Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýmæli vegna starfslauna listamanna fyrir árið 2013

Ráðherra hefur að tillögu stjórnar listamannalauna samþykkt að til viðbótar því að einstakir listamenn geti sótt um starfslaun til skilgreinds verkefnis í ákveðinn launasjóð verði bryddað upp á eftirgreindum nýmælum við úthlutun starfslauna listamanna fyrir árið 2013.

Ráðherra hefur að tillögu stjórnar listamannalauna samþykkt að til viðbótar því að einstakir listamenn geti sótt um starfslaun til skilgreinds verkefnis í ákveðinn launasjóð verði bryddað upp á eftirgreindum nýmælum við úthlutun starfslauna listamanna fyrir árið 2013:

 1. Gefinn verði kostur á að sækja um starfslaun vegna skilgreindra samstarfsverkefna:
  1. Fleiri en einn listamaður/hópur geta sótt um starfslaun í sama sjóð fyrir skilgreint samstarfsverkefni.
  2. Fleiri en einn listamaður/hópur geta sótt um starfslaun í mismunandi sjóði fyrir skilgreint samstarfsverkefni.
 2. Gefinn verði kostur á einstaklingsumsóknum um starfslaun í mismunandi sjóði, falli verkefnið undir fleiri sjóði en einn.

Tillögur stjórnar listamannalauna miða að því að mæta þörfum listamanna er kjósa að vinna sameiginlega að samstarfsverkefnum. Fram til þessa hefur launasjóður sviðslistafólks verið einn um að bjóða upp á umsóknir um starfslaun vegna samstarfsverkefna, en vissulega má finna samstarf tveggja eða fleiri listamanna, ýmist í sömu listgrein eða í fleiri listgreinum. Einstaklingar í hópi listamanna vinna einnig að verkefnum sem falla undir fleiri en einn launasjóð.

Stjórn listamannalauna tekur eftirfarandi dæmi til að skýra málið frekar: Tónlistarmaður, sem hvort tveggja semur tónlist og flytur, getur í einni og sömu umsókn sótt um starfslaun fyrir skilgreindan hluta verkefnisins til launasjóðs tónskálda og annan skilgreindan hluta til launasjóðs tónlistarflytjenda. Á sama máta getur listamaður, sem er rithöfundur og myndlistarmaður, sótt um starfslaun fyrir hluta verkefnis í launasjóð rithöfunda og annan hluta verkefnisins í launasjóð myndlistarmanna. Tónlistarhópur getur sótt um starfslaun til að vinna að samstarfsverkefni, frumsköpun og flutning eða öðru hvoru. Tvíeyki eða hópur myndlistarmanna getur sótt um starfslaun til samstarfsverkefnis í launasjóð myndlistarmanna. Hópur listamanna úr mismunandi listgreinum getur sótt um starfslaun til samstarfsverkefnis í þá launasjóði sem um er að ræða í hverju tilviki fyrir sig.

Í öllum ofangreindum tilvikum, þar sem sótt er um starfslaun til samstarfsverkefnis, skal gerð grein fyrir þeim mánaðafjölda sem hver einstaklingur í samstarfsverkefninu sækir um. Þegar sótt er um starfslaun vegna verkefnis í fleiri en einn launasjóð, hvort heldur einn einstaklingur eða fleiri standa að umsókninni, fjalla viðkomandi úthlutunarnefndir sameiginlega um umsóknina.

Sérstök eyðublöð verða útbúin fyrir ofangreindar umsóknir. Mánaðarlaun verða greidd út á persónulega kennitölu hvers umsækjanda.

 • Auglýst hefur verið eftir starfslaunum listamanna 2013. Umsóknareyðublöð verða aðgengileg frá og með 20. ágúst nk. á vefslóðinni http://minarsidur.stjr.is.

Frestur til að sækja um starfslaun listamanna 2013 rennur út kl. 17:00 þriðjudaginn 25. september nk.

Brýnt er fyrir væntanlegum umsækjendum að ganga tímanlega frá umsóknum til að forðast of mikið álag á umsóknarkerfið og skrifstofu listamannalauna á síðasta umsóknardegi.

Ráðherra hefur skipað stjórn listamannalauna fyrir tímabilið 10. október 2012 til 1. október 2015. Stjórnin er þannig skipuð:

 • Birna Þórðardóttir formaður, skipuð án tilnefningar,
 • Margrét Bóasdóttir varaformaður, tilnefnd af Bandalagi íslenskra listamanna,
 • Kristján Steingrímur Jónsson tilnefndur af Listaháskóla Íslands.

Varamenn eru:

 • Njörður Sigurjónsson skipaður án tilnefningar,
 • Randver Þorláksson tilnefndur af Bandalagi íslenskra listamanna,
 • Sigrún Sigurðardóttir tilnefnd af Listaháskóla Íslands

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira