Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2012 Forsætisráðuneytið

Málstefna Stjórnarráðs Íslands

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun, á degi íslenskrar tungu, málstefnu fyrir Stjórnarráð Íslands.

Málstefnan er í samræmi við lög um Stjórnarráð Íslands, nr.115/2011 og var unnin í samráði við Íslenska málnefnd og málnefnd um íslenskt táknmál.

Meginþættir stefnunnar eru þessir:

  • Íslenska er mál Stjórnarráðs Íslands og öll vinnugögn skulu vera á íslensku nema sérstök rök séu fyrir notkun annarra mála.
  • Stjórnarráðið skal kappkosta að tryggja að íslenskir ríkisborgarar geti kynnt sér á íslensku það efni sem frá íslenskum stjórnvöldum kemur og helstu gögn er varða meiriháttar ákvarðanir íslenskra stjórnvalda.
  • Grunnupplýsingar um starfsemi ráðuneytanna skulu vera aðgengilegar á íslensku táknmáli.
  • Vefur Stjórnarráðs Íslands skal vera aðgengilegur fötluðu fólki og standast alþjóðlegar viðmiðunarreglur (Web Content Accessibility Guidelines).
  • Lög, reglugerðir, dómsmálaauglýsingar og önnur stjórnvaldsfyrirmæli skal birta á íslensku.
  • Útgefið efni á vegum Stjórnarráðs Íslands (skýrslur, greinar og fréttir) skal vera á íslensku.
  • Málnotkun í Stjórnarráði Íslands skal vera til fyrirmyndar, nota skal vandað, einfalt og skýrt mál.
  • Tryggja skal réttindi manna af erlendum uppruna í samskiptum við Stjórnarráð Íslands með því að bjóða þeim eftir föngum túlkaþjónustu.
  • Skipa skal málnefnd með fulltrúum frá öllum ráðuneytum sem tryggir að farið sé eftir málstefnunni og að hún sé reglulega endurskoðuð.

Málstefna Stjórnarráðs Íslands

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum