Hoppa yfir valmynd
24. október 2011 Innviðaráðuneytið

Svör við spurningum RÚV um Mexíkóferð

Ríkisútvarpið óskaði nýlega eftir upplýsingum um för innanríkisráðherra til Mexíkó þar sem hann sótti ráðstefnu um samgöngumál. Spurningar RÚV og svör ráðuneytisins sem voru send útvarpinu í síðustu viku fara hér á eftir:

Hvaða ráðstefna var þetta, hvar, hvenær og á vegum hvers?

Þetta var alþjóðleg ráðstefna um samgöngumál í Mexíkóborg, 26. til 30. september, ætluð fulltrúum framkvæmdavalds og stjórnsýslu og stofnunum sem með vegamál fara.

Ráðstefnan er haldin á fjögurra ára fresti á vegum PIARC (Permanent International Association of Road Congresses, í daglegu tali oft nefnd World Road Association) sem eru ríflega 100 ára gömul samtök vegagerða fjölmargra landa. Samtökin hafa aðsetur í París og sinna víðtæku rannsókna- og þróunarstarfi í samgöngumálum. Sjá nánar á vefsíðu PIARC: http://www.piarc.org/en/.

Á ráðstefnunni voru fluttir liðlega 100 fyrirlestrar á fimm dögum. Í framhaldi af hverri ráðstefnu marka 18 tækninefndir ýmissa málaflokka sér stefnu og setja fram áætlun um verkefni og rannsóknir sem vinna skal að og kynna á næstu ráðstefnu. Í tengslum við ráðstefnuna sýndu um 150 fyrirtæki og stofnanir frá öllum heimshornum margs konar efni: Hönnun mannvirkja, efnisnotkun, tæki og búnað sem nota má við umferðarstjórnun og vegaframkvæmdir svo nokkuð sé nefnt.Vegagerðin íslenska var með sérstakan sýningarbás undir sameiginlegu þaki allra Norðurlandanna.

Með starfi PIARC er mótaður þekkingargrunnur sem byggir á rannsóknum og reynslu á heimsvísu. Innan samtakanna starfar sérstök deild Norðurlandanna, Nordiskt vägforum, sem vinnur að sambærilegum verkefnum og skipuleggur ráðstefnuhald á Norðurlöndunum á fjögurra ára fresti. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri hefur setið í forsæti þeirrar deildar undanfarin ár og verður næsta norræna ráðstefna haldin í Reykjavík í júní á næsta ári. Þess skal getið að vegamálastjóri stýrði umræðu á ráðstefnunni um framkvæmdir og fjárhagslegt eftirlit.

Hve margir fulltrúar fóru á hana fyrir Íslands hönd? Hverjir voru það?

Tveir fyrir hönd innanríkisráðuneytisins: Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Jóhannes Tómasson upplýsingafulltrúi.

Hver var kostnaður við ferðina?

Flugfargjöld fyrir báða fulltrúa ráðuneytisins námu kr. 329.015 og dagpeningar kr. 725.414.

Var kostnaður að öllu leyti greiddur af ráðuneytinu eða tóku aðrir þátt í kostnaði?

Var mögulega um boðsferð að ræða?

Kostnaður við tvo fulltrúa ráðuneytisins var greiddur af ráðuneytinu, ekki var um boðsferð að ræða nema hvað ekki þurfti að greiða ráðstefnugjald.

Hverju skilaði ráðstefnan fyrir íslenska þátttakendur?

Almennt talað skilar ráðstefnuhald sem þetta þátttakendum margháttuðum fróðleik eftir að hafa hlýtt á fyrirlestra og tekið þátt í dagskrá ráðstefnunnar og rætt við þátttakendur frá öðrum heimshlutum. Hefur verið leitast við að greina frá ýmsu sem þar kom fram á vefsíðum ráðuneytis og Vegagerðar og verður áfram, einnig verður frásögn í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar. Ráðherra hefur einnig skrifað um upplifun og reynslu sína á vef sinn ogmundur.is. Innanríkisráðherra tók virkan þátt í ráðstefnunni og var m.a. þátttakandi á opnum umræðufundi þar sem samgönguráðherrar þrjátíu ríkja sátu fyrir svörum og tóku þátt í umræðu. Þar voru til umræðu þrjú málefni: Fjármögnun framkvæmda, öryggismál og ábyrg þróun vegakerfa þegar umhverfið er annars vegar. Valdi ráðherra að taka þátt í umræðu um fjármögnun framkvæmda. Frá þessu var greint í nokkrum íslenskum fjölmiðlum þótt RÚV hafi ekki verið þar á meðal.

Hvernig verður sú þekking varðveitt í ráðuneytinu, t.d. eftir að ráðherrann lætur sjálfur af embætti?

Þekking sem þessi er að sjálfsögðu að talsverðu leyti bundin þeim sem tóku þátt í ráðstefnunni en í þessu tilfelli hefur upplýsingum verið miðlað með fréttum og umfjöllun, eins og að ofan er lýst. Hins vegar er gildi ráðstefnu af þessu tagi ekki einvörðungu fólgið í þeim fróðleik sem þátttakendur kunna að afla sér heldur í umræðunni sem fram fer meðan á henni stendur og eftir að henni lýkur. Ef vel á að vera er ráðherra virkur þátttakandi í lifandi umræðu á alþjóðavettvangi sem heima fyrir og leggur þannig eitthvað af mörkum sjálfur.

Listi yfir utanlandsferðir innanríkisráðherra

Hér að neðan er gerð grein fyrir utanlandsferðum ráðherra frá því Ögmundur Jónasson tók við embætti 2. september 2010. Hann hefur farið í eftirtaldar ferðir og skal þess getið að yfirleitt hefur verið um það fjallað opinberlega hvað fundirnir og ráðstefnurnar hafa fjallað um og eftir atvikum hvað út úr þeim hefur komið:

Nóvember 2010: Fundur í Róm á vegum Evrópuráðsins um ofbeldi gegn börnum þar sem innanríkisráðherra sat fyrir svörum og tók þátt í umræðum.

Febrúar 2011: Fundur samgönguráðherra Evrópuríkja í Búdapest.

Júní 2011: Fundur dómsmálaráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Finnlandi. Reglulegur árviss fundur norrænu dómsmálaráðherranna.

Júní 2011: Fundur norrænna ráðherra sem fara með málefni innflytjenda í Stokkhólmi. Reglulegur árviss fundur norrænu sveitarstjóranrráðherranna.

September 2011: Alþjóðleg ráðstefna um vegamál í Mexíkó.

Október 2011: Fyrirtaka skýrslu Íslands um mannréttindamál hjá SÞ í Genf þar sem innanríkisráðherra og sérfræðingar Stjórnarráðsins sátu fyrir svörum.

Tveir norrænir reglulegir samráðsfundir norrænna ráðherra hafa verið haldnir hér á landi á tímabilinu, fundir sveitarstjórnarráðherra og samgönguráherra, báðir í ágúst 2011.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum