Hoppa yfir valmynd
4. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Móttaka flóttafólks árið 2012

Afganskir flóttamenn í Yazd í Íran
Afganskir flóttamenn í Yazd í Íran

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að taka á móti allt að átta afgönskum flóttamönnum sem búsettir eru í Íran. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu velferðarráðherra og utanríkisráðherra þessa efnis á fundi sínum í dag en tillagan er gerð í samráði við flóttamannanefnd. Stefnt er að því að flóttamennirnir komi hingað til lands í sumar.  

Tillagan um móttöku flóttamannanna er byggð á tilmælum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem lagði áherslu á stöðu afganskra flóttamanna í Íran auk þess sem stofnunin lagði áherslu á aðstoð við konur sem skilgreindar eru í hættu (e. women at risk), án þess að útiloka aðra berskjaldaða hópa.

Flóttamannanefnd bendir á að samhliða versnandi efnahagsástandi í Íran hafi fordómar í garð flóttafólks og kerfislæg mismunun gagnvart þeim aukist. Staða afganskra kvenna í Íran sé sérstaklega slæm, þær búi flestar við einangrun auk þess sem efnahags-, félags- og lagalegar hindranir komi í veg fyrir að þær njóti fullra mannréttinda. Eins er bent á að einstæðar konur og mæður séu sérstaklega varnarlausar þar sem menning og hefðir geri kröfu um að karlmaður sé höfuð fjölskyldunnar, möguleikar til framfærslu og fæðuöflunar séu litlir auk þess sem réttindi kvenna í landinu séu takmörkuð. Flóttamenn þurfa að greiða fyrir atvinnuleyfi og menntun barna og ferðafrelsi þeirra er takmarkað.

Í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar í dag mun flóttamannanefnd og Útlendingastofnun vinna að framkvæmd málsins en Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna mun veita aðstoð við val þeirra flóttamanna sem boðið verður til Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum