Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2012 Félags- og húsnæðismálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Átak í grunnskólum um aukið umferðaröryggi

Ráðherrar undirrita hvatningu til grunnskóla um umferðaröryggismál
Ráðherrar undirrita hvatningu til grunnskóla um umferðaröryggismál

Notkun endurskinsmerkja, öruggar ferðaleiðir og öryggi barna sem nota skólabíla eru megináhersluefni átaks um aukið umferðaröryggi grunnskólabarna sem þrír ráðherrar ýttu formlega úr vör í dag undir yfirskriftinni Grunnskóli á grænu ljósi.

Átakið er samstarfsverkefni innanríkisráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytisins ásamt Umferðarstofu og fleiri stofnana ráðuneytanna. Átakið hófst formlega með dagskrá í Ölduselsskóla í Reykjavík í morgun sem nemendur stýrðu. Ráðherrarnir Ögmundur Jónasson, Katrín Jakobsdóttir og Guðbjartur Hannesson undirrituðu þar skjal sem sent verður öllum grunnskólum með helstu upplýsingum um verkefnið, þar sem skólarnir eru hvattir til að fjalla um hve mikilvægt er að allir leggi sitt af mörkum til að tryggja umferðaröryggi.

Grundaskóli á Akranesi er móðurskóli umferðaröryggismála í grunnskólum og mun liðsinna þeim skólum sem taka munu þátt í átakinu. Grundaskóli heldur úti vefnum http://www.umferd.is/ í samvinnu við Umferðarstofu og Námsgagnastofnun og er þar að finna efni ætlað til umferðarfræðslu fyrir öll skólastig.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði við undirritunina í dag að hann væri afar þakklátur öllum skólum sem vildu taka þátt í umferðarátakinu. Umferðarfræðsla væri mikilvægt velferðarmál sem þyrfti að sinna statt og stöðugt og nauðsynlegt að allir legðu sitt af mörkum.

Á vef Umferðarstofu má sjá tvö fræðslumyndbönd þar sem fjallað er um notkun og mikilvægi endurskinsmerkja og um öryggi barna sem nota skólabíla.

Nemendur í Ölduselsskóla






 

 

 

 

 

Í átakinu er lögð áhersla á eftirfarandi þrjú atriði:

Endurskinsmerki
Í fyrsta lagi er lögð áhersla á mikilvægi þess að nota endurskinsmerki. Með aukinni notkun á endurskinsmerkjum má draga verulega úr slysum á gangandi vegfarendum. Þeir sem nota endurskinsmerki sjást margfalt  fyrr og betur en þeir sem nota þau ekki.

Öruggar ferðaleiðir
Í öðru lagi að öruggar ferðaleiðir séu valdar.  Mikilvægt er að huga vel að öruggum göngu- og hjólaleiðum á milli skóla og frístundastaða. Það er öllum hollt að ganga til og frá skóla og mikilvægt að draga úr bílaumferð en hafa þarf í huga að oft er öruggasta leiðin ekki sú stysta. Mikill umferðarhraði og umferðarþungi er vandamál við marga skóla og íþróttamannvirki.

Skólaakstur
Í þriðja lagi er athyglinni beint að öryggi barna er nota skólabíla. Nokkur fjöldi nemenda í grunnskólum á Íslandi kemur í skólann með skólabílum og því er mikilvægt að allir þekki þær reglur sem gilda og eiga að tryggja sem mest öryggi. Huga þarf að notkun öryggisbelta, því hvernig gengið er að og frá hópferðarbifreið og bílstjórar þurfa að gæta sérstakrar varúðar þegar ekið er framhjá skólabifreið.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta