Hoppa yfir valmynd
5. september 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Reglugerðarbreyting vegna greiðsluþátttöku í tilteknum lyfjum

Lyfjamál
Lyfjamál

Velferðarráðherra hefur ákveðið breytingu á reglugerð nr. 403/2010 sem varðar skilyrta greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands við kaup á tilteknum lyfjum. Breytingin er sambærileg og gerð var í maí síðastliðnum vegna greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í geðrofslyfjum.

Lyfjaflokkarnir sem reglugerðarbreytingin tekur til eru meltingarfæralyf í flokki prótónpumpuhemla (AO2BC), blóðfitulækkandi lyf (C10A), blóðþrýstingslækkandi lyf (C09), beinþéttnilyf (M05B), astmalyf (R03A, R03B) og þunglyndislyf (N06AB, N06AX).

Reglugerðarbreytingin varðandi framantalda lyfjaflokka felst í því að í stað þess að skilyrða þak vegna greiðsluþátttöku þannig að ekki sé greitt fyrir lyf sem eru dýrari en nemur tilteknu hlutfalli af lægsta einingaverði eða dagskammti, líkt og verið hefur, er viðmiðið bundið ákveðinni krónutölu.

Auk þessa er bætt við nýjum lyfjaflokkum í flokki lyfja sem seld eru í lausasölu og njóta ekki niðurgreiðslu sjúkratrygginga nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem tilgreind eru í reglugerðinni.

Markmið þessara breytinga er að tryggja meiri stöðugleika í greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í þessum lyfjaflokkum og fyrirbyggja tíðar breytingar á greiðsluþátttöku í tilteknum lyfjum líkt og nokkuð hefur borið á undanfarið. Breytingarnar eiga því að vera til hagræðis fyrir alla aðila, hvort sem í hlut eiga sjúklingar, læknar, lyfsalar eða markaðsleyfishafar. Jafnframt er fyrirséð að þetta dragi úr þörf fyrir útgáfu lyfjaskírteina.

Aðgerðir stjórnvalda undanfarin þrjú ár til að stemma stigu við vaxandi lyfjakostnaði hafa skilað verulegum árangri. Skiptir þar miklu ákvörðun um að binda greiðsluþátttöku í þeim lyfjaflokkum sem hér um ræðir við ódýrustu lyfin, ásamt aukinni samkeppni og fjölgun samheitalyfja, líkt og fjallað er um í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þróun lyfjakostnaðar sem birt var í nóvember í fyrra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum