Hoppa yfir valmynd
30. mars 2012 Dómsmálaráðuneytið

Kjör forseta Íslands 2012

Kjörtímabil forseta Íslands rennur út 31. júlí 2012. Í samræmi við lög um framboð og kjör forseta Íslands nr. 36/1945, með síðari breytingum, skal forsetakjör fyrir næsta fjögurra ára tímabil fara fram laugardaginn 30. júní 2012.

Bessastaðir.
Bessastaðir.

Undirbúningur stjórnvalda að kosningunum hófst með því að forsætisráðherra auglýsti kosninguna 20. mars 2012 og tilgreindi lágmark og hámark kosningarbærra meðmælenda úr hverjum landsfjórðungi.

Framboðum til forsetakjörs skal skila til innanríkisráðuneytisins fyrir miðnætti föstudaginn 25. maí 2012. Framboðunum skal fylgja samþykki forsetaefnis, nægilegur fjöldi meðmælenda sem vottaður skal af viðkomandi yfirkjörstjórn um að meðmælendurnir séu kosningarbærir.

Lög um framboð og kjör forseta Íslands kveða ekki nánar á um hvernig meðmæli skuli úr garði gerð. Í lögunum er þó tekið fram að við undirbúning kosningaathafnarinnar skuli fara samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á. Í 1. mgr. 32. gr. og 2. mgr. 33. gr. þeirra laga er gert ráð fyrir skriflegri yfirlýsingu meðmælenda um stuðning við framboðslista og að sami kjósandi megi ekki mæla með nema einum lista við sömu kosningar. Við forsetaframboð mun því sama gilda um forsetaefni. Með hliðsjón af þessu hefur innanríkisráðuneytið gert sérstökt  eyðublöð fyrir meðmælendur til undirritunar, sem forsetaefni geta nýtt sér við framboðið. Sér eyðublað er gert fyrir hvern landsfjórðung og má nálgast þau hér á heimasíðu ráðuneytisins.

Eigi síðar en 31. maí 2012 skal innanríkisráðuneytið auglýsa í útvarpi og Lögbirtingablaði hverjir séu í kjöri til forsetaembættisins.

Undirkjörstjórnir og yfirkjörstjórnir eru hinar sömu og við alþingiskosningar, en auk þessara kjörstjórna gegnir Hæstiréttur Íslands sérstöku hlutverki við forsetakjör eins og nánar er lýst í lögum um framboð og kjör forseta Íslands.

Allar yfirkjörstjórnir senda Hæstarétti Íslands eftirrit úr gerðabókum ásamt ágreiningsseðlum. Hæstiréttur boðar forsetaefni eða umboðsmenn þeirra til fundar þar sem rétturinn úrskurðar um gildi ágreiningsseðlanna, lýsir úrslitum kosninganna og gefur út kjörbréf handa því forsetaefni, sem hæstri atkvæðatölu hefur náð.

Hvað varðar kosningaathöfnina sjálfa, sem og undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað fer að öðru leyti eftir lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar skal hefjast svo fljótt sem kostur er eftir að kosning hefur verið auglýst, þó ekki fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Innanríkisráðuneytið mun auglýsa hvenær kosning utan kjörfundar hefst.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira