Hoppa yfir valmynd
21. maí 2012 Félagsmálaráðuneytið

Eitt húsnæðisbótakerfi fyrir alla, óháð búsetuformi

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Lúðvík Geirsson formaður vinnuhópsins
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Lúðvík Geirsson formaður vinnuhópsins

Vinnuhópur á vegum velferðarráðherra leggur til að tekið verði upp nýtt og gjörbreytt húsnæðisbótakerfi sem tryggir öllum sama rétt til fjárhagsstuðnings hins opinbera, óháð búsetuformi. Kerfið myndi koma í stað vaxtabóta og húsaleigubóta. Lúðvík Geirsson, formaður vinnuhópsins kynnti tillögur um nýtt kerfi, útfærslur og innleiðingu þess á fréttamannafundi í velferðarráðuneytinu í dag.

Hópurinn leggur áherslu á að húsnæðisstuðningur verði óháður búsetuformi, hvort sem fólk kýs að búa í eigin húsnæði, leiguhúsnæði eða búseturéttaríbúðum, en í gildandi kerfi eru almennar húsaleigubætur mun lægri en vaxtabætur og uppbygging kerfanna ólík. Gert er ráð fyrir að húsnæðisbætur taki mið af fjölskyldustærð, óháð aldri fjölskyldumeðlima og verði að fullu greiddar úr ríkissjóði, en í gildandi kerfi annast sveitarfélög greiðslu húsaleigubóta. Jafnframt verði teknar upp viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um fyrirkomulag aðstoðar við heimili sem þurfa meiri stuðning en felst í nýju húsnæðisbótakerfi. Miðað er við að húsnæðisbætur verði samtímagreiðslur líkt og húsaleigubætur eru nú en sama máli gegnir ekki um vaxtabætur sem eru greiddar út árlega.

Mikilvægt skref í innleiðingu heildstæðrar húsnæðisstefnu

Í apríl 2011 voru kynntar niðurstöður samráðshóps velferðarráðherra um húsnæðisstefnu stjórnvalda sem í meginatriðum felast í upptöku húsnæðisbóta, að hið opinbera stuðli að auknu framboði af leigu- og búseturéttaríbúðum og að öflun og miðlun upplýsinga um húsnæðismál verði efld. Tillögur vinnuhóps um húsnæðisbætur í stað vaxta- og húsaleigubóta eru mikilvægur áfangi í innleiðingu nýrrar húsnæðisstefnu og stærsta skrefið til að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera.

Tillögur vinnuhópsins miða að því að smíða stuðningskerfi til framtíðar sem ekki hvetur til skuldasöfnunar heimila og þar sem allir sitja við sama borð, óháð búsetuformi. Tillögurnar eru eftirfarandi:

  • Húsnæðisstuðningur verði óháður búsetuformi.
  • Húsnæðisbætur taki mið af fjölskyldustærð, óháð aldri fjölskyldumeðlima.
  • Upphæð óskertra húsnæðisbóta einstaklings taki mið af þeim kostnaði sem grunnneysluviðmið velferðarráðuneytisins gera ráð fyrir að fólk þurfi að lágmarki til framfærslu að viðbættum húsnæðiskostnaði sem svarar til meðalhúsaleigu á höfuðborgarsvæðinu.
  • Skerðing húsnæðisbóta taki mið af öllum skattskyldum tekjum heimilisins.
  • Skerðingu húsnæðisbóta vegna tekna verði stillt í hóf til að halda neikvæðum jaðaráhrifum í lágmarki.
  • Húsnæðisbætur verði samtímagreiðslur líkt og húsaleigubætur í núverandi kerfi.
  • Nýtt húsnæðisstuðningskerfi verði innleitt í áföngum.
  • Húsnæðisbætur verði að fullu greiddar úr ríkissjóði. Er þá miðað við að tekjustofnar verði endurskoðaðir þannig að sveitarfélögin verði jafnsett fyrir og eftir breytinguna.
  • Teknar verði upp viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um fyrirkomulag aðstoðar við heimili sem þurfa meiri fjárhagslegan stuðning en felst í nýju húsnæðisbótakerfi.
  • Tekjuskerðingarmörk húsaleigubóta hækki um 12,5% (kom til framkvæmda í janúar 2012).

Skýrsla vinnuhóps um húsnæðisbætur
Glærur frá kynningarfundi um húsnæðisbætur

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira