Hoppa yfir valmynd
19. júní 2012 Innviðaráðuneytið

Samgönguáætlanir samþykktar á Alþingi

Fjögurra ára og tólf ára samgönguáætlanir voru samþykktar á Alþingi í dag. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði þegar áætlanirnar höfðu verið afgreiddar að þetta væri fagnaðarefni, með auknum fjármunum væri hægt að ráðast í ýmsar mikilvægar framkvæmdir svo sem jarðgöng, brúargerð, breikkun vega, endurbætur á tengivegum auk stórátaks í eflingu almenningssamgangna.

Fjallað var um ýmsar hliðar samgöngu- og umferðarmálamála á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar í dag.
Fjallað var um ýmsar hliðar samgöngu- og umferðarmálamála á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar í dag.

Innanríkisráðherra sagði einnig að fjölmargir hefðu komið að mótun samgönguáætlana og þakkaði hann hlut samgönguráðs og þar með allra samgöngustofnana, sveitarfélaga, landshlutasamtaka sveitarfélaga, félagasamtaka, einstaklinga og hann minnti einnig á mikilvægi umræðna á fundum og ráðstefnum. Áætlanirnar væru þó fyrst og fremst byggðar á stefnumörkun ríkisstjórnarinnar en Alþingi með verkstjórn umhverfis- og samgöngunefndar ræki síðan endahnútinn á verkið. Ráðherra sagði mikilvægt það lýðræðislega ferli sem nú væri orðið opnara og víðtækara en áður þegar alþingismenn hefðu komið að málum fyrst og fremst á grundvelli kjördæma sinna. Slík breyting hefði verið góðs. Áherslurnar væru á eflingu almenningssamgangna og öryggismála. Taldi hann að vel hefði tekist til ekki síst með tilliti til bágs fjárhags ríkisins.

Báðar áætlanirnar voru samþykktar með 43 samhljóða atkvæðum en fjórir þingmenn greiddu ekki atkvæði og nokkrir voru fjarstaddir. Meðal breytinga sem gerðar voru á fjögurra ára áætluninni í meðförum Alþingis er að framkvæmdir við Norðfjarðargöng eiga að hefjast fyrr en í upphafliegu tillögunni eða á næsta ári með 1.200 milljóna króna framlagi. Framlagið verði síðan 2.500 milljónir króna árið 2014. Í langtímaáætlun er gert ráð fyrir að göngunum verði lokið á öðru fjögurra ára tímabili áætlunarinnar með alls 6.800 milljóna króna framlagi og að í framhaldi af því verði lagðir 6 milljarðar króna í önnur göng. Þá gerir langtímaætlunin ráð fyrir að á öðru og þriðja tímabili hennar verði lagðar 250 milljónir króna á hvoru tímabili til rannsókna á jarðgöngum. Samþykkt var sú breytingartillaga 8 þingmanna Norðausturkjördæmis að setja inn neðanmálsgrein þess efnis að miðað verði við að rannsóknum og undirbúningi Seyðisfjarðarganga verði hagað með þeim hætti að hægt verði að hefja framkvæmdir við jarðgöng undir Fjarðarheiði í kjölfar Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira