Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Framhaldsdeild á Hvammstanga

Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra og Húnaþing vestra undirrituðu samning um starfsemi  framhaldsdeildar á Hvammstanga til ársloka 2015.

Mánudaginn 12. nóvember s.l. var undirritaður samningur á milli Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra og Húnaþings vestra um starfsemi  framhaldsdeildar á Hvammstanga til ársloka 2015.

Dreifnám á Hvammstanga verður nú að veruleika á grundvelli sóknaráætlana landshluta og forgangsröðun Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi í þá veru. Um er að ræða tveggja ára bóklegt nám á framhaldsskólastigi með kennslu frá FNV í gegnum fjarfundabúnað, tölvusamskipti og námslotur á Sauðárkróki.  Nemendur í dreifnámi fara í tvær námslotur á Sauðárkróki á hverri önn, viku í senn. Loturnar eru mikilvægur hluti af náminu, þá gefst nemendum tækifæri til þess að hitta kennara, fá verklega kennslu og stunda félagslíf.

Undanfarin ár hefur verið unnið að því að koma á dreifnámi í samstarfi við framhaldsskóla. Framhaldsdeildir eru nú starfræktar á Patreksfirði í samstarfi við Fjölbrautaskóla Snæfellinga (FSN), á Þórshöfn á Langanesi í samstarfi við Framhaldsskólann á Laugum (FL) og í Húnaþingi Vestra, Hvammstanga í samstarfi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Fyrirliggjandi eru umsóknir frá Vopnafirði, Hólmavík, Blönduósi, Grindavík og úr Rangárvallasýslu.

Framhaldsskóladeildir bæta aðgengi að menntun og auka þjónustu í dreifðum byggðum. Er það ekki síst mikilvægt eftir hækkun sjálfræðisaldurs og að fræðsluskylda var lengd til 18 ára aldurs. Framfarir hafa orðið mjög miklar í upplýsingatækni og því eru slíkar deildir raunhæfur valkostur fyrir byggðalög sem liggja fjarri framhaldsskólum en eru með nemendafjölda sem gefa tilefni til að halda úti framhaldsskólanámi í heimabyggð. Hins vegar þarf að gæta sérstaklega að fjölbreytni í námsframboði.

Framhaldsdeild á Hvammstanga Á myndinni eru Ingileif Oddsdóttir, Skúli Þórðarson, Katrín Jakobsdóttir og Jón Óskar Pétursson

Mynd: Aldís Olga Jóhannesdóttir, Norðanátt.is. Á vef Norðanáttar.is eru fleiri myndir ásamt umfjöllun

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira