Upplýsingaskiptasamningur við Panama
Fréttatilkynning nr. 14/2012
Undirritaður var í dag upplýsingaskiptasamningur Íslands við Panama. Að honum meðtöldum hefur Ísland undirritað 39 upplýsingaskiptasamninga við lögsagnarumdæmi með fjármálamiðstöðvar sem ætlað er að laða að sér starfsemi erlendra aðila og sem áður fyrr veittu ekki upplýsingar.
Upplýsingaskiptasamningurinn við Panama skiptir miklu máli þar sem Panama leikur mikilvægt hlutverk í skattaskipulagningu aðila sem reyna að komast undan greiðslu skatta. Með gerð þessa samnings eru slíkir aðilar hindraðir í því að flytja eignir til Panama frá löndum sem Ísland hefur þegar gert upplýsingaskiptasamning við.
Vert er að óska stjórnvöldum í Panama til hamingju með að hafa stigið mikilvægt skref í átt að innleiðingu alþjóðlegs staðals um gagnsæi og skipti á upplýsingum í skattamálum. Jafnframt eru þau hvött til að bregðast skjótt við og aðlagast að fullu slíkum staðli og gerast verðugur aðili i aljþóðlegu samfélagi fjármálamarkaða.
Norðurlöndin hafa í sameiningu unnið að gerð upplýsingaskiptasamninganna. Í því skyni að styrkja baráttuna gegn alþjóðlegum skattaflótta og til að trygga skilvirka beitingu upplýsingaskiptasamningana, hafa Norðurlöndin sett á fót nýjan vinnuhóp innan skattkerfisins sem ber heitið „Norrænn vinnuhópur gegn alþjóðlegum skattaflótta“. Hópurinn mun samræma aðgerðir innan Norðurlandanna gegn alþjóðlegum skattaflótta, deila með sér reynslu og bestu starfsvenjum, annast samskipti við samningsaðila ríkjanna og taka virkan þátt í vinnu ýmissa alþjóðastofnana sem efla gagnsæi og skipti á upplýsingum í skattamálum.