Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2012 Innviðaráðuneytið

Áhersla lögð á smíði nýrrar ferju og aðlögun Landeyjahafnar

Innanríkisráðherra hefur ásamt fulltrúum Vestmannaeyjabæjar, Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar farið yfir stöðuna varðandi siglingar í Landeyjahöfn. Hefur verið fjallað um smíði nýrrar ferju, fyrirkomulag siglinga þar til ný ferja verður komin í gagnið, líklega þróun sandburðar við Landeyjahöfn og rannsóknir sem framundan eru. Við fjármögnun verður litið til verkefnisins í heild, þ.e. smíði nýrrar ferju og aðgerða til aðlögunar Landeyjahafnar að breyttum náttúrulegum aðstæðum.

Frá blaðamannafundi innanríkisráðherra um málefni Landeyjahafnar.
Frá blaðamannafundi innanríkisráðherra um málefni Landeyjahafnar.

Ögmundur Jónasson sagði í upphafi fundar að starfshópur undir forystu Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, hefði fjallað um málin á nánast vikulegum fundum frá því nokkru fyrir áramót. Ákveðið hefði verið að halda áfram þar sem var staðar numið vegna efnahagshrunsins haustið 2008 og hefja nú undirbúning að smíði nýrrar ferju. Framundan væru könnunarviðræður milli fulltrúa Vestmannaeyjabæjar, lífeyrissjóða og ráðuneytis um að stofna félag um verkefnið.

Fram kom á fundinum að farþegum með Herjólfi hefði fjölgað úr 127 árið 2009 í yfir 270 þúsund í fyrra þrátt fyrir frátafir við siglingar í Landeyjahöfn og sagði Elliði Vignisson að mjög mikil breyting hefði orðið í Eyjum með tilkomu Landeyjahafnar. Var lögð áhersla á að ráðist yrði í ákveðnar aðgerðir til að viðhalda nægilegu dýpi og nýta höfnina sem mest þar til ný ferja verður tekin í notkun.

Smíði nýrrar ferju

Áhersla hefur verið lögð á það sem snýr að nýju skipi enda talið einsýnt að siglingar í Landeyjahöfn verði verulegum takmörkunum háðar meðan siglt er á núverandi skipi. Mikilvægt er að hönnun nýrrar ferju taki mið af þeim aðstæðum sem ríkja í og við Landeyjahöfn. Ýmsar leiðir hafa verið ræddar varðandi fjármögnun og smíði nýrrar ferju. Efst á blaði nú er að vinna áfram með þá hugmynd að stofna hlutafélag um verkefnið. Mögulegir eignaraðilar yrðu ríkið, Vestmannaeyjabær og lífeyrissjóðir. Ákveðið hefur verið að hefja könnunarviðræður um þetta fyrirkomulag enda hafa allir þessir aðilar lýst áhuga sínum á að kanna þessa leið frekar. Gert er ráð fyrir að ný ferja gæti hafið siglingar í síðasta lagi árið 2015.

Rekstur Herjólfs

Vegagerðin bauð síðast út rekstur siglinga Herjólfs milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar árið 2005. Samið var við Eimskip hf. sem hefur síðan 1. janúar 2006 sinnt þessu verkefni. Upphaflegir samningar hafa verið framlengdir síðustu ár meðan safnað hefur verið reynslu við siglingar til Landeyjahafnar og núverandi samningur rennur út 1. maí næstkomandi. Vegagerðin hefur nú ákveðið að bjóða þennan rekstur út að nýju og mun nýr samningur gilda frá 1. maí 2012 þar til ný ferja hefur verið smíðuð og verður tilbúin til að taka við af núverandi ferju.

Landeyjahöfn

Af hálfu Siglingastofnunar er unnið að endurskoðun útreikninga á efnisburði meðal annars í ljósi breyttra aðstæðna. Lögð hefur verið rík áhersla á að skýra byrjunarörðugleika tengda sandburði og vinna að lausnum til að draga úr honum með ákveðnum aðgerðum. Meðal annars er til skoðunar uppbygging á rifi sem skýlir höfninni og dregur úr sandburði auk fasts dælubúnaðar. Hér eftir sem hingað til mun stofnunin fá utanaðkomandi sérfræðinga til aðstoðar. Áfram verður unnið með dönsku straumfræðistöðinni DHI en jafnframt leitað álita hjá tveimur reyndum erlendum aðilum sem ekki komu að hönnun hafnarinnar.

Tíminn til 2015

Landeyjahöfn hefur breytt miklu fyrir Vestmannaeyjabæ og nágrannasveitarfélög.  Farþegafjöldi með Herjólfi hefur rúmlega tvöfaldast og almenn ánægja er með siglingar. Með það í huga munu innanríkisráðuneytið, Siglingastofnun, Vegagerðin og Vestmannaeyjabær í sameiningu leita allra leiða til að nýta Landeyjahöfn sem best til ársins 2015 jafnvel þótt slíkt verði með takmörkunum.

Innanríkisráðherra fjallaði um málefni Landeyjahafnar á blaðamannafundi í dag. Frá vinstri: Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri.

Frá blaðamannafundi innanríkisráðherra um málefni Landeyjahafnar.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum