Hoppa yfir valmynd
23. maí 2012 Innviðaráðuneytið

Samkomulag um endurskipulagningu fjármála Sveitarfélagsins Álftaness

Fjárhaldsstjórn Sveitarfélagsins Álftaness hefur náð samkomulagi um lækkun skulda og skuldbindinga  sveitarfélagsins en fjárhaldsstjórnin hefur síðustu misseri unnið með sveitarstjórninni að endurskipulagingu fjármála sveitarfélagsins. Forsenda samkomulagsins er sameining sveitarfélaganna Álftaness og Garðabæjar.

Fjárhaldsstjórn Sveitarfélagsins Álftaness og fulltrúar sveitarfélagsins ræddu við innanríkisráðherra á fundi í dag.
Fjárhaldsstjórn Sveitarfélagsins Álftaness og fulltrúar sveitarfélagsins ræddu við innanríkisráðherra á fundi í dag.

Fjárhaldsstjórnin gerði innanríkisráðherra í dag grein fyrir helstu þáttum samkomulagsins. Samkvæmt því er áætlað að skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins verði rúmlega 3,2 milljarðar króna í lok ársins 2012 en þær voru alls rúmlega 7,2 milljarðar árið 2009. Tekist hefur að hagræða verulega í rekstri sveitarfélagsins og var rekstrarafgangur af reglulegri starfsemi á síðasta ári og samkvæmt áætlun endurskoðanda sveitarfélagsins er einnig gert ráð fyrir rekstrarafgangi á þessu ári.

Samkomulagið gerir ráð fyrir því að Álftanes sameinist öðru sveitarfélagi. Viðræður hafa farið fram milli fulltrúa Álftaness og Garðabæjar síðustu misseri og mun þeim nú haldið áfram. Gert er ráð fyrir að fjárhaldsstjórnin starfi þar til niðurstaða er fengin um sameiningu sveitarfélaganna.

Auk fulltrúa fjárhaldsstjórnar voru fulltrúar Sveitarfélagsins Álftaness og Sambands íslenskra sveitarfélaga viðstaddir þegar ráðherra var tilkynnt um samkomulagið. Kom fram ánægja beggja aðila með samstarfið og að fullur trúnaður og traust hefði verið milli manna í þessari vinnu.

Forsagan
Fjárhaldsstjórn var skipuð í febrúar 2010 af þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) hafði haft málefni Sveitarfélagsins Álftaness frá því að nefndin ritaði sveitarfélaginu bréf þann 24. september 2009. Þann 5. nóvember tilkynnti síðan sveitarstjórn EFS að Sveitarfélagið Álftanes væri komið í fjárþröng og í framhaldi af því var fjárhaldsstjórn skipuð með vísan til 1. mgr. 76. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

Fjárhaldsstjórn er þannig skipuð:

  • Andri Árnason hrl, tilnefndur af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
  • Elín Guðjónsdóttir viðskiptafræðingur, tilnefnd af fjármálaráherra að ósk samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
  • Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum