Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2011 Forsætisráðuneytið

Mælikvarðar Íslands2020 birtir á vef forsætisráðuneytisins

Dæmi um myndræna framsetningu markmiðs og tengingu við mælikvarða
Dæmi um myndræna framsetningu markmiðs og tengingu við mælikvarða

Í stefnumörkuninni Ísland 2020 sem ríkisstjórnin samþykkti í desember í fyrra voru sett fram 20 hlutlæg markmið til að fylgjast með því hvernig landinu miðar í þá átt að verða öflugra samfélag sem byggir á varanlegri velferð, þekkingu og sjálfbærni. Nú hefur þessum markmiðum verið stillt upp á myndrænan hátt og þau tengd mælikvörðum til að sýna þróun þeirra.

Þau markmið sem mælikvarðarnir gefa vísbendingu um urðu til við undirbúning stefnumörkunarinnar Ísland 2020, í samtölum og samvinnu hundruða Íslendinga um land allt og í samráði við landshlutasamtök, sveitarfélög, verkalýðshreyfingu, samtök í atvinnulífi og önnur félagasamtök.

Eins og sést á mælikvörðunum erum við á réttri leið hvað varðar jöfnuð, stöðu jafnréttismála, framlög til rannsókna, þróunar og nýsköpunar, færni íslenskra grunnskólanemenda í lestri og á fleiri sviðum, en þurfum að gera betur á öðrum eins og t.d. að draga úr örorku og atvinnuleysi og auka vellíðan og góða andlega heilsu. Einnig þarf átak í að auka framboð á rafrænni stjórnsýslu og bæta færni íslenskra grunnskólanema í raungreinum.

Það er von forsætisráðuneytisins að birting mælikvarðanna muni leiða til upplýstrar umræðu um þau verkefni sem unnið er að á vegum stjórnvalda og að allir, hvort sem er innan ríkis, sveitarfélaga eða á einkamarkaði taki höndum saman um að ná tilskildum árangri.

Mælikvarðarnir verða uppfærðir reglulega, eða a.m.k. árlega, til að unnt sé að fylgjast með áframhaldandi þróun á aðgengilegan hátt. Nokkra þeirra er mögulegt að bera saman við stöðu annarra landa.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum