Hoppa yfir valmynd
5. maí 2011 Forsætisráðuneytið

Yfirlýsing ríkisstjórnar vegna kjarasamninga til þriggja ára

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við nýgerða kjarasamninga er afrakstur víðtæks samráðs stjórnvalda og aðila hins almenna vinnumarkaðar um margvísleg atriði er lúta að efnahags- og kjaramálum. Með yfirlýsingunni leggja stjórnvöld sitt af mörkum til að kjarasamningar yrðu gerðir til þriggja ára á íslenskum vinnumarkaði.

Raunsæir og réttlátir  kjarasamningar eru mikilvægir til að tryggja stöðugleika til lengri tíma. Við þær aðstæður sem ríkt hafa í íslensku samfélagi er brýnt að treysta grundvöll sáttar á vinnumarkaði og efna til samstillts átaks allra í endurreisn efnahags– og atvinnulífsins. Með yfirlýsingunni skuldbinda stjórnvöld sig til að vinna af einurð að því að leggja grunn að varanlegum hagvexti og velferð. Jafnframt byggir yfirlýsingin á að aðilar vinnumarkaðarins leggi sitt af mörkum til að þeim markmiðum verði náð. Meginatriðið er að örva hagvöxt með arðsömum og sjálfbærum fjárfestingum, án þess að  markmiðum um afkomu ríkissjóðs verði ógnað.

Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld gangi samhent til þeirra verkefna sem framundan eru við endurreisn samfélagsins og er brýnt að allir aðilar eigi með sér reglubundið og náið samráð á samningstímanum. Stjórnvöld eru reiðubúin til að stuðla að því að svo verði, m.a. með því að skuldbinda sig til að framkvæmd kjarasamninga verði háð því að áform sem lýst er í yfirlýsingunni nái fram að ganga. Í því skyni verða m.a. lögð fram frumvörp á yfirstandandi þingi sem fela í sér margar þeirra lagabreytinga sem leiða af kjarasamningum og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en önnur atriði verða lögð fyrir Alþingi á haustþingi eða síðar, eftir atvikum.

Meðal sameiginlegra markmiða ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins er að hagvöxtur aukist umfram spár, kaupmáttur vaxi, ekki síst hjá hinum lægst launuðu, fjárfestingar aukist úr 13% af landsframleiðslu í 20% og atvinnuleysi minnki í 4-5%. Samhliða kjarabótum fela samningarnir í sér ásetning um aðgerðir sem ætlað er að efla velferðakerfið og örva hagkerfið.

Kostnaður ríkissjóðs vegna yfirlýsingarinnar er verulegur, en sá efnahagslegi stöðugleiki sem náðst hefur og sá mikli árangur sem ríkisstjórnin hefur náð við að draga stórum úr hallarekstri ríkissjóðs gerir það að verkum að ríkið er nú fært um að standa að baki launamönnum og atvinnulífi með umfangsmiklum aðgerðum. Með því skapast góð hagvaxtaskilyrði, bætt lífskjör og betra samfélag. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins eru eftir sem áður sammála um mikilvægi þeirra markmiða sem unnið er eftir við stjórn ríkisfjármála og miða að jöfnuði í afkomu ríkisins 2013.

Yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar fylgir sérstök bókun um málsmeðferð í tengslum við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða ásamt bókun um eftirfylgni með framkvæmd yfirlýsingarinnar.

Helstu atriði yfirlýsingarinnar eru þessi:

Kjarabætur til lífeyrisþega og atvinnulausra

Stjórnvöld munu endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga milli ASÍ og SA, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og samið verður um í kjarasamningum.

Endurskoðun vaxta- og barnabóta

Tekju- og eignatenging vaxtabóta og barnabóta verður endurskoðuð  í tengslum við framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2012.

Lægri skattar einstaklinga

Lögfest verður að persónuafsláttur taki breytingum í samræmi við verðlagsbreytingar. Skattar   einstaklinga lækka í samræmi við það í ársbyrjun 2012.

Lægra atvinnutryggingargjald fyrirtækja

Atvinnutryggingagjald mun lækka frá ársbyrjun 2012 þannig að tekjur og gjöld  Atvinnutryggingarsjóðs verði í jafnvægi á því ári. Gangi áætlanir um fækkun atvinnulausra eftir, má gera ráð fyrir því að lækkunin nemi allt að 1,36% frá og með næstu áramótum en tryggingargjald hækki um 0,5% á móti. 

Sókn í atvinnumálum

Það er sameiginlegt markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að vinna bug á atvinnuleysi og skapa fjölbreytt og vel launuð störf hér á landi. Stjórnvöld eru reiðubúin til samstarfs við samtök launafólks og atvinnurekenda um sókn í atvinnumálum, m.a. á forsendum stefnumarkandi skjalsins Ísland 2020. Markmið sóknar í atvinnumálum er að atvinnuleysi verði ekki hærra en 4-5% af vinnuafli í lok samningstímans. Til að það markmið náist þarf að auka hagvöxt umfram horfur að óbreyttu.

Á síðasta ári var fjárfesting undir 200 milljörðum króna eða 13% af landsframleiðslu. Það er markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að þetta hlutfall fari stighækkandi og verði ekki lægra en 20% í lok samningstímans.

Aukið fé í  opinberar framkvæmdir

Stjórnvöld munu auka opinberar fjárfestingar um amk. 13 milljarða kr. til ársloka 2012, en í fjárlögum ársins 2011 er þegar veitt 21 milljarði.kr. til stofnkostnaðar-, viðhalds- og framkvæmdaliða.

 • Kostnaður við byggingu nýs Landspítala er áætlaður um 40 milljarðar kr. (útgjöld á þessu ári og næsta um 3,1 ma.kr.).
 • Forútboð vegna Vaðlaheiðaganga er hafið og framkvæmdir hefjast að forfallalausu í haust (kostnaður að meðtöldum virðisaukaskatti er áætlaður ríflega 10 milljarðar kr. á 3 árum).
 • Áætluð fjárfesting í nýjum hjúkrunarheimilum er um 5 milljarðar kr.
 • Fyrirhuguð eru útboð á nýju fangelsi og framhaldsskóla á næstunni.
 • Átak verður gert í opinberum viðhaldsframkvæmdum.
 • Ákveðið hefur verið að auka framkvæmdir á vegum Ofanflóðasjóðs á þessu ári og því næsta.
 • Fé verður veitt til úrbóta á aðgengi fjölsóttra ferðamannastaða.
 • Nýlega hefur verið ákveðið að leggja til fé í auknar vegaframkvæmdir á Vestfjörðum.

Til viðbótar þessu verður áfram unnið að útfærslu tillagna um vegaframkvæmdir á Suðvesturlandi og fjármögnun þeirra, m.a. í sameiginlegum starfshóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Niðurstaða verði fengin í þá vinnu fyrir lok maímánaðar 2011.

Sókn í orku- og iðnaðarmálum

Stjórnvöld vilja greiða fyrir aukinni fjárfestingu á sem flestum sviðum, einkanlega þeim sem stuðla að auknum útflutningstekjum. Lögð er áhersla á að fjárfestingar í virkjunum og gerð raforkusamninga verði á viðskiptalegum grundvelli og taki tillit til umhverfisgæða. Stefnt er að því að frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða verði afgreitt á vorþingi. Rammaáætlun verður lögð fram á næstu vikum og fer í viðeigandi ferli. Stjórnvöld stefna að því að hún verði afgreidd á næsta haustþingi.

Alþingi hefur nú til meðferðar frumvarp til laga um breytingar á vatnalögum og lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og er mikilvægt að í þeim verði tryggðar forsendur fyrir arðbærum fjárfestingum í orkuvinnslu á grundvelli ábyrgrar auðlindanýtingar og orkusölusamninga með eðlilegum endurskoðunarákvæðum.

Þegar eru afráðnar fjárfestingar í Búðarhálsvirkjun, stækkun álversins í Straumsvík, kísilveri í Helguvík og í dreifikerfi Landsnets og er framkvæmd þessara verkefna þegar hafin. Framkvæmdir í Helguvík og fleiri verkefni eru í undirbúningi og eru þau mislangt komin. Landsvirkjun mun halda áfram umfangsmiklum rannsóknum í Þingeyjarsýslum og á nú þegar í viðræðum við nokkra aðila um fjárfestingar og orkukaup. Gangi öll virkjanaáform fyrir norðan eftir gæti þar verið um að ræða fjárfestingu upp á 70-80 milljarða kr., auk fjárfestinga orkukaupenda.

Þess er fastlega vænst að samningar takist fyrir lok þessa árs um í það minnsta tvö umtalsverð fjárfestingaverkefni sem ráðist verði í, þar af annað á Norðausturlandi, og að framkvæmdir við þau geti hafist þegar á næsta ári.

Stjórnvöld munu greiða götu þess að lífeyrissjóðir geti tekið beinan þátt í fjárfestingum og/eða fjármögnun orkuverkefna og skapa til þess viðeigandi umgjörð.

Hvatt til fjárfestinga

Miklu skiptir að auka fjárfestingar lítilla og meðalstórra fyrirtækja og kynna erlendum fjárfestum Ísland sem fýsilegan fjárfestingarkost. Stefnt er að því að veita auknum fjármunum til markaðssóknar í þessu augnamiði.

Átakið Allir vinna stendur yfir til loka árs 2012, en árangur af því verkefni er afar jákvæður. Til greina kemur að framlengja verkefnið til að draga úr atvinnuleysi í byggingastarfsemi og draga úr svartri atvinnustarfssemi.

Íslandsstofu verður falið að setja fram tillögur um sérstakar hvataaðgerðir vegna fjárfestinga í orkufrekri starfsemi sem styður við stefnu stjórnvalda um græna atvinnustarfsemi.

Áfram verður lagt kapp á að unnið verði hratt úr skuldum jafnt stórra sem smárra fyrirtækja og tiltækum leiðum beitt til að hvetja fjármálafyrirtæki til aukinna afkasta.

Nýsköpun efld

Stjórnvöld, sveitarfélög og aðilar í ferðaþjónustu hafa ákveðið að ráðast í átak með það að markmiði að fjölga ferðamönnum yfir vetrartímann um 50 þúsund og skapa þannig a.m.k. eitt þúsund störf. Til þessa verkefnis verður varið árlega 300 milljónum kr. úr ríkissjóði næstu þrjú árin gegn því að sama fjárhæð komi frá sveitarfélögum og einkaaðilum.

Þá hefur verið ákveðið að efna til klasasamstarfs og að efla samkeppnissjóði á sviði menntamála, heilbrigðis- og velferðarmála, orku- og umhverfismála á grundvelli útfærðra hugmynda Samtaka iðnaðarins.

Stjórnvöld munu leita leiða til að efla Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum og gera Tækniþróunarsjóði kleift að aðstoða fyrirtæki á sviði hugbúnaðar og hátækni til að auka útflutning á næstu þremur árum.

Átak í menntamálum og vinnumarkaðsúrræði

Stjórnvöld munu, í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, standa fyrir átaki á sviði vinnumarkaðsaðgerða og til að efla menntun í samræmi við tillögur samráðshóps um vinnumarkaðsmál. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins tryggja sameiginlega fjármögnun verkefnisins.

Bráðaaðgerðir
Öllum þeim sem eftir því leita verða tryggð námstækifæri strax næsta haust:

 1. Framhaldsskólum verður gert kleift að taka inn haustið 2011 þá umsækjendur yngri en 25 ára sem uppfylla skilyrði.
 2. Tryggt verður að þeim sem hafa lokið raunfærnimati vorið 2011 gefist kostur á námi á framhaldsskólastigi haustið 2011.
 3. Þeim sem eru 25 ára og eldri verður gefinn kostur á úrræðum í framhaldsfræðslu.
 4. Aukið raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf.

Þá verður heildstætt nám í fjarkennslu í boði á framhaldsskólastigi.

Að auki verða sköpuð námstækifæri fyrir allt að 1.000 atvinnuleitendur haustið 2011 og næstu tvö skólaár þar á eftir í framhaldsskólum, frumgreinadeildum, háskólum og í framhaldsfræðslu.

Aðgengi atvinnuleitenda og fyrirtækja að starfstengdum úrræðum verður bætt og umsýslukerfi einfaldað. Þá verði starfstengdum úrræðum fyrir atvinnuleitendur fjölgað um allt að 1.500 árið 2011 þannig að heildarfjöldi þeirra einstaklinga sem njóta slíkra úrræða tvöfaldast.

Ákvæðum gildandi laga um vinnumarkaðsaðgerðir verður breytt á þann hátt að bótatímabil einstaklinga í starfstengdum úrræðum verði ekki skert, enda teldust þeir þá ekki atvinnuleitendur í skilningi laganna.

Aðgerðir til næstu þriggja ára
Vinna við vottun náms og við gerð gæðakerfis til að gera skil framhaldsskóla og framhaldsfræðslu sveigjanlegri þannig að nemendur geti með einfaldari hætti fengið metna áfanga sem teknir eru innan framhaldsfræðslu og raunfærni til eininga.

Stofnaður verður þróunarsjóður til að efla starfstengt nám á framhaldsskóla- og háskólastigi og þróa styttri námsbrautir. 300 milljónir k. verða lagðar í hann á ári næstu þrjú árin.

Jafnframt verður samstarf fyrirtækja og skóla um starfstengt nám aukið og tryggt að nemendur geti lokið verklegum þáttum náms innan tilskilins námstíma.

Samræming lífeyrisréttinda

Áfram verður unnið að samræmingu lífeyrisréttinda í starfshópi sem skipaður var á grundvelli stöðugleikasáttmálans með þátttöku allra aðila á vinnumarkaði og stefnt að því að niðurstaða fáist fyrir 1. september nk. og að breytingar verði kynntar Alþingi fyrir þinglok. Þar með verður lagður grundvöllur að nýju samræmdu og sjálfbæru lífeyriskerfi fyrir allan vinnumarkaðinn. Stjórnvöld hafa gefið fyrirheit um að ekki verði hróflað við áunnum réttindunum opinberra starfsmanna og um að breytingar á lífeyrismálum verði unnar í nánu samráði við samtök þeirra.

Starfsendurhæfing efld

Almennt samkomulag er um mikilvægi uppbyggingar markvissrar starfsendurhæfingar svo stuðla megi að þátttöku og virkni á vinnumarkaði. Draga þarf markvisst úr ótímabæru brottfalli launafólks af vinnumarkaði, meðal annars með því að bregðast við áður en fólk hverfur úr störfum sínum með virkri heilsuvernd á vinnustöðum, þ. á m. forvörnum.

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að lögfest verði skylda allra launagreiðenda til greiðslu 0,13% iðgjalds til Starfsendurhæfingarsjóðs. Enn fremur komi til jafnhátt iðgjald frá lífeyrissjóðunum.

Aukið húsnæðisöryggi

Náið verður fylgst með framkvæmd ráðstafanna sem þegar hafa verið ákveðnar vegna skuldavanda heimilanna.

Þá mun sérstakur starfshópur fá það hlutverk að útfæra tillögur um nýtt húsnæðisbótakerfi, þar sem horft verði til jafnræðis milli búsetuforma við skiptingu þeirra fjármuna sem varið er til vaxtabóta og húsaleigubóta.

Endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar

Stjórnvöld eru reiðubúin til þess að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Sem hluta af þeirri vinnu verður ráðist í sérstakt tilraunarverkefni um þjónustu við atvinnuleitendur innan ramma gildandi laga í því skyni að stuðla m.a. að virkari vinnumarkaðsaðgerðum og vinnumiðlun sem nái til allt að fjórðungs atvinnuleitenda.

Umbætur á skattaumhverfi á fyrirtæki

Fjármálaráðherra mun leggja fyrir Alþingi nú á vorþingi tillögur um lagabreytingar er varða (i) skattlagningu einstaklinga starfandi í eigin félögum, (ii) skilyrði fyrir frádráttarbærni arðgreiðslna og söluhagnaðar milli fyrirtækja, (iii) afdráttarskatt á vaxtagreiðslur til erlendra aðila þannig að hann nái einungis til vaxtatekna af íslenskum verðbréfum en ekki erlendra lánasamninga, (iv) svigrúm til dreifingar gjalddaga á aðflutningsgjöldum og virðisaukaskatti, og (v) mat hlutabréfa við skilgreiningu á álagningarstofni vegna auðlegðarskatts.

Áfram verður unnið að öðrum atriðum, svo sem (i) reglum um þunna eiginfjármögnun, (ii) skattlagningu afleiðuviðskipta og (iii) skattlagningu vegna tímabundinnar vinnu erlendis.

Svört atvinnustarfsemi

Ráðist verður í tímabundið átaksverkefni til að sporna við svartri atvinnustarfsemi.

Bættir viðskiptahættir

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir breytingum á lögum um félög til að stemma stigu við misnotkun félaga með takmarkaða ábyrgð og fyrir breytingum á lögum um skráningu félaga í því skyni að koma í veg fyrir starfsemi aðila sem hafa ítrekað, af ásetningi eða vanrækslu, rekið félög í þrot.

Réttarstaða launafólks við aðilaskipti

Stjórnvöld munu beita sér fyrir lagabreytingum á yfirstandandi þingi til að bæta réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti.

Framkvæmd útboðsmála

Stjórnvöld munu beita sér fyrir  breytingum á lögum um opinber innkaup til þess að tryggja betur eðlilegt samkeppnisumhverfi og réttindi launafólks.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum