Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2012 Atvinnuvegaráðuneytið

Þrír skrifstofustjórar skipaðir í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu

Þann 1. september sl. voru auglýstar lausar til umsóknar þrjár skrifstofustjórastöður í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Um var að ræða embætti skrifstofustjóra afurða, embætti skrifstofustjóra innri þjónustu og rekstrar og embætti skrifstofustjóra viðskiptahátta. Umsóknarfresti lauk 17. september sl. og barst samtals 81 umsókn í ofangreindar stöður.

Um stöðu skrifstofustjóra á skrifstofu afurða sóttu 23, um stöðu skrifstofustjóra á skrifstofu innri þjónustu og rekstrar sóttu 38 og um stöðu skrifstofustjóra á skrifstofu viðskiptahátta sóttu 20.

Í samræmi við 19. grein laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands var þriggja manna hæfnisnefnd skipuð með erindisbréfi dags. 20. september 2012. Var nefndinni falið að fara yfir og leggja mat á umsóknir í samræmi við reglur nr. 293/2012 og lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í nefndinni sátu dr. Ásta Bjarnadóttir, sem var formaður nefndarinnar, Magnús Pétursson ríkissáttasemjari og Margrét Guðmundsdóttir forstjóri og formaður Félags atvinnurekenda.

Í samræmi við mat hæfnisnefndarinnar hefur ráðherra ákveðið að skipa eftirtalda í embætti skrifstofustjóra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu:

Halldór Runólfsson, yfirdýralækni Matvælastofnunar, í embætti skrifstofustjóra afurða, Guðrúnu Gísladóttir, forstjóra, í embætti skrifstofustjóra innri þjónustu og rekstrar og Valgerði Rún Benediktsdóttur, settan skrifstofustjóra, í embætti skrifstofustjóra viðskiptahátta.

Halldór hefur gegnt stöðu yfirdýralæknis í 15 ár en áður starfaði hann hjá Hollustuvernd ríkisins.

Guðrún Gísladóttir er viðskiptafræðingur með BSc gráðu frá Bifröst og meistaragráðu frá Háskóla Íslands. Guðrún hefur gegnt starfi forstjóra Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar síðustu níu árin.

Valgerður Rún Benediktsdóttir er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Valgerður Rún hefur stýrt skrifstofu viðskiptahátta frá stofnun ráðuneytisins og áður var hún settur skrifstofustjóri á skrifstofu viðskiptamála og fjármálamarkaðar í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta