Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2012 Forsætisráðuneytið

Fundur forsætisráðherra Íslands og Kína í Þjóðmenningarhúsi í dag

Fundur forsætisráðherranna og sendinefnda í Þjóðmenningarhúsi
07 Fundur forsætisráðherranna og sendinefnda í Þjóðmenningarhúsi

Forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, kom í dag ásamt föruneyti í opinbera heimsókn til Íslands í boði Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Þetta er fyrsta opinbera heimsókn starfandi kínversks forsætisráðherra hingað til lands.

Forsætisráðherrar Kína og Íslands funduðu síðdegis í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík. Fundinn sátu einnig Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og starfandi efnahags- og viðskiptaráðherra og Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra  og starfandi iðnaðarráðherra. Ellefu ráðherrar og vararáðherrar eru í för með forsætisráðherra Kína og sátu þeir fundinn, þar á meðal utanríkisráðherra og viðskiptaráðherra Kína.

Forsætisráðherrarnir ræddu um tvíhliða samstarf ríkjanna og viðskiptamálefni. Var sérstök áhersla lögð á viðskiptatækifæri og starfsemi íslenskra fyrirtækja í Kína, og þær samningaviðræður sem eru í gangi milli ríkjanna, þ. á m. um gerð fríverslunarsamnings, sem nú verður lögð sérstök áhersla á að ljúka á næsta ári. Forsætisráðherra ræddi stöðu mannréttindamála í Kína, samfélagsleg réttindi og alþjóðlegar skuldbindingar. Hún kynnti forsætisráðherranum einnig hugmyndir um aukið samstarf Íslands og Kína á sviði jafnréttismála, og var ákveðið að fylgja eftir hugmyndum um jafnréttissamstarf með frekara samráði á næstu mánuðum.  

Málefni norðurslóða og samstarf á því sviði voru einnig til umræðu á fundinum en eftir fundinn voru tveir samningar um það efni undirritaðir af  utanríkisráðherrum ríkjanna. Með þessum samningum skapast ýmis tækifæri á sviði aukinnar rannsóknarsamvinnu íslenskra og kínverskra vísindamanna.

Þá ræddu ráðherrarnir jarðhitanýtingu og samstarf Íslands og Kína í þeim málum á alþjóðavettvangi sem og innan Kína.  Forsætisráðherra Kína er jarðfræðingur og hefur sýnt mikinn áhuga á jarðhitanýtingu og náttúru Íslands. Hann mun kynna sér þau mál sérstaklega í heimsókn sinni hingað til lands, meðal annars starfsemi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktur hefur verið á Íslandi síðan 1979.

Forsætisráðherra Kína hrósaði Íslandi fyrir árangur sinn í uppbyggingu eftir efnahagshrunið. Jafnframt bauð hann forsætisráðherra Íslands að sækja Kína heim í opinbera heimsókn við fyrsta tækifæri.

Ísland er fyrsta landið sem heimsótt er í fjögurra landa ferð forsætisráðherrans en frá Íslandi fer hann til Þýskalands, þá Svíþjóðar og loks til Póllands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira