Hoppa yfir valmynd
5. maí 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp velferðarráðherra á ársfundi Landspítala

Landspítali - háskólasjúkrahús
Landspítali - háskólasjúkrahús

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á ársfundi Landspítala 2011.

Góðir gestir.

Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag á ársfundi Landspítala 2011.

Efnahagserfiðleikar hafa markað alla þætti þjóðlífsins síðustu ár sem hafa verið afar erfið vegna aðhalds og niðurskurðar á öllum sviðum. Við þessar aðstæður hefur ríkisstjórnin gert sitt besta til þess að verja velferðarkerfið. Niðurskurður ríkisútgjalda hjá stofnunum og málaflokkum velferðarþjónustu, þ.e. heilbrigðis-, félags- og menntakerfis, hafa verið lægri en í öðrum málaflokkum.

Stjórnendur og annað starfsfólk Landspítala hafa unnið þrekvirki á erfiðum tímum þar sem tekist hefur að halda rekstri sjúkrahússins innan þröngs ramma fjárlaga og veita samt góða og örugga sjúkrahúsþjónustu. Ég veit að þetta hefur hvorki verið einfalt né sársaukalaust. Árið 2010 þurfti spítalinn að spara í rekstri sínum um 3,2 milljarða króna. Með ótrúlega samhentu átaki ykkar allra tókst það og gott betur.

Þrátt fyrir ríkar sparnaðarkröfur vil ég þó taka fram að í ár hafa stóru sjúkrahúsin tvö, þ.e. Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri, sætt hlutfallslega minni niðurskurði en heilbrigðisstofnanir úti um landið, enda óhjákvæmilegt að líta til sérstöðu þeirra í heilbrigðisþjónustu hér á landi. Landspítali hefur í raun fimmþætt hlutverk, sem almenningssjúkrahús, svæðissjúkrahús fyrir suðvesturhornið, sem sérhæfðasta sjúkrahús landsins og síðast en ekki síst sem háskólasjúkrahús og vísindasetur. Áætlun sjúkrahússins um aðgerðir til að mæta hagræðingarkröfu ársins lá fyrir í upphafi ársins og eftir henni er unnið. Starfsfólk sjúkrahússins veit ég að hefur ekki aðeins sýnt þessum erfiðu aðstæðum skilning og þolinmæði heldur hefur hver og einn lagt mikið af mörkum við að draga úr kostnaði víðs vegar í rekstri sjúkrahússins í sínu nánasta vinnuumhverfi.

Það er aðdáunarvert hve vel hefur tekist til hjá Landspítala með umfangsmiklar breytingar á stjórnskipulagi sjúkrahússins samhliða krefjandi verkefnum á erfiðum tímum. Með tilfærslu frá sólarhringsþjónustu í dag- og göngudeildarþjónustu hefur verið dregið umtalsvert úr yfirvinnu, notkun klínískra leiðbeininga hefur dregið úr lyfja- og rannsóknarkostnaði og sparnaður hefur náðst við innkaup.

Það er svo sannarlega í mörg horn að líta. Vinna við forhönnun byggingar nýs Landspítala er á áætlun. Fólk í um 30 stöðugildum starfar beint við verkefnið, auk vinnuhópa starfsfólks hér sem koma að málinu í notendahópum og rýna teikningar. Útboð verða í sex verkhlutum. Áformað er að útboðsgögn vegna framkvæmda á lóð og alútboðsgögn annars vegar vegna byggingar sjúkrahótels og hins vegar bílastæðahúss verði tilbúin í september 2011. Þá er áformað að alútboðsgögn annars vegar vegna meðferðarkjarna sem meðal annars á að hýsa legudeildir, bráða- og skurðstofur, og hins vegar vegna rannsóknarhúss verði tilbúin í byrjun febrúar 2012. Á sama tíma verða einnig tilbúin útboðsgögn vegna 7.500 fermetra byggingar fyrir heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Eins og þið vitið skal leita samþykkis Alþingis fyrir undirritun samninga fyrir framkvæmd að loknum útboðum en við væntum þess auðvitað öll að þetta gangi nú allt eftir þannig að framkvæmdir geti hafist sem fyrst við þetta risavaxna verkefni.

Í erlendum samanburði hefur íslenska heilbrigðiskerfið um langt skeið fengið góða útkomu og skorað hátt á mörgum mikilvægum kvörðum sem meta skilvirkni, þjónustu og gæði hennar. Miklu skiptir að svo verði áfram og þar gegnir Landspítalinn og starfsfólk hans mikilvægu forystuhlutverki.

Eins og ljóst er var um síðustu áramót stofnað nýtt ráðuneyti velferðarmála með sameiningu heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis. Verkefni þessa nýja ráðuneytis eru mörg og umfangsmikil og ábyrgð þess í réttu hlutfalli við það. Undir velferðarráðuneytið heyra rúmlega 20 stofnanir sem sumar hverjar sinna verkefnum sem eiga margt sameiginlegt og skarast jafnvel að einhverju leyti. Það er nokkuð víst að með aukinni samvinnu stofnana og í einhverjum tilvikum sameiningu þeirra verði unnt að auka skilvirkni, bæta þjónustu og ná fram hagræðingu og sparnaði. Allt er þetta til skoðunar og sumt er lengra komið líkt og sameining landlæknis og Lýðheilsustöðvar sem tók gildi 1. maí samkvæmt lögum frá Alþingi. Eins skal nefnd sú breyting sem snýr beint að ykkur með sameiningu St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og Landspítala 1. febrúar síðastliðinn, undir nafni þess síðarnefnda.

Velferðarráðuneytið leggur áherslu á samráð og samvinnu við stjórnendur stofnana sinna. Það er alltaf mikilvægt en alveg sérstaklega á tímum eins og nú þegar taka þarf stórar og erfiðar ákvarðanir sem geta haft afdrifaríkar afleiðingar ef ekki er rétt að þeim staðið. Það er skylda stjórnvalda að byggja ákvarðanir sínar á hverjum tíma á bestu fáanlegum upplýsingum og faglegu mati þeirra sem gerst þekkja til. Ráðuneytið hefur því margt að sækja í smiðju ykkar og fundar einmitt reglulega með stjórnendum sjúkrahússins sem er ákaflega mikilvægt fyrir samskiptin og jákvætt á báða bóga.

Síðustu misseri hefur mikið verið rætt um möguleg tækifæri sem kunna að felast í lækningum yfir landamæri þar sem sjúklingar kæmu hingað til lands til að sækja sér sérhæfða heilbrigðisþjónustu á tilteknum sviðum. Eins og ykkur er eflaust mörgum kunnugt er væntanleg á næstunni úttekt og álit nefndar sem hefur skoðað þessi mál. Það er vel hugsanlegt að í þessu geti falist ákveðin sóknarfæri fyrir Landspítala, en hér skulum við þó hafa hugfast hið fornkveðna að Róm var ekki byggð á einum degi.

Margir þættir eru til skoðunar sem snúa að skipulagi heilbrigðisþjónustu í landinu. Ég nefni hér skýrslu sem kom út nokkru fyrir áramót með tillögum til mín um eflingu heilsugæslunnar og einnig nýlega skýrslu með tillögum um nýtt heildarskipulag á sérfræðiþjónustu lækna. Þar er meðal annars farið yfir hlutverk og stöðu sjálfstætt starfandi sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins og hvernig kraftar þeirra verði best nýttir í þágu heilbrigðisþjónustu á landinu öllu. Efni og tillögur þessara þriggja skýrslna verða til skoðunar á næstunni og sömuleiðis ábendingar sem borist hafa um efni þeirra. Allt þarf þetta að skoðast í samhengi því heilbrigðiskerfið er flókið og viðkvæmt og ákvarðanir um afmarkaða þætti geta haft víðtæk áhrif og afleiðingar sem mikilvægt er að sjá fyrir.

Eitt stórra mála sem nú eru í undirbúningi eru breytingar á lögum um sjúkratryggingar sem ætlað er að draga verulega úr lyfjakostnaði þeirra sjúklinga sem mest greiða samkvæmt gildandi kerfi. Frumvarp um þetta verður lagt fyrir Alþingi á næstu dögum en fyrirsjáanlega verður það ekki afgreitt frá Alþingi fyrr en í lok þessa árs.

Gert er ráð fyrir að sjúkratryggðir greiði lyfjakostnað að fullu upp að ákveðnu hámarki á tólf mánaða tímabili en þá taki við stighækkandi greiðslur sjúkratrygginga og kostnaður sjúklingsins lækkar að sama skapi. Miðað er við að öll lyf sem sjúkratryggingar taka þátt í að greiða verði felld inn í einn flokk og þannig stuðlað að jafnræði milli sjúklingahópa. Þá er gert ráð fyrir að sýklalyfjum verði bætt inn í greiðsluþátttökukerfið. Sjúkratryggingar Íslands munu áfram gefa út lyfjaskírteini og í sérstökum tilvikum afgreiða skírteini sem veita sjúkratryggðum rétt á lyfjum þeim að kostnaðarlausu. 

Af fleiri stórum verkefnum er óhjákvæmilegt að nefna heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins sem lengi hefur verið í undirbúningi en er nú komin í þann farveg að telja má raunhæft að um næstu áramót líti dagsins ljós frumvarp til nýrra laga um almannatryggingar.

Þótt breytingar á greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði eða endurskoðun almannatrygginga snerti ekki sjúkrahússtarfsemi á beinan hátt snúa þessir þættir engu að síður að grundvallaratriði íslenska heilbrigðiskerfisins um jafnan aðgang allra að heilbrigðisþjónustu. Við megum ekki missa sjónar á þessu markmiði, því aðgangur fólks að heilbrigðisþjónustu má aldrei verða háður efnahag.

Hvort sem við lifum á hagsældar- eða krepputímum eru útgjöld til heilbrigðismála viðvarandi viðfangsefni flestra þjóða. Þau vega hvað þyngst af einstökum þáttum í rekstri velferðarríkja og því ekki að furða þótt þau séu sífellt til skoðunar. Í nýrri skýrslu OECD sem fjallar um umbætur á efnahagsstefnu eru heilbrigðismál meðal annars til umfjöllunar. Þar segir einfaldlega að ekki sé nein ein tegund heilbrigðiskerfa sem skili ávallt hagkvæmustu útkomunni. Svo virðist sem stjórnunin skipti jafnvel meira máli um útkomuna en kerfið sjálft. Því kunni að skila bestum árangri að við stefnumótun sé leitast við að taka upp þær aðferðir og venjur sem mestu hafa skilað í ólíkum kerfum og laga þær að eigin aðstæðum.

Góðir gestir og starfsfólk Landspítala.

Það er hart tekist á í samfélaginu þessi misserin og víða deilt um margvísleg málefni, jafnt stór og smá. Þó er sitthvað í samfélagsgerð okkar sem samstaða ríkir um í grundvallaratriðum, þótt skiptar skoðanir séu um áherslur og aðferðir. Þetta held ég að eigi við um velferðarkerfið í heild sinni og ekki síst um heilbrigðisþjónustuna. Ég held að það sé einróma skoðun og sannfæring landsmanna að nauðsynleg heilbrigðisþjónusta skuli ávallt tryggð hverjum þeim sem á henni þarf að halda og að mismunun verði ekki liðin undir neinum kringumstæðum.

Landspítali er einn stærsti vinnustaður landsins með hátt í 5.000 starfsmenn. Störfin eru margvísleg og sum hver afar sérhæfð – en störf allra eiga sammerkt ákveðin markmið þar sem árangurinn felst í órofa keðju sem aldrei verður sterkari en veikasti hlekkurinn. Það er vandasamt að skapa og viðhalda sameiginlegum áhuga og metnaði fólks á svo stórum vinnustað en ég tel verkin sýna að starfsfólk Landspítala lifir upp í gildi vinnustaðarins þar sem umhyggja, fagmennska, öryggi og framþróun eru í öndvegi.

Ég ætla að láta hér staðar numið en ítreka að lokum að öll sú mikla og erfiða vinna sem starfsfólk Landspítala hefur lagt á sig síðustu misseri og sá árangur sem þið hafið náð er mikils metinn og starf ykkar verður seint fullþakkað.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum