Hoppa yfir valmynd
27. mars 2011 Dómsmálaráðuneytið

Kjörskrár lagðar fram í vikunni

Kjörskrár vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar 9. apríl skulu lagðar fram eigi síðar en 30. mars næstkomandi. Á upplýsingavef innanríkisráðuneytisins kosning.is er fjallað um framkvæmd kosninganna og á morgun hefst dreifing á sérprentun laganna sem kosið verður um.

Sérprentun laga nr. 13/2011
Sérprentun laga nr. 13/2011

Tilkynning um framlagningu kjörskráa

Kjörskrár vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um samþykkt eða synjun laga nr. 13/2011, sem fram fer laugardaginn 9. apríl 2011, skulu lagðar fram eigi síðar en miðvikudaginn 30. mars næstkomandi. Kjörskrá ber að leggja fram almenningi til sýnis á skrifstofu sveitarstjórnar eða öðrum hentugum stað. Sveitarstjórn auglýsir hvar kjörskrá liggur frammi á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar.

Eftir að kjörskrá hefur verið lögð fram liggur hún frammi á almennum skrifstofutíma til kjördags. Staðfest eftirrit af kjörskrá má hafa til að leggja fram.

Þeim sem vilja koma að athugasemdum við kjörskrá er bent á að senda þær hlutaðeigandi sveitarstjórn. Athygli er vakin á því að sveitarstjórn getur allt fram á kjördag gert leiðréttingar á kjörskrá, ef við á.

Upplýsingavefurinn kosning.is

Á kosningavef innanríkisráðuneytisins, kosning.is, er að finna hagnýtar upplýsingar um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar, svo sem leiðbeiningar til kjósenda um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar, kosningarrétt, atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, táknmálsfrétt o.fl. Þá geta kjósendur nú kannað á vefnum hvar þeir eru á kjörskrá. Með því að slá inn kennitölu kjósanda kemur upp nafn hans, lögheimili og sveitarfélag. Reykvíkingar og íbúar nokkurra stærri sveitarfélaga í landinu fá einnig upplýsingar um kjörstað og kjördeild.

Sérprentun laga nr. 13/2011 send á hvert heimili

Innanríkisráðuneytinu ber að enda öllum heimilum í landinu sérprentun laganna sem kosið er um í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl næstkomandi. Dreifing sérprentunarinnar hefst á morgun mánudag 28. mars, en það er Íslandspóstur sem annast dreifinguna fyrir hönd  innanríkisráðuneytisins.

Í sérprentuninni er vakin athygli á því að á vefsíðu Alþingis, althingi.is, undir dálkinum Efni um Icesave, er að finna frumvarpið sem varð að lögum nr. 13/2011 ásamt öllum skjölum er varða meðferð þess. Þá er ennfremur vísað á vefinn kosning.is, þar sem upplýsingar um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar er að finna. Einnig er í bæklingnum vísað á kynningarvefinn thjodaratkvaedi.is, en þar er finna kynningu Lagastofnunar Háskóla Íslands á Icesave-samningnum ásamt upplýsingum um vefslóðir með mismunandi sjónarmiðum. 

Hafi sérprentun laganna ekki borist þann 30. mars má hafa samband við þjónustufulltrúa með netsamtali, senda tölvupóst á [email protected] eða hafa samband við þjónustuver í síma 580 1200.

Kynningarefni unnið af Lagastofnun Háskóla Íslands

Lagastofnun Háskóla Íslands vinnur að gerð hlutlauss kynningarefnis vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar í samræmi við ályktun Alþingis þar að lútandi. Á vefsíðunni thjodaratkvaedi.is segir að vefurinn verði opnaður mánudaginn 28. mars og að kynningarbæklingi Lagstofnunar verði dreift inn á hvert heimili mánudaginn 4. apríl og þriðjudaginn 5. apríl. 

Þar kemur einnig fram að ýmsir áhugamenn um málefni þjóðaratkvæðagreiðslunnar 9. apríl hafa sett á laggirnar vefsíður til að koma á framfæri efni því tengdu og taka þátt í þjóðmálaumræðunni. Er bent á að ábendingar um slíkar vefsíður séu vel þegnar á veffangið [email protected] til að unnt sé að vísa á þær af kynningarvef Lagastofnunar  þannig að mismunandi sjónarmið fái að njóta sín.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum