ÍSLAND 85% EVRÓPA 30%
Fjölgun ferðamanna
milli 2000 – 2011 er Íslandi í hag
Á síðustu árum státar Ísland af mun meiri fjölgun ferðamanna en almennt gerist í Evrópu og heiminum öllum. Meðalvöxtur í komu erlendra ferðamanna hingað til lands frá árinu 2005 hefur verið rúm 7% á ári á sama tíma og fjölgun ferðamanna í heiminum hefur verið að meðaltali um 3,5% og 2,2% í Evrópu samkvæmt tölum frá Alþjóða ferðamálastofnuninni. Og sé allur áratugurinn 2000-2011 hafður undir þá sést að ferðamönnum til Íslands hefur fjölgað um 85% samanborið við 30% fjölgun í Evrópu og 45% fjölgun ferðamanna í heiminum öllum.
Það vekur jafnframt athygli að sveiflur í komu erlendra ferðamanna milli sumars og annarra árstíða er mun meiri hér en víðast hvar annars staðar. Áskorunin er því að draga úr þessari árstíðarsveiflu með því að auka fjölda ferðamanna utan háannatímans.
Þetta er meðal þess sem kom fram á málþingi um Ferðaþjónustu og fjárfestingar sem haldið var í samstarfi iðnaðarráðuneytisins, Íslandsstofu og Landsbankans.