Hoppa yfir valmynd
29. mars 2012 Matvælaráðuneytið

Ræða efnahags- og viðskiptaráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands 2012

Góðir fundargestir,

Það er mér sérstök ánægja að ávarpa ársfund Seðlabankan Íslands þótt svo að sé gert með fremur óvenjulegum hætti að þessu sinni. Ég vil nota tækifærið til að bjóða nýjan meðlim peningastefnunefndar bankans, Katrínu Ólafsdóttur, lektor velkomna til starfa og þakka Ann Sibert sem vikið hefur úr nefndinni fyrir gott starf og mikilvægt framlag í því endurreisnarstarfi sem nú á sér stað innan Seðlabankans.

Það er mikið ánægjuefni að efnahagsbatinn skuli hafa hafist á síðasta ári eftir langa og djúpa kreppu. Eftir 3,1% hagvöxt í fyrra er útlit fyrir áframhaldandi vöxt á þessu ári. Í þessu sambandi skiptir ekki síst máli að atvinnuvegafjárfesting er farin að glæðast, sem er forsenda öflugs, sjálfbærs hagvaxtar til framtíðar. Umskipti á efnahagsreikningum fyrirtækjanna  eftir skuldauppgjör og gengislánadóma Hæstaréttar auðvelda fyrirtækjum í landinu að nýta bætta samkeppnisstöðu hagkerfisins til sóknar. Vöxtur einkaneyslu er einnig fagnaðarefni – enda byggist hann á auknum tekjum, minna atvinnuleysi og minnkandi óvissu um framtíðarhorfur. Mikilvægt er að einstaklingar og fyrirtæki nýti bætta sér fjárhagsstöðu til skuldalækkunar – enda felst áhætta í mikilli skuldsetningu, bæði fyrir þá sem bera skuldirnar og hagkerfið í heild. Vöxtur hagkerfisins hefur líka leitt til bata á vinnumarkaði með lækkandi atvinnuleysi og fjölgun starfa.  Aukin atvinna og minnkandi ójöfnuður í samfélaginu, sem nýlegar tölur Hagstofunnar staðfesta, leggja grunninn að sterku samfélagi og þrautseigu hagkerfi. 

Góð staða helstu útflutningsgreina er einnig mikið ánægjuefni. Loðnuvertíðin mun skila drjúgum tekjuauka og hvert metið af öðru fellur í ferðamannaiðnaðinum með 10-20% árlegri fjölgun ferðamanna. Aukinn fjöldi ferðamanna – og ekki síst sífellt lengra ferðamannatímabil – skilar sér í mikilvægum gjaldeyrstekjum og uppbyggingu víða um land.

Ólga á alþjóðamörkuðum – ekki síst í Evrópu – hefur þó gert endurreisn hagkerfisins erfiðari en ella. Þrátt fyrir að íslenska fjármálakerfið sé í vari gjaldeyrishafta  hefur umrótið á fjármálamörkuðum heimsins veruleg áhrif bæði á erlenda fjárfestingu og aðgengi innlendra aðila, þar með talið ríkissjóðs, að erlendu fjármagni. Nú eru þó víða jákvæðari teikn á lofti frá því sem var undir lok síðasta árs – og er íslenskt efnahagslíf vel í sveit sett til þess að nýta sér bætta tíma.

Þrátt fyrir mikinn árangur við endurreisn hagkerfisins á undanförnum árum er enn mikið verk fyrir höndum – ekki síst við mótun heildarumgjarðar fjármálamarkaðarins og að byggja upp traust á peningastefnunni.

Það er mikið til vinnandi að koma í veg fyrir að fjármálakerfið geti á ný ógnað hagkerfinu og jafnvel innviðum samfélagsins. Mikilvægt er að styrkja enn frekar regluverk fjármálamarkaðarins og tryggja að eftirlitsstofnanir hafi nægilegt fjármagn og þekkingu til þess að sinna sínum verkefnum. Þess utan er mikilvægt að fjármögnun bankanna tryggi að þeir geti staðist erfitt árferði, og ef illa fer að kostnaðurinn af fjárhagserfiðleikum falli á eigendur bankanna frekar en almenning. Í þessu samhengi þarf að tryggja samhæft regluverk og eftirlit með öllu fjármálakerfinu – að eftirlitið með hverju og einum þætti fjármálakerfisins sé vel tengt eftirlitinu með kerfinu í heild. Bætt samstarf Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, ekki síst með samstarfssamningi stofnanna tveggja, er mikilvægt í því sambandi. Það má aldrei gerast aftur að fjármálakerfið vaxi okkur yfir höfuð og eftirlitsstofnanir með fjármálamarkaði bregðist hlutverki sínu. Með þeim stjórnkerfisumbótum sem taka munu gildi 1. september næstkomandi verður einnig til öflugt ráðuneyti fjármála og efnahagsmála sem tekið getur virkan þátt í nauðsynlegu samráði og samhæfingu vegna framkvæmdar efnahagsstefnunnar.

Til þess að örva umræðu um þessi mál og styrkja framgang þess var lögð fram í ríkisstjórn í síðustu viku skýrsla um Framtíðarskipan fjármálakerfisins. Þar eru ekki lagðar fram fastmótaðar tillögur, en aftur á móti fjallað um  meginviðfangsefni og viðhorf á þessu sviði með opnum hætti og með vísan til alþjóðlegrar þróunar. Markmiðið er að til verði aðhaldssöm umgjörð og sanngjarnar leikreglur sem stuðla að því að hér á landi verði starfandi öruggt og skilvirkt fjármálakerfi af hæfilegri stærð fyrir okkar samfélag.

 

Nú verður svo í framhaldi settur á fót sérfræðingahópur sem á að vinna að tillögum upp úr skýrslunni.  Í sérfræðingahópnum eru Gavin Bingham, fv. framkvæmdastjóri Central Bank Governance Forum hjá BIS í Basel, Jón Sigurðsson, fv. forstjóri Norræna fjárfestingarbankans (NIB) í Helsingfors og Kaarlo Jännäri, fv. forstjóri fjármálaeftirlits Finnlands. Í skýrslunni er fjallað um ýmis álitaefni, m.a. um aðskilnað fjárfestingastarfsemi og almennrar viðskiptabankastarfsemi. Í nágrannaríkjum okkar eru uppi sambærilegar spurningar um aðskilnað. Í kjölfar kreppu hafa menn í áranna rás oftast ákveðið að setja strangari reglur um fjárhag fjármálafyrirtæki en áður giltu. Í tilfelli Íslands er augljóst að einhverjar reglur um aðskilnað verða skoðaðar í framhaldi af ítarlegri umfjöllun um þessi mál í nýútkominni skýrslu.

Í umræðu um þessi mál er mikilvægt að horfa bæði til okkar eigin reynslu undanfarin ár og þeirrar miklu gerjunar sem er í þessum málum á alþjóðavísu. Sams konar umræður fara nú fram í nágrannaríkjunum en óvíða hefur verið ákveðið hvernig fara skuli með þessi mál til frambúðar. Aukinn þrýstingur er þó um niðurstöðu í þessum málum vegna innleiðingar á næsta ári á nýrri bankalöggjöf fyrir innri markað Evrópu sem byggir á Basel III regluverkinu.

Aukið og bætt eigið fé er mikilvægur þáttur í þeim breytingum sem þar eru gerðar, en öllum má vera ljóst að þær kröfur sem gerðar voru fram að hruni voru ófullnægjandi. Þær kröfur sem nú eru gerðar til íslenskra banka byggja á kröfum Fjármálaeftirlitsins sem settar voru fram við stofnun þeirra og eru mun stífari en lögbundnar lágmarkskröfur. Þessar auknu kröfur FME eiga að öðru óbreyttu að gilda fram í ágúst á þessu ári. Óheppilegt getur hins vegar verið að lækka kröfur um eigið fé bankanna nú þegar hyllir undir að nýtt og stífara regluverk verður innleitt. Þess utan er hætt við að eiginfjárkröfur sem verða innleiddar með nýja regluverkinu verði lægri en það sem best væri út frá heildarhagsmunum hagkerfisins og þjóðfélagsins alls. Það gæti því verið ákjósanlegt að lögleiða hærri eiginfjárkröfur strax nú í haust – áður en nýja evrópska bankalöggjöfin tekur gildi. Þær kröfur gætu þá tekið mið af þeim kröfum sem nýja evrópska regluverkið gerir ráð fyrir auk núverandi lágmarkskrafa FME og þróunar í nágrannaríkjum. 

Umræðan um framtíðarfyrirkomulag peninga- og gjaldmiðislmála þarf að fara fram að yfirvegun. Á heildina litið hefur krónan reynst okkur Íslendingum vel eftir hrun. Aðlögun hagkerfisins hefur orðið hraðari vegna hennar og útflutningsgreinarnar notið góðs af falli hennar sem hefur stutt við batann. Ef  Íslendingar hefðu verið aðilar að evrunni við núverandi aðstæður eru miklar líkur á því að dökkustu spár manna um þróun atvinnuleysis á útmánuðum 2008 hefðu ræst og hér væri yfir 20% atvinnuleysi.

Það breytir ekki því að í gjaldmiðlamálum stöndum við Íslendingar frammi fyrir stórum verkefnum og ýmsum veigamiklum spurningum. Stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir á þessu sviði er afnám gjaldeyrishafta. Seðlabankinn hefur lagt fram áætlun um afnám haft sem nú er unnið eftir og mátti á dögunum sjá árangur í þeirri áætlun þegar niðurstaða kom í gjaldeyrisútboð þann 15. febrúar. Umframeftirspurn var í útboðinu og skilaði það yfir 30 mia. kr. í gjaldeyri og ríkisskuldabréf.

 

Á vegum efnahags- og viðskiptaráðherra starfar nú þverpólitísk nefnd sem skoðar m.a. frekari leiðir í að afnema gjaldeyrishöft. Það er von mín að sú nefnd komi með tillögur sem geti stutt Seðlabankann og stjórnvöld við að flýta fyrir afnámi haftanna. Eftir að tekist hefur að laga stöðu ríkissjóðs, ljúka við samstarfsáæltun AGS, koma ríkissjóði aftur á erlendan markað og koma á fót nýju fjármálakerfi er ljóst að næsta risaverkefni á sviði efnahagsmála er hvernig höftin verða afnuminn. Til viðbótar við þá áætlun sem nú er í gildi og starf haftanefndarinnar tel ég mikilvægt að fyrir liggi ítarlegri greining á þróun greiðslujafnaðar á næstu árum. Slík greining mun þjóna okkur sem góður grundvöllur fyrir frekara afnámi haftanna.

Um framtíð Íslands í gjaldmiðlamálum er margt hægt að segja og sýnist þar sitt hverjum. Nefndur er kanadadollar, norsk króna, dollar, upptaka evru eða tengingu við evru og einhliða gjaldmiðils eða gjaldmiðlasamstarf. Nýverið tók til starfa nefnd til samráðs um mótun gengis- og peningamálastefnu en í þeirri nefnd sitja fulltrúar allra flokka auk fulltrúa SA og ASÍ. Markmið nefndarinnar er að tryggja víðtækt samráð og vandaðan undirbúning við mótun peningamálastefnu.  Nefndinni er falið að kanna hverjir eru helstu kostir og gallar við mismunandi leiðir í langtíma fyrirkomulagi gjaldeyris- og peningamála á Íslandi.  Nefndin mun skila ráðherra greinargerð í vor og þá verður metið hvort nefndin starfi áfram. Bæði verkefnið um afnám haftanna og spurningunni um framtíð gjaldmiðlamála verður að nálgast af varúð, enda mikið undir, og er gott ráð fyrir alla að vera tortryggna á hvers kyns skyndilausnir í þessum efnum. Hér um mikla hagsmuni að ræða og því ekki hægt að taka óþarfa áhættur.

Að lokum er ágætt að nefna hversu ánægjulegt er að þrátt fyrir margháttaða erfiðleika er íslenskt efnahagslíf komið langa leið í að skilja við erfiðleika efnahagskerfisins. Spádómar úrtölumanna, en þeim snarfjölgaði eftir hrun, eru hraktir með reglulegu millibili. Fyrir utan þær ánægjulegu vísbendingar sem ég rakti hér í upphafi erindis míns að þá var það mikill áfangi þegar greitt var fyrirfram 20% af lánum frá samstarfsþjóðum okkar. Við það lækkaði erlend skuldastaða þjóðarbúsins um meira en 6% og hefur það vakið víða athygli enda munar um minna. Áhuginn á stöðu Íslands er mikill og þá sá árangur sem við höfum náð í okkar erfiðu glímu. Það er m.a. ástæða þess að ég ávarpa ykkur hér í mynd en ekki í eigin persóna þar sem ég er staddur í Kanada að hitta þarlend yfirvöld til að m.a. kynna þeim okkar vegferð. 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum