Hoppa yfir valmynd
11. október 2012 Dómsmálaráðuneytið

Ákvæðum kosningalaga um aðstoð við fatlaða kjósendur breytt

Alþingi samþykkti í dag breytingar á lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna og lögfesti því með skýrum hætti það nýmæli að fatlaðir kjósendur, sem lögin taka til, hafi með tilteknum skilyrðum sjálfir rétt til að ákveða hver aðstoði þá við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjörfundi.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra mælti fyrir lagabreytingunni 27. september síðastliðinn og eftir umræðu var frumvarpinu vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Nefndin fjallaði um málið á þremur fundum og fékk til sín meðal annars fulltrúa innanríkisráðuneytisins og ýmissa samtaka fatlaðra og umsagnir bárust frá fjölmörgum aðilum. Málið var síðan tekið til umræðu á Alþingi í dag sem samþykkti frumvarpið sem lög sem öðlast þegar gildi. Hægt verður að greiða atkvæði utan kjörfundar samkvæmt nýju ákvæðunum daginn eftir að lögin hafa verið birt í Stjórnartíðindum.

,,Ég tel þessa lagabreytingu mikið framfaraspor til aukinna mannréttinda,” segir Ögmundur Jónasson og segir málið hafa verið unnið í náinni samvinnu við Blindrafélagið – samtök blindra og sjónskertra á Íslandi og Öryrkjabandalag Íslands. ,,Mér þótti vænt um að heyra þau ummæli Guðmundar Magnússonar,  formanns Öryrkjabandalagsins, að með þessum lögum stæðum við Íslendingar öðrum Norðurlandaþjóðum framar að þessu leyti. Það er góð einkunn.”

Breytingin nær einungis til kjósenda sem ekki eru færir um að árita kjörseðla á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að þeim er hönd ónothæf. Þá nær lagabreytingin einnig til sömu kjósenda sem geta ekki sjálfir með skýrum hætti tjáð kjörstjóra eða kjörstjórn þennan vilja sinn og skulu þá kjörstjóri eða kjörstjórn heimila fulltrúa kjósandans að aðstoða hann við atkvæðagreiðsluna leggi kjósandinn fram vottorð réttindagæslumanns, sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem staðfest er að kjósandi hafi valið sjálfur tiltekinn nafngreindan fulltrúa sér til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna.

Lagabreytingarnar taka til kosninga til Alþingis, sveitarstjórna, þjóðaratkvæðagreiðslna og kjörs forseta Íslands. Lagabreytingarnar ná jafnt til atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjörfundi. Kjósendur þessir eru því ekki bundnir við aðstoð kjörstjóra í einrúmi eða fulltrúa úr kjörstjórn til að geta greitt atkvæði í kjörklefa. Í nýju lögunum segir einnig að fulltrúa kjósandans sé óheimilt að gerast fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu. Þá mæla lögin líka fyrir um að það sé refsivert fyrir fulltrúa kjósandans að segja frá því hvernig kjósandi sem hann hefur aðstoðað hefur greitt atkvæði og ennfremur ef fulltrúinn gerist fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu.

Breytingar verði kynntar og tölfræði safnað

Í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kemur fram að í tengslum við fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs hafi fyrirhugaðar breytingar verið kynntar formönnum yfirkjörstjórna allra kjördæma. Telur nefndin nauðsynlegt að breytingin verði kynnt þeim sem eiga að njóta þessara réttinda og gengur út frá því að hagsmunasamtök fatlaðs fólks sem kallað hafi eftir þessari réttarbót kynni félagsmönnum sínum breytingarnar.

Nefndin telur einnig nauðsynlegt að Hagstofa Íslands kalli eftir upplýsingum frá kjörstjórnum um fjölda þeirra sem nýta sér þessi ákvæði ásamt því að nýta sér aðstoð kjörstjóra og kjörstjórna eins og var fyrir í lögunum og nefndin telur einnig eðlilegt að velferðarráðuneytið leiti til viðkomandi félagasamtaka um hvernig félagsmenn þeirra líti á reynsluna af ákvæðunum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira