Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Frumjöfnuður jákvæður um rúma 60 milljarða


Frumjöfnuður á árinu 2013 verður jákvæður um 60,2 mia.kr á rekstrargrunni, samkvæmt fjárlögum sem samþykkt voru á Alþingi í desember.

Það jafngildir um 3,2% af vergri landsframleiðslu (VLF). Bati í frumjöfnuði milli áranna 2012 og 2013 er áætlaður 33,4 mia.kr., eða sem svarar til 1,7% af VLF. Vaxtatekjur hækka lítillega milli áranna 2012 og 2013, eða um 200 m.kr., en vaxtagjöld hækka um 8,2 mia.kr. Fjármagnsjöfnuður versnar því um 8 mia.kr. milli ára. Áætlað er að heildarjöfnuður á árinu 2013 verði neikvæður um 3,7 mia.kr. eða um 0,2% af VLF. Bati í heildarjöfnuði milli áranna 2012 og 2013 er áætlaður 25,4 mia.kr., eða sem svarar til 1,5% af VLF.[1]

Rekstrargrunnur, mia.kr.
Fjárlög 2012
Áætlun 2012
Frumvarp 2013
Fjárlög 2013
Tekjur
552,9
529,2
570,3
579,4
Gjöld
543,7
558,2
573,1
583,0
Heildarjöfnuður
-20,7
-29,0
-2,8
-3,7
sem hlutfall af VLF (%)
-1,2
-1,7
-0,1
-0,2
Frumtekjur
501,8
508,6
545,4
558,6
Frumgjöld
465,9
481,7
485,0
498,4
Frumjöfnuður
35,9
26,9
60,4
60,2
sem hlutfall af VLF (%)
2,1
1,5
3,2
3,2
Vaxtatekjur
21,1
20,6
24,9
20,8
Vaxtagjöld
77,8
76,5
88,1
84,7
Fjármagnsjöfnuður
-56,7
-55,9
-63,2
-63,9

Stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum undanfarin þrjú ár hefur byggt á markmiðum í áætlun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum sem sett var fram á árinu 2009. Annars vegar hefur verið horft til þess að frumjöfnuður í rekstri ríkisins, þ.e. rekstrarafkoma án fjármagnstekna og fjármagnsgjalda, yrði jákvæður á árinu 2012 og gera áætlanir ráð fyrir að sá áfangi náist. Hins vegar er stefnt að því að heildarjöfnuður, þegar vaxtajöfnuður er talinn með, skili afgangi árið 2014, sem er ári seinna en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2013 var ríkisfjármálaáætlunin uppfærð miðað við ýmis ný og breytt áform en þó á grundvelli þess að áfram verði gengið út frá þessum markmiðum um aðlögun ríkisfjármálanna og feril afkomubatans.

Allnokkrar breytingar á tekju og útgjaldahlið í fjárlagafrumvarpi

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2013 komu fram allnokkrar breytingar til hækkunar, bæði á tekju– og útgjaldahlið, frá ríkisfjármálaáætlun 2013-2016 sem var kynnt með fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012.

Aukningu frumtekna í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2013 mátti aðallega rekja til nýrra tekjuöflunaraðgerða, aukinna tekna af veiðigjöldum á aflaheimildir í sjávarútvegi og endurskoðun tekjuáætlunar með hliðsjón af nýrri þjóðhagsspá.

Á móti tekjuhliðinni vóg hækkun frumgjalda sem að hluta til má rekja til sérstakra áherslumála ríkisstjórnarinnar. Annars vegar var áhersla lögð á að örva fjárfestingu og nýsköpun í hagkerfinu með framlögum til verkefna á  fjárfestingaáætlun  ríkisstjórnarinnar 2013-2015. Hins vegar var litið til aðgerða sem ætlað er að koma til móts við fjárhagsvanda skuldsettra heimila og barnafjölskyldna, svo sem hækkunar á barnabótum og vaxtabótum. Að öðru leyti hækkuðu frumgjöld frá fyrri áætlun vegna aukinna útgjaldaskuldbindinga, launa-, verðlags- og gengisbreytinga og breyttra forsendna frá fyrri ríkisfjármálaáætlun.

Arðgreiðslur endurmetnar

Við 2. og 3. umræðu fjárlagafrumvarpsins á Alþingi voru gerðar frekari breytingar á frumvarpinu til hækkunar, bæði á tekju- og útgjaldahlið. Sú breyting varð á tekjuáætlun frumvarpsins að áætlaður söluhagnaður vegna eignasölu lækkar um helming, úr 8 mia.kr. í 4. Á móti voru arðgreiðslur frá opinberum fyrirtækjum endurmetnar í samræmi við framkomna arðgreiðslustefnu ríkisins og áætlanir Bankasýslu ríkisins um auknar arðgreiðslur frá fjármálafyrirtækjum.

Nettóáhrif af þessum tveimur breytingum og öðrum breytingum á tekjuhliðinni eru að áætlaðar frumtekjur hækka um 13,2 mia.kr. frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Á móti auknum tekjum vegur 13,3 mia.kr. hækkun frumútgjalda á útgjaldahliðinni, en þar vega þyngst 5,5 mia.kr. vegna verkefna í fjárfestingaáætlun 2013-2015 sem gert er ráð fyrir að verði fjármögnuð með tekjum af veiðigjaldi, söluhagnaði af eignasölu og arðgreiðslum. Auk þess er 0,5 mia.kr. framlag í Grænan fjárfestingasjóð sem færist ekki um rekstrarreikning heldur kemur fram í sjóðstreymi.

Þá koma ýmsar almennar hækkanir á áætluðum útgjöldum en þar má t.d. nefna hækkun lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs og  hækkun á útgjöldum vegna S-merktra lyfja. Eftir sem áður var unnið að þessum áætlunum um breytingar á tekju- og útgjaldahlið frumvarpsins út frá fyrri markmiðum um jöfnuð í ríkisfjármálum og hafa þær ekki teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs fyrir árið 2013.

Skref í átt að sjálfbærum ríkisrekstri

Það, að ná jákvæðum frumjöfnuði á árinu 2012, er forsenda þess að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs, ná niður vaxtakostnaði og gera ríkisreksturinn sjálfbæran til lengri tíma litið. Áætlað er að heildarskuldir ríkissjóðs nemi 1.509 mia.kr. í lok ársins 2013 sem jafngildir liðlega 80% af VLF. Á sama tíma er áætlað að hreinar skuldir nemi um 785 mia.kr. eða sem svarar til um 42% af VLF. Skuldir ríkissjóðs eru því teknar að lækka sem hlutfall af VLF.

Meginmarkmið ríkisfjármálastefnunnar til lengri tíma litið er að lækka heildarskuldir ríkissjóðs í um 45–50% af vergri landsframleiðslu (VLF) og heildarskuldir hins opinbera í um 60% af VLF. Til að ná því markmiði er nauðsynlegt að greiðsluafkoma ríkissjóðs skili árlega myndarlegum afgangi um langt árabil og að andvirði af sölu eigna ríkissjóðs verði varið til uppgreiðslu á skuldum.

Taka þarf tillit til áhættuþátta

Eftir sem áður er nauðsynlegt að taka tillit til þeirrar fjárhagsáhættu sem felst í beinum og óbeinum skuldbindingum ríkissjóðs. Í fyrsta lagi er sú áhætta til staðar að ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hækki umfram það sem gert er ráð fyrir í núverandi áætlunum, en það myndi leiða til hærri vaxtakostnaðar af nýrri lántöku og hafa neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu ríkissjóðs.

Í öðru lagi má nefna skuldbindingar ríkissjóðs vegna B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga. Áfallnar lífeyrisskuldbindingar sjóðanna í árslok 2011, miðað við iðgjöld sem þegar höfðu verið greidd til þeirra og að frádregnum fyrirframgreiðslum ríkissjóðs upp í skuldbindingarnar, námu 373 mia.kr. samkvæmt ríkisreikningi.

Í þriðja lagi eru horfur á að rekstur Íbúðalánasjóðs verði erfiðari en áður var talið. Vaxtamunur sjóðsins er ófullnægjandi, sem kann að leiða til viðvarandi rekstrarhalla. Þá ber sjóðurinn áhættu af áframhaldandi aukningu vanskila og vaxandi afskriftarþörf, auk áhættu sem tengist uppgreiðslu veittra lána. Þá veldur yfirtaka fullnustueigna sjóðnum verulegum kostnaði.

Í fjárlögum 2013 er lagt til að veitt verði heimild til að auka stofnfé um allt að 13 mia.kr., þannig að eiginfjárhlutfall sjóðsins verði eigi lægra en 3% miðað við ársbyrjun 2013. Jafnframt er það áfram stefna stjórnvalda að eigið fé sjóðsins verði 5% líkt og gert er ráð fyrir í reglugerð um sjóðinn.

Viðsnúningur hefur orðið í rekstri ríkissjóðs á síðustu árum. Verið er að stöðva skuldasöfnunina og skapa forsendur til að létta á skuldabyrðunum. Það er því forgangsverkefni á næstu árum að tryggja að markmið um jöfnuð og afgang náist með áframhaldandi aðhaldi og ábyrgð í ríkisrekstrinum um leið og verðmætasköpun er aukin í hagkerfinu.


Skýringar

1. Í þessu sambandi þarf þó að taka með í reikninginn að 500 m.kr. framlag til Græns fjárfestingarsjóðs færist ekki um gjaldahlið í rekstrarreikningi heldur sem stofnfjárframlag í sjóðstreymi og felur það í reynd í sér lakari útkomu sem því nemur.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta