Hoppa yfir valmynd
26. september 2011 Forsætisráðuneytið

Fjallað um framkvæmd á barnasáttmála SÞ á Íslandi

Viðmót dómstóla gagnvart börnum, áhrif kreppu á réttindi barna, brjóstagjöf og fræðsla um kynlíf og kynheilbrigði voru meðal umræðuefna þegar sendinefnd Íslands sat fyrir svörum um framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Fyrirtakan fór fram í Genf sl. föstudag en öll ríki sem aðilar eru að sáttmálanum þurfa að standa gerðum sínum skil frammi fyrir sérfræðinganefnd SÞ sem starfar á grundvelli sáttmálans.

Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, fór fyrir sendinefndinni og flutti inngangsorð við fyrirtökuna hjá nefndinni. Auk hennar voru fulltrúar Íslands þau María Rún Bjarnadóttir, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu, Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, Guðni Olgeirsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Margrét Björnsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu. Einnig sat fundinn Veturliði Stefánsson, fulltrúi fastanefndar Íslands í Genf.

Í ávarpi sínu vakti Halla Gunnarsdóttir meðal annars athygli á að í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi hefðu yfirvöld lagt áherslu á að slæmt efnahagsástand kæmi ekki niður á börnum með því að verja velferðarkerfið þrátt fyrir niðurskurð í ríkisútgjöldum. Það hefði m.a. verið gert með því að leggja ríka áherslu á að verja þjónustu heilbrigðis- og menntakerfisins. Benti Halla á að samkvæmt samanburðarrannsóknum virðist líðan barna á Íslandi ekki verri eftir hrun en fyrir. Hópar sem voru í viðkvæmri stöðu áður séu hins vegar í enn meiri áhættu. Sendinefnd Íslands áréttaði þó einnig að áhrif efnahagskreppa komi oft ekki fram fyrr en mörgum árum eftir versta áfallið og var í þessu sambandi vísað til reynslu Finna af efnahagskreppu á 10. áratug síðustu aldar.

Sérfræðinganefnd Sameinuðu þjóðanna lagði fjölmargar spurningar fyirr sendinefndina og hvatti m.a. til þess að barnasáttmálinn yrði lögfestur á Íslandi, líkt og mannréttindasáttmáli Evrópu. Ísland er þó enn með fyrirvara við samninginn sem lýtur að aðskilnaði ungra fanga frá fullorðnum en tillögur nefndar sem innanríkisráðherra skipaði eru nú til umfjöllunar hjá innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti. Þá lagði nefndin áherslu á mikilvægi löggjafar sem taki til brota íslenskra ríkisborgara eða einstaklinga með dvalarleyfi á Íslandi gegn börnum þótt þau séu framin í öðrum ríkjum, s.s. limlesting á kynfærum stúlkna og kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, þ.m.t. vændi.

Á vefsíðu sérfræðinganefndarinnar um barnasáttmálann  má sjá kafla um Ísland. Þar er skýrsla Íslands, spurningalisti frá nefndinni og svör Íslands. Þá er þar einnig að finna upplýsingar um sendinefndina.

Viðstödd fyrirtökuna í Genf voru einnig fulltrúar frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, UNICEF á Íslandi og umboðsmaður barna. Þessir aðilar hafa skilað svonefndum skuggaskýrslum um stöðu barna á Íslandi og eru þær aðgengilegar á barn.is og humanrights.is.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum