Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2011 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Selflutningar yfir Múlakvísl undirbúnir og smíði bráðabirgðabrúar hraðað

Vegna yfirlýsingar Samtaka ferðaþjónustunnar og umfjöllunar um að langan tíma taki að koma upp bráðabirgðabrú yfir Múlakvísl vill innanríkisráðuneytið taka eftirfarandi fram:

Viðgerð á Hringveginum við Múlakvísl er hafin.
Viðgerð á Hringveginum við Múlakvísl er hafin.

Þegar brúna yfir Múlakvísl tók af í hlaupi í ánni aðfaranótt laugardags og Hringvegurinn lokaðist hófust þegar ráðstafanir til að finna leiðir til að opna veginn sem fyrst. Stjórnvöld og Vegagerðin gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vegasamband komist á sem fyrst.

Viðgerð á veginum er hafin, verið er að ýta upp vegi að nýju brúarstæði og efni í bráðabirgðabrú er til og er því nú ekið á staðinn. Áætlað er að smíði bráðabirgðabrúar taki tvær til þrjár vikur en hugsanlega miðar verkinu betur enda unnið á sólarhringsvöktum.

Jafnframt er nú undirbúið að selflytja fólk, bíla og varning yfir Múlakvísl. Innanríkisráðuneytið  hefur falið Vegagerðinni að ganga frá samningum um slíka flutninga. Verið er einnig að ganga frá merkingum og leiðbeiningum varðandi lokun Hringvegarins.

Meðan Hringvegurinn er lokaður við Múlakvísl geta jeppar, jepplingar, rútur og vörubílar af ákveðinni gerð ekið um Fjallabaksleið nyrðri milli byggðarlaga á Suðurlandi. Leggja verður áherslu á að sú leið er hins vegar ekki fær öllum bílum. Þetta hefur í för með sér kostnað og tafir á ferðum og flutningum sem koma niður á ferðaþjónustu, flutningastarfsemi og almenningi.

Innanríkisráðuneytið deilir áhyggjum Samtaka ferðaþjónustunnar af lokun Hringvegarins og vitaskuld væri hentugast ef leiðin opnast í dag eða á morgun. Það er hins vegar ekki raunhæft og mikilvægt er að allrar sanngirni sé gætt og að allir sameinist um að leita lausna. Stjórnvöld vinna að því,,að öllum tiltækum ráðum verði beitt til að opna leið yfir Múlakvísl sem allra fyrst,“ eins og segir í yfirlýsingu SAF.

Ferðaþjónusta er viðkvæmur rekstur og þegar truflanir verða á samgöngum vegna náttúruhamfara og flóða bitnar það á ferðaþjónustu, flutningafyrirtækjunum, landbúnaði og einstaklingum. Við aðstæður sem þessar þurfa allir aðilar að beita ítrustu útsjónarsemi til að lágmarka tjón og truflun og leita leiða til lausna.

Vegagerðin hefur þegar brugðist hratt við og nýtur fyllsta trausts samgönguyfirvalda og ríkisstjórnarinnar allrar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira