Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2011 Utanríkisráðuneytið

Samráðshópur í tengslum við samningaviðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu

Formaður og varaformenn samráðshópsins
Formaður og varaformenn samráðshópsins

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, skipaði í dag Salvöru Nordal, heimspeking og forstöðumann Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, formann samráðshóps í tengslum við samningaviðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Varaformenn samráðshópsins eru Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og forseti Sögufélags og  Ágúst Sigurðsson rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.

Utanríkisráðherra mun á næstunni skipa tuttugu fulltrúa til viðbótar í samráðshópinn. Við val á þeim verður sérstök áhersla lögð á kynjajafnvægi, jafnvægi á milli landshluta, höfuðborgarsvæðis og dreifbýlis, sem og á andstæð sjónarmið í Evrópumálunum. Samráðshópurinn getur kallað til frekara samráðs fulltrúa stjórnmálaflokka, félagasamtaka, hagsmunasamtaka og einstaklinga um þau efnisatriði er tengjast samningaviðræðunum.

Samráðshópurinn mun eiga reglulega fundi með aðalsamningamanni og samninganefnd Íslands og fá upplýsingar um samningsafstöðu í einstökum málum og stöðu og framvindu viðræðnanna. Hópurinn mun leggja mat á framkomnar upplýsingar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við aðalsamningamann og samninganefnd Íslands. Eitt meginhlutverk samráðshópsins er jafnframt að miðla upplýsingum áfram til landsmanna og stuðla þannig að málefnalegri umræðu í þjóðfélaginu um hagsmuni Íslands í viðræðunum við Evrópusambandið og áhrif mögulegrar aðildar Íslands.

Skipun samráðshópsins er í samræmi við álit meirihluta utanríkismálanefndar með þingsályktunartillögunni um að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu en í því er kveðið á um að aðkoma íslenskra hagsmunaaðila og félagasamtaka að ferlinu verði á sem breiðustum grunni.

Helstu hagsmuna-og félagasamtök á Íslandi eiga nú þegar beina hlutdeild í viðræðuferlinu í gegnum fulltrúa sína í þeim tíu samningahópum sem starfa náið með samninganefnd Íslands. Markmiðið með skipan samráðshópsins er að styrkja enn frekar þátttöku ólíkra einstaklinga og þjóðfélagshópa í aðildarviðræðunum og tryggja að Íslendingar fái hlutlægar upplýsingar um Evrópumálin.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira