Lánveitingar Norðurlanda og Póllands til Íslands
Fréttatilkynning nr. 1/2012
Umsamin lánafyrirgreiðsla Norðurlandanna og Póllands til Íslands í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda, sem studd var af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS), nemur í heild €1.930 m.
Samkvæmt upphaflegri áætlun stóð til að ríkissjóður og Seðlabankinn hefðu dregið að fullu á lán Norðurlandanna og Póllands fyrir árslok 2010, en vegna ítrekaðra seinkana á endurskoðun áætlunarinnar í stjórn AGS var frestur til að draga á lánin lengdur til ársloka 2011.
Fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn ákváðu í árslok 2011 að draga að fullu á lán Norðurlandanna. Var það talið varlegt í ljósi núverandi aðstæðna, m.a. þar sem horfur á alþjóðlegum lánamörkuðum eru óvissar um þessar mundir. Stefnt er að því að ríkissjóður efni til annars skuldabréfaútboðs erlendis á árnu 2012, í kjölfar vel heppnaðs útboðs í júní sl.
Alls nam ádrátturinn nú €887,5 m., eða sem svarar um 140 m. íslenskra króna, sem er varið til að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands. Ekki var dregið á lán Póllands, en samkomulag er um framlengingu á ádráttartíma þess láns.
Lán AGS og Noregs eru við Seðlabanka Íslands, en lán hinna Norðurlandanna við ríkissjóð. Við ádráttinn hækka heildarskuldir ríkissjóðs um u.þ.b. 7% af VLF og neikvæður vaxtajöfnuður vex. Hrein skuldastaða ríkissjóðs breytist hins vegar ekki. Fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn munu áfram meta þörf fyrir gjaldeyrisforða og tengdar lántökur með það að markmiði að lágmarka kostnað vegna forðans og skulda ríkissjóðs.
Reykjavík, 3. janúar 2012