Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2012 Utanríkisráðuneytið

Rætt um aukið samstarf við Rúmeníu

Össur Skarphéðinsson ásamt Baconchi í Búkarest
Össur Skarphéðinsson ásamt Baconchi í Búkarest

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti i dag fundi með utanríkisráðherra Rúmeníu, þingforseta rúmenska þingsins og Evrópuráðherra Rúmeníu þar sem hann lagði fram hugmyndir um að nýta styrki úr Þróunarsjóði EFTA, sem Ísland á aðild að, til að hefja jarðhitaverkefni í Rúmeníu. Í vesturhluta landsins eru mörg svæði sem henta til að setja upp hitaveitur. Jafnframt ræddi utanríkisráðherra ítarlega stöðu aðildarumsóknar Íslendinga að Evrópusambandinu. Utanríkisráðherra er í opinberri heimsókn í Rúmeníu en þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur utanríkisráðherra sækir landið heim undir þeim formerkjum.

Teodor Baconschi utanríkisráðherra Rúmeníu lýsti miklum áhuga á því að nýta styrki úr Þróunarsjóði EFTA til jarðhitavæðingar en íslenskir aðilar, Orkustofnun og Mannvit, hafa lýst áhuga á að koma að slíkum verkefnum og eru í viðræðum við rúmensk stjórnvöld um það.

Ráðherrarnir voru á einu máli um að auka mætti viðskipti ríkjanna og ræddu hugmyndir um það til að mynda með því að halda þing sprotafyrirtækja. Utanríkisráðherra Rúmeníu lýsti áhuga á að læra af því hvernig Íslendingar hafi byggt upp velferðarkerfi sitt og hvernig þjóðin hafi náð því að komast í fremstu röð í jafnréttisbaráttunni.

Utanríkisráðherra skýrði ganginn í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins og hétu Rúmenar fullum og eindregnum stuðningi við umsókn Íslands. Þeir hefðu skilning á því að einstakir þættir viðræðnanna, eins og um sjávarútvegsmál, skiptu sköpum þegar kæmi að því að íslenska þjóðin þyrfti að taka afstöðu til samnings.

Utanríkisráðherra tilkynnti rúmenska ráðherranum að frá og með áramótum hefðu takmarkanir á flutningi fólks frá Rúmeníu til Íslands á grundvelli EES-samningsins verið numdar úr gildi eins og hjá flestum Evrópuríkjum. Þá lýsti hann stuðningi við þátttöku Rúmena í Schengen-samstarfinu og í starfi Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.

Utanríkisráðherra átti sérstakan fund með Leonard Orban Evrópumálaráðherra Rúmeníu, sem fer með málefni Evrópusjóða, til að hvetja Rúmena til að setja meiri kraft í jarðhitaverkefnin.

Þá átti ráðherra fund með Petru Filip starfandi forseta rúmenska þingsins sem einnig hefur mikinn áhuga á að hvetja til hitaveituverkefna í vesturhluta landsins, þaðan sem hann kemur og var borgarstjóri um árabil. Allir lýstu viðmælendurnir miklum vilja til samstarfs við Íslendinga og lögðu mikið upp úr að efla samband þjóðanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum