Hoppa yfir valmynd
20. desember 2011 Utanríkisráðuneytið

Birting stefnu í Icesave-málinu

Utanríkisráðuneytinu hefur í dag verið birt stefna Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í samningsbrotamáli um ábyrgð á lágmarkstryggingu á Icesave-reikningunum.

Uppbygging stefnunnar er að öllu leyti hefðbundin. Í fyrri hluta eru rakin málsatvik, lagarök og meðferð málsins fram til þessa, en seinni hlutinn snýr að málsástæðum ESA fyrir kröfu sinni um að Ísland verði af hálfu dómstólsins lýst brotlegt við tilskipunina um innstæðutryggingar og jafnræðisreglu EES-samningsins.

Efni stefnunnar svipar í öllu verulegu til málflutnings ESA fram til þessa og er byggður á tveimur meginstoðum. Annars vegar að stjórnvöld hafi ekki fullnægt skyldu til að tryggja að tryggingakerfið, sem komið var á fót á grundvelli tilskipunar um innstæðutryggingar, gæti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart innstæðueigendum um greiðslu lágmarkstryggingar (e. obligation of result).

Hins vegar að stjórnvöld hafi mismunað innstæðueigendum í útibúum Landsbankans á Íslandi og annars staðar m.t.t. lágmarkstryggingarinnar með því að flytja eingöngu innlendar innstæður í nýja bankann. Þar með hefðu innlendar innstæður verið tryggðar að fullu meðan innstæður annars staðar hefðu ekki einu sinni notið lágmarkstryggingar. Í því væri fólgin óbein mismunun sem bryti í bága við jafnræðisreglu 4. gr. EES-samningsins.

Samkvæmt starfsreglum EFTA-dómstólsins hafa stjórnvöld nú tvo mánuði til að skila greinargerð í málinu, þ.e. til 20. febrúar nk.

Í utanríkisráðuneytinu, 20. desember 2011.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum