kallaði það á byltingu á innviðum samfélagsins. Hann sagði fyrirtækið hafa um 900 starfsmenn á álverssvæðinu í heild, þeir væru sóttir um allt Mið-Austurland og væru um 500 þeirra starfsmenn Fjarðaáls en hinir starfsmenn verktaka og þjónustufyrirtækja sem ynnu fyrir Fjarðaál. Fram kom í máli Tómasar Más að fyrirhugað væri að koma á fót stóriðjuskóla álversins og væri það dæmi um samstarfsverkefni fyrirtækisins við fleiri aðila enda væru mörg fyrirtæki kölluð til samstarfs við álverið og þau hefðu auk þess vaxtarmöguleika utan þess. Forstjórinn sagði álverið myndu halda áfram að auka verðmæti framleiðslunnar sem gefa myndi fleiri störf og meiri fjárfestingu. Hann sagði öruggar samgöngur lykilinn í þróun innviða Austurlands og þar væru Norðfjarðargöng nauðsynleg.

Fundur um Norðfjarðargöng á Neskaupstað 23.3.

Freysteinn Bjarnason, fulltrúi Síldarvinnslunnar, rifjaði upp samgöngusögu Norðfirðinga og minnti á að þar sem störfum við sjávarútveg hefði fækkað mjög hefðu störfin við stóriðju og tengd henni tekið við nýju vinnuafli og byggðin orðin meira og minna eitt atvinnusvæði. Hann sagði Síldarvinnsluna flytja um þúsund gámaeiningar á ári um Oddsskarð, heildarflutningar sjávarfangs væru um 16.500 tonn og meira væri flutt ef samgöngur væru greiðari. Í lok málsins sagði hann Norðfjarðargöng eiga rétt á sér og þó fyrr hefði verið.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri fór yfir sjálfa framkvæmdina og lýsti hvar gangamunni Eskifjarðarmegin yrði innan við núverandi byggð í um 20 m hæð yfir sjó og í Fannardal Norðfjarðarmegin í um 140 m hæð. Leggja yrði kringum 7 km langan nýjan veg að gangamunnum. Göngin stytta leiðina milli Neskaupstaðar og Eskifjarðar um 4 km og gert væri ráð fyrir um 800 bíla umferð á dag miðað við nokkra aukningu sem iðulega kæmi fram við slíkar samgöngubætur og breytingar í atvinnumálum. Varðandi fjármögnun benti vegamálastjóri á að öll jarðgöng síðustu 10 árin hefðu verið fjármöguð beint úr ríkissjóði en framlög til þeirra ekki tekin af almennu vegafé. Hann sagði að þrátt fyrir að fjárveiting væri í samgönguáætlun væri ekki svo í fjárlögum og væru göngin langt frá því eina verkið sem líða hefði þurft fyrir hrun efnahagsmála. Samgönguáætlun væri þingsályktun Alþingis en fjárlögin réðu fjárframlögum. Hreinn sagði áætlaðan kostnað við verkið kringum 10,5 milljarða króna og að verktíminn yrði hátt í fjögur ár. Hann sagði ekki ráðlegt að hefja verkið nema fjármögnun væri tryggð út verktímann og yrðu framlög að nema um þremur milljörðum á ári og kannski 1,5 milljarði fyrsta árið miðað við að verkið hæfist á miðju ári. Þá sagði Hreinn að þrátt fyrir að ekki væri gert ráð fyrir framlögum á fjárlögum yrði unnt að fjármagna undirbúningskostnað og það myndi því ekki tefja verkið þegar ákvörðun lægi fyrir um fjárveitingar.

Samstaðan skiptir máli

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði ánægjuefni að vera kominn á fundinn, hann væri þar fyrst og fremst til að hlusta og læra. Hann sagði góðum rökum hafa verið teflt fram fyrir Norðfjarðargöngum; heilbrigðisþjónusta, atvinnulífið, útflutningur og sameining byggða en sameining yrði ekki endanleg fyrr en samgöngur hefðu batnað. Ráðherra sagði þriggja milljarða króna árlegt framlag til Norðfjarðarganga nema helmingi af framkvæmdafé til vegamála eins og fjárlögum væri nú háttað. Horft væri til þess með samgönguframkvæmdum að bæta frumþarfir í samgöngum, auka öryggi, bæta ástand vega og nú síðast einnig til atvinnusköpunar með einstökum verkum. Þetta væri samhengi hlutanna og þannig yrði að fjalla um málið. Hann væri ekki kominn á fundinn til að slá neitt af heldur vildi hann koma hreint til dyra og hann sagði hina miklu samstöðu heimamanna skipta miklu máli.

Fundur um Norðfjarðargöng á Neskaupstað 23.3.

Að loknum þessum ávörpum tóku nokkrir þingmanna kjördæmisins til máls svo og nokkrir aðrir fundarmenn.  Kynnt var ályktun frá bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs sem send var fundinum þess efnis að hafist skyldi handa um gerð ganganna á næsta ári. Spurt var hvort fyrirtæki, t.d. Alcoa-Fjarðaál eða Síldarvinnslan gætu lánað til framkvæmdanna en fulltrúar þeirra bentu á að þau legðu þegar umtalsvert fé til samfélagsins og hitt að ríkið gæti ekki aukið lánaskuldbindingar sínar.

Í lokaorðum sínum sagði Ögmundur Jónasson að hann gæti engu lofað um hvað yrði á næstu fjárlögum varðandi Norðfjarðargöng, tryggja yrði þrjá milljarða á ári til að hægt yrði að hefjast handa en um leið yrði að tryggja áframhaldandi framlag til að ljúka verkinu. Hvort væri vænlegra til árangurs að ræða málin á þessum nótum eða gefa falsvonir út í loftið, spurði ráðherrann. ,,Ég er samherji ykkar í að tryggja að af þessari framkvæmd geti orðið þó að ég geti ekki tímasett hana,” sagði hann að lokum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira